22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

50. mál, tollalög

Frsm. minni hl. (Klemens Jónsson):

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagðist ætla að upplýsa um þær rjettu tölur áður en lengra yrði farið í umr. Hann gat annars alveg sparað sjer það, því þessar tölur standa allar í landsreikningunum 1919—’23, og þá höfum við allir liggjandi í höndunum og getum sjálfir sjeð, hvað tolltekjurnar hafa verið áætlaðar og hver útkoman varð þessi ár, og dregið þar af þær ályktanir, sem okkur sýnist, svo þessi lestur hæstv. fjrh. (JÞ) var öldungis óþarfur. Annars held jeg, að þessar tölur, sem hann nefndi, sjeu alls ekki sambærilegar, því þess ber að gæta, að árin 1919—’20 — sem hæstv. ráðh. (JÞ) lagði sjerstaklega áherslu á — var innflutningur á tóbaki, einmitt þau árin, óvanalega mikill, og þess vegna er tollurinn svo hár það ár. Það var áreiðanlega flutt inn margfalt meira tóbak þau 2 ár, 1919 og 1920, heldur en nokkurntíma áður, eins og innflutningsskýrslur bera ljóslega með sjer, og þess vegna hlaut innflutningurinn 1921— ‘22 að verða miklu minni. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að tollur á tóbaki 1922 hefði verið áætlaður 750 þús. kr., en reynst 439 þús. kr. Til þessa liggja tvær eðlilegar ástæður. Í fyrsta lagi sú, að áætlunin var óforsvaranlega ógætileg. Það var óhugsandi, að innflutningurinn gæti haldið áfram jafnmikill, þegar búið var að flytja þessar óhemjubirgðir af tóbaki inn árin á undan. Hin ástæðan er sú, að þá var byrjuð kreppan, en af henni leiddi eðlilega það, að menn tóku alment að spara við sig það, sem hægt var, einkum munaðarvöru. Þetta eru ástæðurnar til þess, að tollurinn varð þetta ár svo langt undir áætlun. — Jeg sje satt að segja ekki, hvað hæstv. fjrh. (JÞ) vildi með því að upplýsa um þessar tölur, nema þá það, að áætlunin frá 1922 hefði verið mjög ógætileg. En hún er ekki á minni ábyrgð. (Fjrh. JÞ: Sýna, hvernig vonirnar hefðu ræst!). Hæstv. fjrh. (JÞ) segir, að vonirnar hafi ekki ræst, en hæstv. atvrh. (MG) sagði í gær, að þær hefðu ræst langt fram yfir það, sem búist var við. Hjer eru þá vitnisburðir tveggja ráðherra, sem ganga hvor á móti öðrum. En jeg hygg, að það verði fleiri menn úti um land, sem taka undir það með hæstv. atvrh. (MG), að vonir þeirra hafi fullkomlega ræst í þessu efni.

Það er líka í alla staði eðlilegt, að útkoman 1924 sje betri en undanfarin ár, vegna þess að þá eru hinar gömlu birgðir fyrst teknar að þverra. Þá fyrst er hægt að reka ríkisverslunina sem einkaverslun. Alt þangað til átti hún að stríða við samkepni. Jeg þykist ekki þurfa að gera frekari athugasemdir við þær tölur, sem hæstv. fjrh. nefndi. Það er auðvelt að gera sjer grein fyrir því, að þær eru eðlilegar.

