22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

50. mál, tollalög

Jón Auðunn Jónsson:

Háttv. þm. Str. (TrÞ) skoraði bæði á mig og fleiri, sem greiddu þessu fyrirkomulagi atkv. á. þinginu 1921, að skýra frá þeim ástæðum, sem við hefðum nú til að vera á móti því. Þótt hv. þm. spyrji svona, er jeg sannfærður um, að hann veit ástæðuna, sem sje þá, að við erum sannfærðir um, að breytingin verður ekki til teljandi tekjurýrnunar fyrir ríkissjóð; getur jafnvel orðið til tekjuauka. Neytendur fá ódýrari vöru, og svo er sparað það óþarfa mannahald og annar kostnaður, sem af einkasölunni leiðir, því kaupfjelög og kaupmenn hafa engan aukinn kostnað af því að annast þessa grein verslunarinnar. — Þetta eru í stuttu máli mínar ástæður.

Þá vil jeg snúa mjer að hv. frsm. minni hl. (KlJ) og reikna upp dæmi það, er hann tók til þess að sýna fram á, að ríkissjóður tapaði ¼. milj. kr. tekjum við að leggja tóbakseinkasöluna niður. Hann lagði til grundvallar árið 1924, það mesta veltiár, sem án efa hefir komið á síðustu 20 árum.

Hv. frsm. minni hl. setur dæmið þannig fram:

A.

Tekjur einkasölunnar 1924.

1. Tollur kr. 524464,05

2. Verslunarhagnaður ... — 350000,00

3. Til varasjóðs — 35106,00

4. (Gengishagnaður — 67988,33

Alls kr. 977558,38

B.

Áætlaðar tekjur samkv. frumvarpinu.

1. Tollur af 74300 kg. tóbaks á 6 kr kr. 445800

2. Tollur af 17583 kg. vindla

og vindlinga á 16 kr — 281328

Alls kr. 727128

Samkvæmt þessum reikningi verður því tekjutap ríkissjóðs kr. 250430,38. Fyrir athugalausan lesanda er þetta fallegt dæmi, sjerstaklega ef hann er fyrirfram ákveðinn fylgismaður einkasölunnar. En er nokkur sá bóndi, útgerðarmaður eða kaupmaður til í þessu landi, sem leggur til grundvallar atvinnurekstri sínum, ef hann ætlar að gera áætlanir fram í tímann, mesta veltiárið, sem yfir hann hefir komið í búskapnum? Jeg neita því, að nokkur sá heimskingi sje til á voru landi.

Eftir þessum hugsunarhætti frsm. minni hl. ætti Alþingi að miða tekjuáætlun fjárlaganna við tekjuhæsta árið, sem ríkissjóður hefir haft. En jeg veit ekki til að nokkur hafi átt sæti á Alþingi, sem svo gálauslega hafi viljað breyta. Og jeg býst ekki við, að neinn eigi eftir að eiga sæti á Alþingi, sem slíkt geti gert. því ábyrgðartilfinningin hlýtur að vakna áður en svo langt er farið.

Við reikninginn sjálfan er ýmislegt að athuga. Háttv. frsm. reiknar t. d.:

Gengishagnað ca kr. 68000

Varasjóðstillag — 35000

Verðhækkun á vörubirgðum

vegna tollhækkunar — 20000

Alls kr. 123000

Er nú nokkur sá maður til með verslunarþekkingu, sem þannig myndi reikna, að telja þessar tölur með verslunarhagnaði og byggja framtíðaráætlun á þeim? Jeg neita því.

