14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3199 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

111. mál, útvarp

Flm. (Jakob Möller):

Það er óþægilegt, þegar flm. er aðeins einn, að háttv. þm. geymi að láta ljós sitt skína þangað til flm. er margdauður.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) talar af misskilningi, þar sem hann heldur því fram, að ekki sje hægt að koma þessum tækjum fyrir í smábátum. Jeg hygg, að þau tæki, sem hann hefir í huga, muni vera eldri en þau, sem hjer er um að ræða. Hans fróðleikur í þessu efni mun því ekki vera nýr af nálinni. Jeg get vísað í grein Gísla Ólafsonar í Símablaðinu, þar sem hann gengur út frá, að lögboðið verði að hafa þessi tæki á mótorbátum. Það mundi hann ekki hafa sagt, hefði hann ekki vitað, að það væri hægt. Hvað því viðvíkur, að sjómenn muni ekki vera „interessaðir“ fyrir áliti Reykvíkinga um veðrið, má benda á, að hjer er veðurathuganastofa, og þó að hún sje ekki fullkomin enn, má búast við, að henni fari fram. Og það er víst, að það helsta, sem hægt er að gera til þess að afstýra sjóslysum, er það að reyna að sjá fyrir veðurbreytingar og koma boðum um þær til sjómannanna. Úr því jeg er staðinn upp, skal jeg skjóta því til hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að það mun vera misskilningur hjá honum, að ensku fjelögin hafi aðeins tekjur af tækjasölunni. Þau munu einnig hafa árlegt gjald.