20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

50. mál, tollalög

Jörundur Brynjólfsson:

Það hefir síðan við 1. umr., eins og við mátti búast, komið ýmislegt það fram, sem hefir skýrt málið betur en áður var búið að skýra það. Skýrsla forstjóra landsverslunarinnar hefir algerlega sannað málstað okkar, sem álítum, að engin ástæða sje til að breyta til með tóbaksverslunina.

Jeg sje ekki, að ástæða sje til að ræða þetta mál mikið nú, þar sem það var þrautrætt við fyrstu umræðu, og umræður um það nú yrðu ekki til annars en að endurtaka flest það, sem sagt var um málið við 1. umr. En það tel jeg tilgangslaust. Skal jeg þess vegna geyma að senda þeim mönnum kvittun, sem svöruðu mjer við fyrstu umr. þessa máls. En lifi frv. og komist til 3. umr., þá mun jeg nota tækifærið og senda þeim mönnum skeyti, sem eiga þau hjá mjer, ef nýtt tilefni gefst til þess og jeg tel það þess vert.

Fyrir mjer er þetta algert fjárhagsmál. Jeg lít svo á, að fjárhagur ríkissjóðs leyfi ekki, að þeim tekjum, sem hjer er um að ræða, sje teflt í tvísýnu, því jeg er viss um, að landið verður fyrir alvarlegum tekjumissi, ef frv. þetta verður samþykt. Jeg hefi því hugsað mjer að bera fram tillögu til rökstuddrar dagskrár, er hljóðar þannig:

Þar sem tóbakseinkasölunni var í fyrstunni komið á af fjárhagsást æðum, til þess að afla landinu tekna, og hún hefir gefið landinu ríflegri tekjur en við var búist í fyrstu, en afnám einkasölunnar ríkissjóði að skaðlausu myndi hafa svo mikinn tollauka í för með sjer, að vörur þessar hlytu að hækka allmjög í verði, og ennfremur að þjóðin yfir höfuð virðist una þessu fyrirkomulagi vel, þá þykir deildinni að svo komnu ekki hlýða að gera þessa breytingu og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.