Um 1. liðinn, gengishagnaðinn, er það að segja, að hann er ekki hugsanlegur nema í óvenjulegu verðsveifluári. Og hjá engri þjóð í heimi mun annað eins verðsveifluár, til hækkunar genginu, hafa komið fyrir eins og síðasta ár hjer á landi. Og þessi gengishagnaður á versluninni gat ekki átt sjer stað, nema með einkasölu. Því hefði verslunin verið frjáls, var ómögulegt að halda verðinu á tóbakinu svona háu, því að nýir innflytjendur hefðu selt með miklu lægra verði, og þeir, sem birgðir áttu, hefðu orðið að lækka þær í verði og taka tapinu, en neytendur fengið þeim mun ódýrari vöru. Þetta er því beinlínis neytendaskattur og má ekki teljast með verslunarhagnaði,

Þá kem jeg að 2. lið. en það er tillag í varasjóð, kr. 35106,47. Þetta ber heldur ekki að reikna til verslunarhagnaðar af því að það er öllum vitanlegt, að það er aðeins lagt frá fyrir fyrirfram sjáanlegu tapi. Þessi varasjóður er líka lítill, einar 65 þús. kr., en allir fjárhagsnefndarmenn vita, og forstjóri landsverslunar ber heldur ekki á móti því, að tap muni verða á útistandandi skuldum sem nemur að minsta kosti eins miklu og allur varasjóður verslunarinnar. Þess vegna verður ekki hægt að byggja neinar tekjur ríkissjóði til handa á þessum lið, því það er víst, að hann er í raun og veru ekki til nema á pappírnum.

Þá er 3. liður, tollgengisviðauki, sem er það sama og gengisviðauki. Þetta er heldur ekki hægt að telja með almennum tekjum, þegar reikna á, hvað verslunin muni gefa af sjer framvegis. nema hv. þdm. sjeu þess albúnir að hækka tollinn á tóbaki um 25%, ef verslunin stendur áfram.

Þá er auðvitað eftir að áætla rýrnun á vörubirgðunum, en það er ekki gert hjer nje heldur á efnahagsreikningi verslunarinnar. Jeg þekki enga verslun, sem gerir svo upp reikning sinn, að hún geri ekki eitthvað fyrir verðfalli og rýrnun á fyrirliggjandi vörubirgðum. Landsverslun þarf nú kannske ekki að gera fyrir verðfalli. Því hún getur sett verðið svo hátt sem henni sýnist. En ef nokkuð væri hugsað um hag neytenda, þá ætti verðlækkun að koma þegar gengi íslensku kr. hækkar.

Jeg held, að það sje venja hjá verslunarfyrirtækjum að draga 10—15% frá birgðaupphæðinni fyrir rýrnun og verðlækkun. Jeg skal nú fara milliveg og telja rýmunina 12%. en það verða 41 þús. kr. Þá er vissulega eftir einn útgjaldaliður, sem er vís fyrirfram, en það er sveitarútsvar. Verslunin á eftir lögum að greiða 5% af nettógróða sínum, og eftir því sem minni hl. reiknar, þá myndi það nema 22500 kr. Jeg fer nú ekki svo hátt og tel það ekki yfir 10 þús. kr. Hjer er þá komið til frádráttar þeim tekjum, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) telur, 190 þús. kr., og jeg hygg, að því verði ekki neitað, að þetta sje raunverulega rjett eins og jeg hefi nú lagt það fyrir, og jeg skora á hv. andmælendur að hrekja það, sem jeg nú hefi haldið fram. En þó jeg hafi nú þannig yfirfarið og leiðrjett dæmi þetta, þá leiðir ekki þar af, að jeg viðurkenni, að taka beri árið 1924 til þess að sýna rjetta útkomu af eðlilegum rekstri verslunarinnar. Jeg vildi aðeins sýna, hver yrði hin rjetta útkoma, ef árið 1924 væri lagt til grundvallar og áætlun miðuð við það.

