07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

50. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Þegar þetta frv. var hjer í deildinni til 1. umr., talaði jeg um það fáein orð alment, og varð það til þess, að ýmsir hv. þm. fundu ástæðu til þess að taka afstöðu til þeirra þá þegar. Hv. 2. þm. S.-M. (IP) mintist þá á það, að sjer þætt ekki drengilegt af mjer að tala í málinu eftir það að sumir aðrir þm. í hv. deild voru búnir að tala sig dauða. En jeg held, að háttv. þm. hafi sagt þetta í ógáti, því í ræðu minni var ekki sagt neitt, sem hægt var að taka sem árás eða hallmæli til nokkurs hv. þm., svo það var engin ástæða til þess að fárast yfir ræðu minni, enda þótt nokkrir hv. þm. væru þá búnir að halda svo margar ræður, að þeir væru dauðir. Hv. þm. (IP) hjelt, að jeg mundi rísa upp til andmæla gegn þessum orð um sínum, en mjer fanst ekki ástæða til þess; hann fór með svo broslega fjarstæðu, að engin ástæða var til að svara honum þá þegar. En að þessu vildi jeg víkja nú vegna þess að mjer þótti kenna heldur mikils misskilnings hjá hv. þm. (IP).

En það, sem olli því, að sumir hv. þdm. andmæltu því, sem jeg sagði um þetta mál við 1. umr., held jeg hafi verið það, að þeir vildu alls ekki viðurkenna, að í þessu máli kæmi fram sá stefnumunur, sem jeg drap þá á. Síðan hefi jeg kynt mjer allnákvæmlega umr. um málið á þingi 1921, og þær bera þess ljósan vott, að þegar í byrjun, er farið var að tala um að koma einkasölunni eða einokuninni á, gerði þessi stefnumunur vart við sig. Formælendur málsins lýstu því þá yfir, að þeir væru í raun og veru ekki fylgjandi einkasölu, þó þeim hinsvegar þætti ekki skaði skeður, þó það væri reynt í þessu tilfelli. En andmælendurnir slá fast á þann streng, að það sje aðallega vegna stefnumunar í verslunarmálum, sem þeir sjeu á móti frv. Þessi saga endurtekur sig nú. Þeir, sem átt hafa kost á því að hlusta á umr. um þetta mál í hv. Nd., hafa heyrt, að þar er hópur manna, sem staðhæfa, að þeir í raun og veru fylgi frjálsri verslun, en vilja þó ekki láta afnema einokunina. Og þó mikið sje talað um fjárhagsatriði þessa máls, þá vil jeg halda því fram, að hitt eigi sjer ríkari rætur, sem sje stefnumunurinn, þó jeg vilji engan veginn bera brigður á yfirlýsingar hv. þm. um það, að þeir sjeu fylgjandi frjálsri verslun, þá fylgja þeir í raun og veru í framkvæmdinni þeim mönnum, sem vilja halda einokuninni vegna þess, að þeir eru sannfærðir um það, að hún sje rjettmæt. Þeir eiga því samleið um málið, þó ástæðurnar sjeu ef til vill ekki þær sömu.

