02.03.1925
Efri deild: 20. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (2206)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Forsætisráðherra (JM):

Mjer virðist hv. frsm. (SE) taka hvert orð illa upp fyrir mjer. Mjer kom þetta á óvart. Jeg ætlaði ekki að meiða tilfinningar hans í nokkru, nema það hafi meitt hann, að jeg hjelt því fram, að landsspítali o. fl. gæti talist nauðsynlegri en þjóðleikhús. Það var ekki meiningin, að sneiða neitt hv. 1. landsk., en það, sem jeg meinti, var þetta, að það sýndi sig, að öll sparnaðarviðleitni frá stjórninni fengi engan byr. Þegar jeg legg fram þetta frv., kemur þetta litla óveður frá hv. mentmn. Mjer var þó skylt að bera hönd fyrir höfuð sparnaðarnefndar og landsstjórnar, að frv. sje á rökum bygt. Það eru engin bönd lögð á neinn þm. með að samþ. frv.

Hv. frsm. virtist álíta, að jeg mundi ímynda mjer, að þetta frv. hefði einhverja þýðingu fyrir það, hvort stjórnin yrði áfram. En jeg verð að segja, að það yrði þá eitthvað að breyta frá gamalli venju, ef þetta ætti að hafa áhrif í þá átt. Jeg skal ekki segja, nema það hefði getað komið fyrir í enska parlamentinu, að talað hefði verið um slíkt, en áreiðanlega hvergi annarsstaðar. Hv. frsm. sagðist hafa verið svo göfuglyndur að gefa sparnaðarnefndinni alla sök á þessu frv. Jeg get nú ekki tekið mjer það til inntekta. Ef jeg hefði álitið frv. ótækt, hefði jeg áreiðanlega ekki borið það fram. Jeg ætlaði ekki á nokkurn hátt að deila á hv. frsm. Þvert á móti. Og þó jeg segði, að hann hefði verið vanur að fylgja sínum málum, hvort sem útlit var fyrir að þau gengi fram eða ekki, þá álít jeg það ekkert last.

Hv. þm. (SE) mintist á skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta. Mjer er ekki kunnugt um það, en held, að enginn mismunur hafi nokkurntíma verið á skoðunum okkar um það atriði.

Viðvíkjandi fjölda sýslumanna, þá kemur okkur saman um, að sum embættin megi sameina. En það er engin ástæða til að ræða um þau atriði nú.

Hv. þm. spurði um framtíðarstarf sparnaðarnefndarinnar. Því get jeg ekki svarað, að svo stöddu. En hitt get jeg sagt, að þeir, sem nú eru í nefndinni, fóru allir í hana nauðugir, svo að jeg hygg, að þeir muni ekki kæra sig um að halda áfram, eftir þeim undirtektum, sem verk þeirra hafa fengið.