En ef taka á mesta tekjuár einkasölunnar til þess að sýna útkomuna af henni, þá er jafnleyfilegt að taka hæsta innflutningsár frjálsrar verslunar, árið 1919, og leggja það til grundvallar fyrir tolltekjunum eftir þessu frv., og yrðu þá tekjurnar þessar:

126431 kg. tóbak á 6 kr. pr.

kg. = kr. 758586

42860 kg. vindlar á 16 kr. pr.

kg. = — 685760

Alls kr. 1444346

En tekjur samkvæmt dæmi hv. minni hl. og þar frá dregið það, sem jeg hefi sýnt fram á, að frá beri að draga, kr. 787558,05. Er þá tekjutap ríkissjóðs við einkasöluna samkvæmt áður reiknuðu kr. 656787,95.

Jeg tek það fram, að mjer dettur ekki í hug að byggja á þessum reikningi, en hann er hliðstæður hinum reikningnum. Ef hv. minni hl. vill skýra málstað sinn með einhliða dæmi, þá getur hann ekki mótmælt því, að meiri hl. byggi á sama grundvelli.

Einfaldasta og ábyggilegasta dæmið, sem flestir mundu taka til þess að gera sjer grein fyrir afleiðingunum af því að leggja niður einkasöluna, væri þriggja ára meðaltal af tolltekjum og verslunartekjum og innflutningi einkasölunnar, og er það þó mjög í óhag frjálsri verslun, því það hefir sýnt sig, að innflutningurinn hefir minkað mjög síðan einkasalan var sett.

Dæmið verður svona:

A. Einkasalan:

Tollur 1297 þús kr. : 3 .... kr. 432000

Verslunararður 650 þús. kr.: 3 — 217000

Meðaltalstekjur ríkissjóðs kr. 649000

B. Eftir till. frv.

Tóbak 201323 kg. : 3 = 67018

kg. 6 kr kr. 402648

Vindlar og vindlingar 46634

kg. : 3 = 15545 kg. 16 kr. — 248720

Meðaltekjur ríkissjóðs kr. 651368

Það er talað um, að hjer mætti bæta við varasjóði einkasölunnar. En jeg spyr: Mundi nokkur verslun gera það, þegar hún vissi, að varasjóðurinn er vitanlega allur tapaður?

Þetta, sem nú var talið, eru hinar raunverulegu tekjur, sem verslunin gefur ríkissjóði. Jeg hygg óhætt að fullyrða, að hjer sje gengið svo langt sem frekast verður gert í því að reikna einkasölunni í hag, og tekjur hennar verða ekki með neinum rjetti taldar hærri. En ef nú væri tekið til samanburðar meðaltal af innflutningi tóbaks árin 1914—’21, sem liggur nærri, því þau árin var verslunin frjáls, þá er útkoman þessi — ef tollur er reiknaður eftir ákvæðum frv.:

86340 kg. tóbaks 6 kr. pr. kg.= kr. 518040 22848 kg. vind. og vindl. 16 kr.

pr. kg. = — 365568

Samtals kr. 883608

Meðaltekjur einkasölunnar, svo sem áður var talið, kr. 649000. Tekjuhalli af einkasölunni eftir þessu kr. 234608.

Þá er ótalinn sá hagur, sem landsmenn myndu hafa í lægra tóbaksverði, sem jeg hefi við 1. umr. málsins leitt full rök að, að mundi nema um 130 þús. kr. á ári. Og enn er ótalin sú eyðsla á fje, sem gengur til þess að reka þessa verslun. Því er eytt að óþörfu. Jeg þori að fullyrða það, að kaupmenn og kaupfjelög mundu ekki bæta við sig einum starfsmanni, þó þeir tækju við verslun með þessa vöru. Landsverslunin kostar nú 92 þús. kr., en það er full ein kr. á nef hvert í landinu. Hvað sparist við innkaup einkasölunnar, þá er það mjer vitanlega ekki neitt, því kaupmenn og kaupfjelög mundu líka fá vöruna beint frá útlöndum, frá verksmiðjum þar og verslunarhúsum, en kostnaður inn við það engu meiri en að fá vöruna úr Reykjavík, en í sumum tilfellum minni. Þetta er ástæðan, sem fyrir mjer vakir, er jeg vil breyta til.