Jeg hefi ekki átt kost á því að kynna mjer nál. hv. minni hl. Því var útbýtt nú í fundarbyrjun, og er það langt mál og miklar skýrslur, sem sýnast vera áframhald af skýrslum landsverslunar, sem áður var útbýtt hjer í deildinni. Þetta nál. hefi jeg sem sagt ekki getað lesið neitt til hlítar ennþá, því jeg fjekk það ekki í hendur fyr en rjett í því, að jeg átti að fara að tala í málinu. En jeg sje, að því er haldið þar fram í byrjun, að nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 457 sje að mestu leyti órökstudd tillaga um það, að það beri að leggja niður einkasöluna. Að mestu leyti, segir hv. minni hl., og er það vel sagt, því það má vera, að eitthvað sje í nál., sem þeim finnist ekki nægilega rökstutt. En það hefir verið sýnt í hv. Nd., og eins á þskj. 457, að viðhald einkasölunnar sje ekki nauðsynlegt fyrir ríkissjóð, því hann muni fá svipaðar tekjur af tolli af tóbaksinnflutningi eftirleiðis samkvæmt frv. og meðaltalsútkoman af einokuninni sýnir. Það er því ekki ástæða til að kvarta um skort á rökum í málinu. Ef rætt er um það sem fjárhagsatriði, þá eru þetta næg gögn. Áður en landsverslun var falið að hafa með höndum innflutning á tóbaki, þá var hann í höndum verslunarstjettar landsins. Og jeg vil taka það fram strax, að það voru ekki einungis heildsalar hjer í Reykjavík, sem fluttu inn tóbak, heldur fengu allar stærri verslanir og kaupfjelög úti um land sínar tóbaksbirgðir beint frá útlöndum, án þess að þær gengju í gegnum hendur heildsala í Reykjavík. Jeg bendi á þetta vegna þess, að í skýrslu landsverslunar er altaf vikið að því og gengið frá því vísu, að ef verslunin verði gefin frjáls, þá falli altaf á hana heildsöluálag fyrir utan álag smásalanna. En það er ekki rjett að gera ráð fyrir því í hverju tilfelli, heldur munu a. m. k. hinar stærri verslanir fá sínar tóbaksbirgðir beint frá útlöndum eins og áður, en ekki frá heildsölum hjer. Nú er landsverslun með lögum frá 1921 gerð að allsherjar heildsölu fyrir alt landið hvað tóbaki viðkemur.

Og það er áberandi mikið, eftir skýrslunum að dæma, sem þessi heildsala hefir leyft sjer að leggja á vöru sína. Heildsöluálag landsverslunar er hvorki meira nje minna en 50% af vindlum og vindlingum, á reyktóbaki 40% og á nef- og munntóbaki 34%. Þetta er heildsölugróðinn. En áður en varan kemst til neytenda, bætist hjer við smásöluálagið, sem er á vindlum og reyktóbaki 15%, á vindlingum 25%, og á neftóbaki og munntóbaki 10%. Og enn mega verslanir úti um land bæta hjer við 2% fyrir flutningskostnaði. Hjer eru eiginlega höfð endaskifti á hlutunum. Það er viðurkend verslunarregla um allan heim, að heildsöluálagið skuli vera miklu minna en smásalans. Því það er altaf gert ráð fyrir því, að heildsalinn selji í stærri skömtum, og geti þess vegna sætt sig við minni hundraðsgróða heldur en smásalinn. Hjer er þessu snúið við. Heildsöluálagið er hjer svo svikalaust sem orðið getur, og langt fram yfir það, sem nokkur heildsali getur leyft sjer á venjulegum tíma í frjálsri samkepni. Skýrsla landsverslunar ályktar samt á álíka skynsamlegan hátt og víðar, að sje verslunin gefin frjáls, þá sje ekki hægt að hugsa sjer minna álag, heldur muni það verða fyllilega eins