29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 5. landsk. (JJ) og háttv. 1. landsk. (SE) spurðust fyrir um það, hver væri tilgangurinn með viðbótartillögunni, sem fjvn. hefir flutt við 13. gr. D. IV.4, að stjórninni sje falið að gera samning um skeytasamband við umheiminn frá þeim tíma, sem einkaleyfi Mikla norræna ritsímafjelagsins er á enda.

Það mun öllum kunnugt, að 26. ágúst 1926 eru samningar við Mikla norræna ritsímafjelagið á enda. En þá þarf að sjá fyrir sambandi við umheiminn. Jeg leit svo á í fyrstu, að það væri eitt af skyldustörfum stjórnarinnar að gera allar ráðstafanir til þess, að hægt yrði að hafa samband við umheiminn, þó að samningar við ritsímafjelagið fjellu niður. En við nánari athugun þótti mjer þó rjettara að fá beina heimild hjá þinginu til þess að gera þetta, en skoða það þó frekar sem kurteisi við þingið en að þess hafi verið þörf.

Annars er erfitt að tala um þetta mál eins og nú standa sakir. Vildi jeg því heldur hafa lokaðan fund með þinginu, til þess að skýra því frá þessu máli, seinna þegar tími væri til.

Jeg býst við, að háttv. þingmönnum sje ljóst, að ekki er hægt að segja ákveðið um þessa samninga nú; aðeins gang málsins hingað til, en hvað framundan er, verður ekki sagt. Frá þessu skal jeg skýra á lokuðum fundi í sameinuðu þingi, ef tími vinst til.

Þá er önnur heimild, sem komin er inn í frv., stækkun loftskeytastöðvarinnar hjer. Er sú heimild fengin til þess, að stækka megi loftskeytastöðina, svo að hún geti náð tryggu sambandi við útlönd, ef til þess kæmi, að samningar næðust ekki við Mikla norræna ritsímafjelagið.

Annars skal jeg geta þess, að komið hefir til mála að stækka loftskeytastöðina, þó að samningar tækjust við ritsímafjelagið, svo framarlega sem hægt er að fá vissu fyrir því, að kostnaðurinn við stækkunina náist upp á skömmum tíma með auknum tekjum.

Út af orðum háttv. 5. landsk. (JJ) um 59. brtt. fjvn. vil jeg beina þeirri fyrirspurn til nefndarinnar, hvernig beri að skilja hana.

Breytingartillagan er við 23. gr., og verði hún samþykt, skilst mjer, að II. liður greinarinnar komi til með að hljóða svo: „Að greiða að 3/4 hlutum tjón það, sem verða kann á tilraunum Sambands íslenskra samvinnufjelaga við að senda frosið kjöt á erlendan markað 1925, miðað við verð það, sem framleiðendur fá á útflutningshöfn. Ennfremur halla þann, er verða kann á því að taka skip á leigu til útflutnings“.

Spurningin er nú, hvort „3/4“ á bæði við halla af að senda út frosið kjöt og halla af kæliskipsleigu, eða aðeins við hið fyrnefnda. Jeg hefi skilið tillöguna þannig, að hjer væri aðeins átt við halla af því að senda út frosið kjöt. En mjer virtist háttv. 5. landsk. (JJ) skilja hana svo, að líka væri átt við halla af leiguskipi. Um þetta vildi jeg gjarnan heyra álit. háttv. frsm. nefndarinnar (JóhJóh).

Þá vildi jeg með örfáum orðum minnast á 49. brtt. hv. fjvn. á þskj. 392, um að fella niður styrk til Lúðvíks Jónssonar.

Mjer er kunnugt um, að maður þessi hefir eytt öllu, sem hann átti, í tilraunir til að gera ný jarðyrkjuverkfæri. Hafa verkfæri þau, sem hann hefir búið til, reynst vel, aðeins þótt of veik til þess að þola áreynsluna.

En nú liggur fyrir dyrum að gera þau sterkari, en til þess brestur hann fje. Hann hefir árangurslaust snúið sjer til Búnaðarfjelags Íslands. Er því ekki um aðra leið fyrir hann að ræða en að reyna að fá styrk úr ríkissjóði, eða að hætta að öðrum kosti.

Jeg vil því mæla hið besta með því, að hann fái dálítinn styrk í þessu skyni.