05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Brtt. þær, sem fjvn. hefir gert við fjárlögin, eru á þskj. 433, og hv. þdm. hafa haft tíma til að kynna sjer þær, þar sem þær komu fram á föstudaginn var.

Nefndin leyfir sjer að koma fram með 4 brtt. um hækkun á tekjuliðunum í 2. gr., sem nema samtals 130 þús. kr. Nefndin viðurkennir, að í sjálfu sjer sje enginn gróði í þessu, en meiri hluti hennar telur samt rjettara að hækka tekjurnar, þar sem Hann þykist geta gert það án þess að víkja frá þeirri reglu að hafa áætlunina varlega.

Nefndin leggur til, að aukatekjurnar verði hækkaðar úr 300 þús. kr. upp í 325 þús. kr. Þær námu 1924 eftir skýrslu, sem fjvn. hefir fengið frá fjármálaráðuneytinu, 400 þús. kr., svo að ekki þykir óvarlegt að áætla næsta ár 325 þús. kr.

Þá er stungið upp á því, að áfengistollurinn sje hækkaður úr 500 þús. kr. upp í 530 þús. kr. Hann nam 1924 rúmum 600 þús. kr., og var þó ekki í gildi nema 3/4 hluta ársins 25% gengisviðaukinn. Því er ekki óvarlegt að ætlast til þess, að tollur inn nemi 530 þús. kr. árið 1926.

Þá vill nefndin hækka kaffi- og sykurtollinn úr 950 þús. kr. upp í 975 þús. kr. Hann nam 1924 1 milj. 85 þús. kr., og þó er það sama að segja þar eins og með áfengistollinn, að 25% gengisviðaukinn var ekki í gildi nema hluta ársins. Þetta er því heldur ekki óvarlegt, og sama er að segja um vörutollinn, sem nefndin vill hækka úr 1350 þús. kr. upp í 1400 þús. kr. Hann nam 1924 1557 þús. kr., eða rúmlega því. Maður getur gert ráð fyrir, að hv. Nd. finni síður ástæðu til þess að hækka aftur tekjukaflann, ef það hefir verið gert í þessari hv. deild. Þetta hafði sín áhrif í nefndinni. Hún þóttist vita, að það mundi að minsta kosti tekið til athugunar í hv. Nd., hvort hækka ætti tekjukaflann meira en þar var áður búið að hækka hann, og þetta ýtti undir fjvn. þessarar deildar að koma með þessar brtt.

Þá er 5. brtt. um að læknisvitjanastyrkur verði lækkaður úr 8200 kr. niður í 7700 kr. og að orðin „þó þannig — — — læknisvitjanastyrkur“ falli burt úr athugasemdinni. Þessi brtt. er bygð á því, að nefndin leit svo á og skildi þannig atkvgr., að til Kjósarsýslu væri ekki meiningin að veita bæði læknisvitjanastyrk og sjerstakan lækni, og vill því, að upphæðin verði lækkuð um það, sem ætlað var Kjósarsýslu.

Sama er að segja um 6. brtt., um að lækka skáldastyrkinn úr 10 þús. kr. niður í 9 þús. kr., þar sem Jakob Thorarensen fær 1000 kr. eftir fjárlagafrv. eins og það nú er.

Þá hefir nefndin komið fram með athugasemd við styrkinn til lendingarbóta í Grindavík og tekið tillit til upplýsinga, sem komu fram við 2. umr., og athugað málið að nýju, en þykist ekki geta veitt upphæðina skilyrðislaust.

Loks stingur nefndin upp á, að Halldóri Briem verði veittar 960 kr. árlega í 18. gr. Þessi maður er orðinn háaldraður. Hann var lengi kennari við gagnfræðaskólann fyrir norðan, fyrst á Möðruvöllum og síðan á Akureyri. Eftir að hann fluttist hingað suður, var hann bókavörður við ríkisbókasafnið hjer. Hann er orðinn þrotinn að heilsu og hefir nýlega fengið lungnabólgu og nær að líkindum ekki þeirri heilsu, að hann geti verið við safnið lengur. Hann hefir 1440 kr. eftirlaun frá því hann var kennari. Þegar hann fluttist suður, fjekk hann loforð um að missa einskis í við þá breytingu, sem þá varð á högum hans. Þessi maður hefir nú í nálega 43 ár unnið fyrir íslensku þjóðina, bæði verið nýtur kennari og gefið út góðar kenslubækur, sem mikið hafa verið notaðar. Hann á því fyllilega skilið, að honum verði veittar þessar 960 kr., og nema þá eftirlaun hans alls 2400 kr. Auk þess á hann að fá lítið eitt úr lífeyrissjóði, er hann lætur af störfum sínum, en það er ekki svo mikið, að nokkru nemi.

Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um brtt. nefndarinnar. Jeg ætla að bíða þangað til hv. þm. hafa gert grein fyrir brtt. sínum með að skýra afstöðu nefndarinnar til þeirra.