hátt og nú, að viðbættu því, sem smásalarnir leggja á vöruna. Þessu til sönnunar er það gefið í skyn, að þegar verslunin var sett á stofn og hún varð að kaupa stríðsbirgðir kaupmanna, þá hafi orðið vart við, að þeir hafi reiknað sjer svo og svo mikinn hundraðsgróða. Þess ber nú að gæta, að þó til kunni að vera í vörslum landsverslunar reikningar með hærra álagi en venja er til, þá er þess að gæta, að þegar landsverslun tók að sjer tóbakið, þá voru þær vörubirgðir, sem hún keypti af kaupmönnum, þannig til orðnar, að þær höfðu verið fluttar inn á stríðsárunum, þegar bæði verðlag og álag var óvenjuhátt yfirleitt. Og það er engin ástæða til þess að byggja ályktun um framtíðarálag verslunarstjettarinnar á því, hvað einstakir menn hjer í Reykjavík hafa leyft sjer að leggja á vörur á stríðstímanum. Sannleikurinn er sá, að á sumar tóbaksvörur, svo sem neftóbak og munntóbak, er lítið lagt þar, sem samkepni er — og hún er alstaðar þar, sem eru fleiri en ein verslun, sem verslar með tóbak. Jeg býst við því, að flestir, sem verið hafa í kaupstað, kannist við það, að það er illa sjeð, að verslanir selji tóbak, t. d. nef- og munntóbak, dýrt. Jeg veit með vissu, að þessar vörutegundir hafa verið seldar áður með litlu álagi, og myndi svo verða áfram. Ef verslunin er gefin frjáls, þá mundu allar stærri verslanir hjer í Reykjavík og úti um land fá sínar tóbaksbirgðir beint frá verksmiðjum erlendis, án þess að heildsalar kæmust að með það að leggja á neinn heildsölugróða. Þar sem vörurnar yrðu pantaðar gegnum umboðsmenn hinna erlendu verksmiðja og verslunarhúsa, þá mundu þeir, sem kaupa, fá þær með verksmiðjuverði. Í verksmiðjuverðinu er venjulega falin sú „próvision“, sem umboðsmaðurinn fær. Það hefir heyrst sagt, að jafnvel eins og er, þá muni þeir, sem umboð hafa fyrir verksmiðjur, er versla við landsverslun, halda sinni „provision“. Hún er þá sem sje falin í verksmiðjuverðinu til landsverslunar. En það skiftir ekki svo miklu máli, því þessi umboðslaun eru venjulega lág, ca. 3% eða svo. Það hefir verið lögð afarmikil áhersla á það af þeim, sem berjast móti því, að einokunin verði afnumin, að ríkissjóður muni tapa við það miklu fje. Og til þess að fá þetta tap á pappírinn hefir bæði landsverslun í skýrslu sinni og eins þeir, sem hafa lagt á móti niðurlagning einokunarinnar á þingi, lagt árið 1924 til grundvallar fyrir útreikningum sínum. En formælendur frv. hafa aftur tekið þau þrjú ár, sem verslunin hefir staðið, og lagt meðaltalið af útkomu þeirra til grundvallar. Allir hljóta að viðurkenna það, að ekki aðeins hvað snertir þessa verslun, heldur alla afkomu landsmanna, var árið 1924 hið mesta veltiár og góðæri, sem komið hefir í manna minnum. Í slíku góðæri er það vitanlegt, að miklu meira fjör er í viðskiftum manna á meðal en annars í meðalári. Jeg hygg, að það hefði sýnt sig víða, ef ekki hefðu verið innflutningshöft. Nú voru engin innflutningshöft á tóbaki, og fjekk góðærið þar að njóta sín, sem kemur fram í því, að gróði einokunarinnar er þá með mesta móti, en var áður lítilfjörlegur. Nú var gróðinn talsvert mikill. En hann er þannig vaxinn, að ekki er hægt að gera ráð fyrir honum jafnmiklum eftirleiðis í meðalári.