Því hefir hjer verið haldið fram alment að það mætti hæglega ná sömu tekjum af tóbaksversluninni með tolli og áður með einkasölunni. Þetta má auðvitað, á þann hátt að hækka tollinn upp úr öllu valdi. En mundi það verða ódýrara fyrir neytendur? Því getur hver svarað fyrir sig. En af reynslu undanfarins árs, 1924, og þeirra þriggja mánaða, sem liðnir eru af þessu ári, þá er það ekki ófyrirsynju að líta svo á, að hjer sje um að ræða mikið hagsmunamál fyrir ríkið. En ef hæstv. fjrh. vill kasta þessum tekjuauka, heilum miljónarfjórðungi, burt, þá getur hann ráðið það við sjálfan sig, en hann getur þá ekki vænst þess, að okkur hinum sje neitt sjerlegt kappsmál um það að útvega tekjuauka á annan hátt, ef þessum er hafnað, sem nú er fyrir hendi.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) tók sjer fyrir hendur að reikna upp dæmi mitt, og taldi eins og fleiri ófært að leggja árið 1924 til grundvallar, af því að það hefði verið veltiár. Benti hann á það, að ekki væri venja, þegar gerðar væru áætlanir fyrir ríkissjóð, að miða við þau ár, sem hæst hefðu orðið að krónutali. Það er rjett, að þegar reynsla er fengin fyrir upphæð tollanna og þeir búnir að standa mörg ár, þá er ætíð miðað við síðustu 5 árin, eða jafnvel 7 árin; en í byrjun er auðvitað, að miða verður við síðasta eða jafnvel 2 síðustu árin. Það væri ef til vill rjettast að taka hjer meðaltal af árunum 1923 og ‘24, enda verður útkoman þá ekki fjarri því, sem hún varð í dæmi því, er jeg tók af árinu 1924. Að minsta kosti mjög fjarri því, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) fjekk út. Hann byrjaði sinn útreikning með því að sleppa gengishagnaði; hefir áður verið vikið að þessu við 1. umr., og skal jeg ekki orðlengja um það nú. Jeg vil aðeins svara því, að enn getur enginn sagt um það, hvort gengið breytist eftirleiðis til hagnaðar eða óhagnaðar, en hverfi gengishagnaðurinn alveg, þá kemur upp í hann að því er þetta ár (1925) snertir aukinn verslunarhagnaður, því salan nam 90 þús. kr. meira fyrsta ársfjórðung 1925 en á sama tíma í fyrra. Hv. þm. (JAJ) sagði ennfremur, að þessi gengishagnaður kæmi ekki fyrir hjá einkaverslunum, því þær settu vöruna strax niður sem svaraði gengishagnaði. Jú, jeg held það. Við eigum svo sem því að venjast, að kaupmenn hlaupi til og setji vöru sína niður, ef gengið hækkar! Nei. Það líða vissulega margir mánuðir án þess, að þeim komi slíkt í hug. Það er hægt að benda á mörg dæmi þess, að vörur, sem lækkuðu ytra í verði fyrir ári síðan, eru þó seldar hjer með líku verði. Nei, það þýðir ekki að segja, að kaupmenn noti sjer ekki gengishagnaðinn. (JAJ: En kaupfjelögin?). Og kaupfjelögin vafalaust líka, en þeirra hagur lendir að lokum hjá sjálfum viðskiftamönnunum.

Þá vildi hv. þm. (JAJ) ekki telja varasjóðinn með verslunarhagnaði, heldur taldi hann hann lagðan til hliðar til þess að mæta væntanlegum áföllum og tapi. En hvað vitum við um það? Við vitum báðir jafnmikið um það, hvað tapast hafi og geti tapast, því fjárhagsnefnd hefir haft í höndum lista yfir útistandandi skuldir verslunarinnar, og jeg held, að

hvorki hv. þm. (JAJ) nje jeg, eða nokkur annar, geti að svo komnu vitað neitt um það með vissu, hvað tapað sje af þessum skuldum og hvað ekki. Háttv. þm. (JAJ) kann að vísu að þekkja í kringum sig menn, sem ekki eru gjaldfærir og skulda hjer, og jeg kannske líka einhverja hjer í Reykjavík, sem líkt stendur á fyrir. En þó menn sjeu ekki borgunarfærir í dag, þá getur efnahagur þeirra breyst síðar, svo þeir standi í fullum skilum, en aðrir, sem nú standa í skilum, orðið síðar gjaldþrota. Slíkt getur því bæði breyst til hins betra og hins verra.

Þá talaði hv. þm. (JAJ) um rýrnun á vörubirgðum og verðfall. Það er sjálfsagt að gera ráð fyrir rýrnun, en hvað snertir verðfall, þá er ekki hægt að segja um það.

Nú kem jeg loks að því, sem var fáránlegast í ræðu hv. þm. N.-Ísf., er hann var að búa til dæmi um það, ef einkasalan hefði verið 1919. Hefði, hefði, sagði kerlingin. Það er hægt að búa til dæmi og segja: Svona er það og svona gæti það verið, ef jeg reikna svo og svo. En slíkt sannar ekki neitt. En úr því dæmið leit svona út frá 1919 — hvers vegna sá hann það ekki 1921, og hví fylgdi hann einkasölunni þá, þegar hann gat sjeð, að það yrði tap fyrir ríkissjóðinn, og það ekki minna en 600 þús. krónur á ríkisrekstri? Þetta dæmi er bara tilbúið; það er blátt áfram vitleysa.

Þá sagði hv. þm. (JAJ), að ekki hefði sparast mannahald við landsverslun, svo sem við hefði mátt búast. En undireins og einkasölunni ljettir af, munu rísa hjer upp heildsalar, sem sjálfsagt fá eitthvað að gera, svo að vinna sparast varla, þó einkasalan verði afnumin. Annars hafði jeg ekki búist við, að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem jeg veit að er greindur og ábyggilegur maður, mundi koma með aðrar eins fjarstæður og hann hefir nú komið með.