22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2964 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

50. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Jeg hefi sjeð við nánari athugun, að það er ekki rjett, sem jeg sagði við 2. umr., að hv. minni hl. ljeti sjer nægja Móses og spámennina. Jeg sje, að hv. frsm. (KlJ)

hefir gert sitt til endurbóta á spádómuni þeirra. Hann gerði sem sje tap ríkissjóðs á því að skifta á einkasölu og tolli 14 milj kr., en í skýrslunni frá landsverslun er upphæðin aðeins 208 þús. kr. Jeg man ekki glögt, hvernig á þessum mismun stendur, en líklega kemur hann af því, að hv. frsm. (KlJ) tekur að einhverju leyti gengisgróðann að frádregnu útsvari, en til þess hefir landsverslun ekki treyst sjer.

Jeg skil ekki annað en að við getum orðið sammála um, þegar gerð er áætlun um framtíðararð, að ófært sje að reikna tilviljunargróða, eins og gengisgróða. Fleira er við reikninginn að athuga. Varasjóður er talinn með tekjum, en athuga verður, að í varasjóð er lagt af því að gert er ráð fyrir tapi, bæði á því, sem stendur í skuldum og birgðum. Þá hefir verslunin haft meiri tilviljunargróða en gengismuninn. Í skýrslum landsverslunar mun ágóði hennar á gengisviðaukatollinum af fyrirliggjandi birgðum vera talinn 20 þús. kr. Loks er útsvarið 20 þús. kr. Alls verður þetta 75 þús. kr. En við þetta er að athuga, að tóbaksverð landsverslunar lækkaði um 10% um áramótin, og ástæðan til þess mun hafa verið verðfall, sem varð á árinu smátt og smátt. Við að taka ekki tillit til þessa verðfalls, sem í raun og veru varð smám saman, mun landsverslun hafa grætt töluvert fje.

Í venjulegum árum, þegar verð er stöðugt, er ekki um slíkan gróða að ræða, og má því ekki byggja á þessu í framtíðinni. Þykist jeg ekki fara óvarlega, þótt jeg taki ¾ af allri vörusölu verslunarinnar á árinu, eða sem svarar þremur ársfjórðungunum, sem verðfallið varð á, og jafni verðlækkuninni á það, þannig, að reikna 5% af þeirri upphæð. Helminginn af því, sem verðlagið var lækkað um um áramótin. Þetta verða 5% af 1680 þús. kr., og verða það 84 þús. kr. Áður voru komnar 75 þús. kr., og er þær bætast við, verður þetta um 160 þús. kr. Þetta verður tvímælalaust að draga frá mismun þeim, er landsverslun telur. Tap ríkissjóðs við skiftin ætti þá að rjettu lagi að teljast í mesta lagi 48 þús. kr., og það verður að líta svo á, að vægilega sje farið í frádráttinn. Þarna skeikar þá frá 14 miljón kr. niður í 48 þús. kr. Hinsvegar hefir því ekki verið neitað, að í hagstæðu ári geti tekjurnar orðið meiri með einkasölu en tolli.

Um það, að vonir þær, er menn gerðu sjer um tóbakseinkasöluna, hafi ræst, þá get jeg ekki gengið inn á það, eða að þær vonir, er menn gerðu sjer 1921, hafi ekki lyft sjer hærra en reynslan. Jeg vjek að þessu á síðasta þingi og kom þá með nokkrar tölur því til sönnunar.

Eins og kunnugt er, bar stjórnin fram bæði frv. um einkasölu á tóbaki og áfengi og áætlaði af því ½ milj. kr. tekjur. Vínsalan var skilin frá, því að ekki þótti fært að stofna til hennar sem gróðafyrirtækis, eins og þá stóðu sakir. Áætlun stjórnarinnar um tekjur af tóbaki var 200 þús. kr. og bygð á því, að álagning ætti að vera 15—50%. Kostnaður mun vera um 8%, og má því segja, að hreinn ágóði hefði átt að verða 7—42%. Svo hækkaði fjhn. álagninguna í 25—75%, og þá hefði ágóðinn átt að verða 18% og hámark 67%. Sem sagt, hækkun fjhn. er hjer um bil hundraðföld. Leiddi auðvitað af þessu, að ágóðavonin ætti að aukast sem því svaraði. Ef reiknað er nákvæmlega, miðað við áætlun stjórnarinnar, þá kemur út, að eftir till. fjhn. hefði átt að fást 350 þús. kr. ágóði að meðaltali. Það er ekki meira að vísu. En það er ekki hægt að segja, að vonirnar hafi ræst að heldur, því að í slíkum áætlunum hafa menn altaf vaðið fyrir neðan sig. Og þó að þessi upphæð hafi fengist í slíku uppgripaári sem síðastl. ár, þá verður að gera ráð fyrir meðaltalinu talsvert lægra, eins og þegar hefir verið sýnt fram á. Það nær því ekki neinni átt, að glæsivonirnar hafi ræst, enda er sannleikurinn sá, að hinar háu vonir manna um uppgripagróða af þessu fyrirtæki til handa ríkissjóði voru bygðar á ramskökkum hugmyndum manna um heildsöluálagningu kaupmanna á undanförnum árum.