Í þessum gróða landsverslunarinnar, sem tekinn er til dæmis af þeim, sem halda vilja í einokunina, er talinn gengishagnaður, verðhækkun á vörubirgðum, sem stafar af hækkun á tolli, o. s. frv. Þetta er óvenjulegt. Það er ekki altaf hægt að gera ráð fyrir gengishagnaði eða því, að tollurinn hækki. Þetta nemur þó á árinu 90 þús. kr. og er talið sem venjulegur verslunarhagnaður; en þetta er mjög villandi. Þá er varasjóðstillag, 35 þús. kr., talið með verslunarhagnaði, en það er ekki heldur hægt. Það er vitanlegt, að varasjóður landsverslunar er ekki til nema á pappírnum. Útistandandi skuldir hennar eru 160 þús. kr., og þær eru þannig lagaðar, að ekkert vit er í því að telja þær allar til eigna, enda hefir því verið haldið fram í Nd., að varasjóðurinn væri sama sem tapaður, og því hefir ekki verið mótmælt af fylgismönnum einokunarinnar. Þannig skuldar eitt kaupfjelag 29 þús. kr., og er engin von til, að sú skuld greiðist, nema í mesta lagi að helmingi.

Það er vitanlega eina úrræðið fyrir þá, sem vilja halda því fram, að ríkissjóður tapi við það að afnema einkasöluna en hækka tollinn, að leggja góðærið 1924 til grundvallar, án þess að taka nokkurt tillit til hinna áranna, þegar lakar hefir gengið. Með þessu eina móti er hægt að halda því fram, að ríkissjóður muni tapa við breytinguna. En hvaða vit er nú í þessu? Hvaða vit er í því að byggja framtíðaráætlun á einu veltiári? Og hvar er slíkt gert af hugsandi mönnum í öðrum tilfellum? Mjer virðist það fjarstæða að halda því fram að miða eingöngu við útkomu ársins 1924, og hver heilvita maður veit, að það er fjarstæða. Fólk hafði ólíkt meiri peninga milli handa í fyrra en nokkru sinni áður, síðan á stríðsárunum, og því síst að furða, þótt sala á tóbaki væri meiri en áður.

Það hefir nýlega verið sýnt fram á það í einu blaði hjer í bæ, hver kostnaðurinn hefði verið þessi 3 ár, sem einokunin hefir staðið, við að fá þennan hagnað, þessar 650 þús. kr., sem ágóðinn til ríkissjóðs hefir numið; og það eru engin undur, þó að þessi kostnaður stingi mönnum í augu. Með einokun hjer í Reykjavík er búin til miðstöð fyrir tóbaksverslunina, allsendis óþörf, og álag hennar er mjög mikið. Verslunarstjett landsins, bæði kaupmenn og kaupfjelög, hefðu vel getað annað þessari verslun, án þess að nokkur aukakostnaður kæmi til greina. Kostnaðurinn verður meiri en hinn beini rekstrarkostnaður, þegar tekið er tillit til þess, að við einokunina er bætt við mörgum nýjum mönnum, sem hefðu getað starfað að öðru en versla með tóbak, en þeim, sem versluðu með þessa vöru, er sumpart bægt frá atvinnu sinni.

Það er ein setning á þskj. 468, frá hv. minni hl. nefndarinnar, sem er svo einstaklega skemtilega barnaleg, að jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana upp í þessu sambandi. Þar stendur: „Það hefir verið sýnt fram á það með fullum rökum, og enginn treyst sjer til að mótmæla, hvorki meiri hluti nefndarinnar nje aðrir, að árið 1924 er það ár, sem leggja ber til grundvallar, er um það er að ræða, hverjar tekjur ríkissjóður muni hafa af tóbakseinkasölunni í framtíðinni.“ Því hefir einmitt verið mótmælt með ljósum rökum, að þetta ár, 1924, beri að leggja til grundvallar einsamalt, og sýnt fram á, að það beri að leggja til grundvallar útkomu þeirra þriggja ára, sem verslunin hefir staðið, meðalútkomu þeirra og meðalinnflutning. Þetta á að leggja til grundvallar fyrir áætlun um, hvað sá hækkaði tollur muni gefa. En þetta, að árið 1924 er af andmælendum frv. valið úr og að á útkomu þess eru allar fullyrðingar þeirra bygðar er af því, að þeir vita, að ef gengið er inn á meðaltalsútkomuna, sem er það eina rjetta, geta þeir ekki sýnt fram á, að ríkissjóður verði fyrir tapi. Það er sýnt fram á það í greinargerð frv., að óhætt er að gera ráð fyrir, að ríkissjóður hafi sömu tekjur af tollinum eingöngu eins og hann hefir fengið í þessi 3 ár, en svo er líka bent á það, sem óneitanlega liggur nærri að álykta, að innflutningur muni aukast að einhverju leyti, ef verslunin er gefin frjáls. Við það hækka tekjur ríkissjóðs svo mikið, að þær eiga jafnvel að vera meiri eftir frv. en þær hafa verið að undanförnu. Jeg held, eftir því sem jeg þekki til, að það sje alls ekki út í bláinn sagt af flm. frv., að innflutningur fjörgist við að verslunin er gefin frjáls. Jeg þekki mörg dæmi þess, að síðan einokun á tóbaki komst á, hefir hálfgerður doði færst í tóbaksverslunina úti um land. Það ber lítið á því hjer í Reykjavík, þar sem hjer eru sjerverslanir með tóbak. En stærri verslanir úti um land, sem áður fengu birgðir sínar frá útlöndum, vilja ekki eltast við þennan óþarfa millilið í Reykjavík, og hætta heldur að versla með tóbak en að fara slíkar krókaleiðir. Það hefir orðið til þess, að oft hefir vantað ýmsar tegundir af tóbaki og vindlum, og þar af leiðandi selst minna en ella. Það er svo með ríkisverslun, að þegar búið er að koma einokun á vörur, hætta menn að fylgjast með verði og vörugæðum. Þá vantar þennan spora, sem altaf er á versluninni í frjálsri samkepni, að reyna að hafa sem bestar vörur fyrir sem lægst verð. Um allan heim er það viðurkend regla í samkepninni, þessi viðleitni til að hafa sem bestar vörur að bjóða fyrir sem lægst verð. Sá, sem getur boðið best, verður vanalega ofan á í samkepninni. Því er ekkert undarlegt, þó að hjer á landi sje svo komið, að þessi deyfð sje komin í tóbaksverslunina, sem altaf fylgir einokun, hvar sem er. Það er heldur ekki furðulegt, þó að frá landsverslunarinnar hálfu og þeirra manna, sem sannfærðir eru um, aðeinokun sje æskileg, verði gert alt, sem hægt er, til þess að koma í veg fyrir, að verslunin verði aftur frjáls. En þeir, sem segjast fylgja einokun ekki vegna þess, að það sje þeim stefnumál, heldur vegna þess, að þeim finst, að ríkissjóður megi ekki missa þessar tekjur, sem einokunin hefir gefið, ættu að geta fallist á, að ríkissjóður fengi þessar tekjur alveg eins með auknum tolli.

