11.05.1925
Efri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3243 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

111. mál, útvarp

Frsm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál er svo nýtt hjer á landi, að flestum háttv. þm., eins og líka öllum þorra manna um land alt, mun vera næsta ókunnugt um erfiðleikana, sem eru á framkvæmd þess, sem og um möguleikana, sem það hefir í för með sjer. Lítur út fyrir, að þessi aðferð ætli að verða engu áhrifaminni en síminn í því að dreifa frjettum eða kvikmyndahúsin í því að skemta fólki.

Það, sem hjer er farið fram á, er það, að ríkið geri samning við fjelag eitt um það að dreifa út frjettum og allskonar mæltu máli með útvarpi fyrir ákveðið gjald. Má vel vera, að ríkið taki seinna að sjer rekstur þessa fyrirtækis, þegar heppilegt þykir. En það liggur ekki fyrir nú, því allir eru sammála um það, að ekki sje æskilegt, að ríkið taki þetta að sjer nú þegar, þó fært þyki seinna, enda mun mönnum finnast, sem þetta viðfangsefni tilheyri „frelsinu“, sem hv. þm. hefir orðið svo tíðrætt um undanfarið. — Allshn. hefir því fallist á það, að hæstv. stjórn sje gefin heimild til að fela einstökum mönnum þessa starfrækslu.

Hvað útvarpið annars snertir, þá er auðvitað margt viðvíkjandi framkvæmd þess, sem hvorki jeg nje aðrir hv. þm. bera fyllilega skyn á, svo sem um kraft stöðvarinnar í hlutfalli við vegalengdina. En jeg gæti nefnt tvö dæmi um mátt víðboðsstöðva erlendis, sem jeg hefi hlustað á, þessu viðvíkjandi. Jeg var síðastliðið sumar staddur inni í veðurfræðistofunni í Bergen, og spurði umsjónarmaðurinn mig, hvort jeg vildi hlusta á hljóðfæraslátt frá London. Sneri hann þá grind, og var stöðin þannig opnuð fyrir vissum áttum, en um leið lokaðist fyrir strauminn annarsstaðar frá, svo sem frá Íslandi. Síðan lagði jeg heyrnartækið að eyranu, og heyrði jeg þá greinilega hljóðfærasláttinn frá sönghöll í London. Annars var þetta áhald aðallega til þess notað að taka á móti veðurfrjettum. Á sama hátt heyrði jeg nýlega hjer á loftskeytastöðinni ræður og hljóðfæraslátt frá París. Einstaka menn hafa hjer líka móttökutæki, sem ná til Frakklands og Englands. Þessi væntanlega útvarpsstöð hjer í Reykjavík á nú að geta sent inn á hvert heimili í landinu, gegn lítilfjörlegu gjaldi, söng og hljóðfæraslátt, ræður presta og þingmanna og hverskonar mælt mál, sem verða má til skemtunar og fróðleiks.

Móttökuáhöldin eru auðvitað nokkuð dýr. Sæmilega góð áhöld til að taka á móti frjettum frá París eða London kosta um 1500 kr. Innanlands er ætlast til, að nægja muni áhöld, sem ekki kosta meira en 100—200 kr. Það þarf sterkari og dýrari móttökutæki til að ná frjettum frá fjarlægri en nálægri stöð. En jeg vil leggja áherslu á það, að stjórnin sjái um, að ekki verði byrjað á þessu fyrirtæki nema stöðin nái til alls landsins. Von um peningalegan hagnað af þessu má gera ráð fyrir í sambandi við sjávarútveginn. Í Noregi er þegar allmikið farið að nota útvarp til að vara sjómenn við óveðrum. Hafa þeir móttökuáhöld í bátum sínum og hlusta á ákveðnum tímum eftir veðurskeytum, sem út eru send frá veðurfræðistöðvunum. Mætti okkur vera það mikið gleðiefni, ef útvarpið gæti orðið til þess að verja líf sjómannanna og draga úr hinum tíðu slysförum. Má og vel vera, að sveitirnar hafi nokkurt fjárhagslegt gagn af þessu viðvíkjandi veðrum á sumrin, en þó legg jeg ekki eins mikið upp úr því og hinu, að með þessu móti kemst fólk, sem hefir lítil skilyrði til að standa í sambandi við umheiminn, í snertingu við höfuðstrauma þjóðlífsins; það fylgist betur með því, sem gerist, finnur minna til einangrunarinnar og kann þar af leiðandi betur við sig heima. En til sönnunar því, hve mikla breytingu þetta gæti haft í för með sjer, skal jeg aðeins láta þess getið, að í gær hitti jeg mann nýkominn austan af Bakkafirði, og höfðu honum ekki ennþá borist nein tíðindi af þinginu, þó nú sje komið langt á þriðja mánuð af starfstíma þingsins. Þetta sýnir vel, hve samgöngurnar eru litlar og erfiðar á okkar landi, og er ekki nema eðlilegt, að gáfaðir menn, sem löngun hafa til að fylgjast með, kunni slíku illa. En með þessari aðferð getur nú fólk gegn 25—30 kr. árgjaldi fengið daglegar frjettir og auk þess hlustað á ræður, söng o. fl., sem sjeð yrði fyrir. — Þetta eru aðeins örfáir drættir, sem leikmaður getur sagt um málið. Margir gera sjer vonir um, að víðboðið sje eitt helsta menningartæki framtíðarinnar, og ekki síst ætti það að geta haft víðtæka þýðingu á Íslandi.

Jeg vil að lokum benda á það, að hjer er aðeins um heimild að ræða. Máske finnur þjóðin síðar meir betri tök á þessu, og er það þá á valdi þm., sem þá verða, að ráða um útvarpið.