Út af því, sem sagt hefir verið nú um málið, hefi jeg lítið að segja. Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) taldi tóbakið skaðlegt og ætti því að draga úr notkun þess. Það er nýr grundvöllur að ræða málið á. Það er vitanlegt um vínið, að einkasala á því er fyrst og fremst bygð á þessu, en sú stefna að hefta tóbaksnautn, er ekki til, og þess vegna verður ekki tillit til hennar tekið. Ef hún kemur upp, þá ætti að ræða hana — væntanlega þó á þeim grundvelli, að lögleg sala minkaði. En um áfengi er það nú kunnugt, að á því er mikil ólögleg sala, og eins mundi fara um tóbakið. Reynslan af banninu er ekki svo glæsileg, að jeg held ekki að menn ættu nú að fara að fara út á þá braut með tóbakið.

Við 2. umr. hjelt jeg því fram, að það væri viðurkent af þorra þm., og jafnvel öllum nema einum, að einkasala væri óheppileg yfirleitt. Nú hefir einn hv. þm. mótmælt þessu, og getur því verið, að þeir sjeu tveir, er líta svo á, að hún sje heppileg. En meðan ekki koma fleiri, er óþarfi að ræða þá hlið málsins.

Í fyrra fjekk jeg ýmsar ákúrur frá fylgismönnum einkasölunnar fyrir það að blanda þessu tvennu saman. Jeg veit þó ekki betur en að Framsóknarflokkurinn haldi því fram, að einkasala sje slæm yfirleitt. Og meðan ekki eru færðar sönnur á, að sjerstaklega standi á með tóbakið, sje jeg ekki ástæðu til að færa fram gagnstæð rök.

Háttv. 1. þm. Árn. vildi þó ekki heldur ganga inn á stefnuskrá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), því að hann sagði, að einkasala væri stundum heppileg, en stundum ekki. Það má ekki byggja framtíð landsins á því, að stundum sje einkasala og stundum frjáls verslun.

Meðan því er ekki haldið fram, að einkasala sje æskileg yfirleitt, getur ekki komið til mála að taka hana upp. Það er að vísu vitanlegt, bæði með tóbak og aðrar vörur, að ríkissjóður getur grætt á einkasölu á þeim, þegar vel lætur í ári. En það árar ekki altaf eins, og þetta er áhættuatvinnurekstur, og við viljum ekki, að ríkissjóður taki á sig slíka áhættu. Það er og vitanlega rangt, að hagnaður einstakra manna af hækkun krónunnar komi ekki ríkissjóði til góða. Þá skapast velmegun einstaklinga, gjaldþol eykst og skattar hækka, og geta hækkað margfalt eftir skattstiga tekjuskattslaganna.

Aðalatriðið er þetta, hvort á að taka frjálsa verslun fram yfir einkasölu. Trúir hv. þm. (MT) því, að einkasala sje betri? Hann verður að gera þar hreint fyrir sínum dyrum. (SigurjJ: Hann trúir því ekki).

Þá sagði sami hv. þm. (MT), að kaupmenn hefðu borgað stórsektir fyrir smyglun. Er þá einkasalan nokkur trygging fyrir því, að smyglun eigi sjer ekki stað? Geta kaupmenn ekki alveg eins smyglað eftir sem áður? (MT: Ekki til að selja í heildsölu). Hvorttveggja, og það er ný hvöt til þess, þegar þrengt er að hag

kaupmanna, en einkasalan getur á engan hátt komið í veg fyrir smyglun. Og það dettur engum í hug að halda því fram, að smyglun hafi ekki átt sjer stað síðan einkasalan komst á. Jeg veit ekki, hve mikil brögð eru að því, en er ekki í vafa um, að það versnar með ári hverju.