Fram á þetta hefir verið sýnt undir meðferð þessa máls með svo ljósum rökum, að þeir, sem ekki eru fyrirfram ákveðnir í að halda einokuninni, hvað sem það kostar, ættu að geta fallist á frv.-leiðina. Skýrsla landsverslunar getur að mörgu leyti gefið tilefni til íhugunar. Hún er svo greinilega samsett varnarrit fyrir einokunina. Jeg get ekki sjeð, eftir þeim tölum, sem þar eru prentaðar, hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu, að árið 1924 sje fyrsta eðlilega viðskiftaárið eftir kreppuna 1920. Jeg sagði, að þessi skýrsla gæfi tilefni til íhugunar, og skal jeg t. d. benda á það, að eftirtektarvert er, að landsverslunin notaði tækifærið í fyrra, þegar tollhækkunin varð, að hækka verð á öllum tóbaksvörum, sem hún lá með. Þetta var aðeins hægt af því að um einokun var að ræða. Hefði verið frjáls verslun, hefðu menn, hvort sem það voru heildsalar eða smásalar, ekki mátt hækka verðið, því varan hefði ekki selst hjá þeim, ef hún hefði verið dýrari en hjá öðrum. Með öðrum orðum, frjáls samkepni hefði komið í veg fyrir þessa hækkun.

Á einum stað í skýrslunni er getið um, að landsverslunin þurfi til tóbaksverslunar ekkert rekstrarfje, þar sem hún fái alt að láni hjá erlendum viðskiftamönnum. Á öðrum stað er því svo slegið föstu, að hún fái svo góð kjör hjá verksmiðjum erlendis, að ekki sje hugsanlegt, að einstaklingar geti fengið slík kjör. Þetta tvent fer dálaglega saman, að fá alt að láni til 6 mánaða og að hún fái þessi dæmalausu kjör, sem enginn einstaklingur eigi kost á að fá! Það lítur helst út fyrir, að þeir, sem samið hafa skýrsluna, hafi hugsað sem svo, að „alt mætti segja Dönum“. Það getur hver maður sjeð, hversu sennilegt þetta er.

Um nál. hv. minni hl. get jeg lítið sagt að svo stöddu. Því var ekki útbýtt fyr en í byrjun fundarins, og jeg hefi ekki athugað það nákvæmlega. En sjálfsagt eru ýms atriði í því, sem vert er að athuga því að það lítur út fyrir að vera framhaldsskjal af skýrslunni um tóbakseinkasöluna, og er þá sjálfsagt margt fróðlegt þar að finna.

Jeg býst nú við, að hv. minni hl. vilji láta eitthvað til sín heyra, og mun jeg því láta hjer staðar numið í bili.