Hv. þm. var að tala um, hvað væri „parlamentariskt“. Jeg held nú helst, að orðið „vitleysa“ geti ekki talist það. Jeg held, satt að segja, að í Grágás sje það orð talið alveg ófyrirgefanlegt á þingi. Grágás hefir þrjú orð, sem voru óleyfileg og vörðuðu skóggangssök. (SE: Hæstv. forseti hringdi ekki.) Hann talaði um eitthvað tvent, sem jeg heyrði eigi glögt, jeg held um hæstarjett og meðferð utanríkismálanna. (SE: Jeg skal halda ræðuna aftur, ef vill). (JJ: Hann nefndi „legátann“). Jæja, var það „legátinn“. En viðvíkjandi þessum sljóleika, sem hann talaði um, þá veit jeg ekki, hvort hann er að áfellast stjórnina eða þingið? Jeg veit ekki, hvort hann vill áfellast stjórnina fyrir það, að senda ekki sendiherra til Khafnar, þegar þingið hefði ekki veitt fje til þess? En annars, ef tala skal hitalaust um þetta mál, þá er stjórnin fús til að taka upp umræður við hv. þm. um þetta mál. Þá vona jeg og, að háttv. þm. telji eigi þann mann, sem nú fer með þessi mál fyrir vora hönd í Khöfn, illa fallinn til þess starfa; varla held jeg að sá maður, Jón Krabbe, verði talinn erlendur embættismaður. Mig undraði það mjög, þegar háttv. þm. fór að átelja mig fyrir það, að jeg fór eigi á konungs fund, til þess að leggja fyrir hann frv. stjórnarinnar áður en Alþingi kæmi saman. Jeg hygg, að hv. þm. hafi eigi athugað eða vegið vel orð sín, er hann ljet þetta um mælt. Það stendur hvergi í stjórnarskrá ríkisins, nje í öðrum lögum, að ráðherra sje skylt að fara utan með frv. stjórnarinnar, til þess á þann hátt að fá samþykki konungs til þess að þau megi leggja fyrir Alþingi. Enda er það í sjálfu sjer alveg ónauðsynlegt, og hefir þráfalt átt sjer stað, að frv. hafa verið send konungi, án þess að ráðh. færi með þau; ekki þannig, að þetta hafi aðeins átt sjer stað um eitt frv., heldur oftlega um mörg frv. í senn. Sumstaðar leggur ráðherra fyrir þing frv., án þess að til þess sje áður fengið samþykki frá konungi. Það hefir oftast verið svo áður, að forsætisráðherra hefir haft ýms önnur erindi að reka í utanferðum, um leið og hann fór á konungsfund, til þess að leggja frumv. fyrir konung. Það hafa stundum verið ýmisleg peningamál, sem þurftu afskifta stjórnarinnar; en nú voru engin slík mál fyrir hendi, sem kölluðu að í þetta sinn.

Hvað viðvíkur fyrirspurn hv. þm., að því leyti, sem hún snertir utanríkismál vor, þá mun jeg geyma að svara því, þar til jeg svara fyrirspurn, sem nú liggur fyrir þinginu, um þau mál. En hvað sem um það annars er að segja, þá hefi jeg eigi vitað betur, en að hv. 1. landsk. hefði haft, og hefði enn, nákvæmlega sömu skoðun og jeg, um stefnu vora í utanríkismálum. Jeg hefi eigi orðið var við neinn skoðanamun hjá okkur. Jeg skal eigi ætla hv. þm., að hann telji hr. Jón Krabbe óhæfan til þess að fara nú með þessi mál, eins og hann hefir gert í mörg undanfarin ár. Þetta, sem hv. þm. sagði um hæstarjett, hefði ekki átt að koma hjer fram í umr. um þetta mál. Jeg held enga ástæðu til að rugla þessum málum saman. Hæstirjettur ætti að fá að vera utan við þessar umr.

Nauðsyn á leikhúsi hefi jeg ekki neitað, en jeg hefi sagt það, að jeg teldi ekki sjálfsagt, að það væri kostað af ríkisfje. Það er alt og sumt, sem jeg hefi sagt um þetta. Jeg benti á sum erlend þjóðfjelög (t. d. Noreg), þar sem engum eyri er varið til þess úr ríkissjóði, nema gefin lóð.

Háttv. 5. landsk. (JJ) var eitthvað að tala um „erlenda möguleika“. Jeg veit vel, við hvað þessi hv. þm. á með þessum orðum sínum. En hann hefði alls eigi átt að nefna þetta hjer. (JJ: Það er farið að tala um þetta opinberlega, t. d. í Morgunhlaðinu). Það var ekki gert þannig að umtalsefni þar, að það rjettlæti það, að þingmenn dragi það inn í umr. á Alþingi. Sami hv. þm. talaði og um þörfina á þjóðleikhúsi, og þörfinni á leikhúsi hefi jeg aldrei neitað, nje heldur því, að það sje mikið menningarmeðal fyrir þjóðfjelag vort; en jeg hefi aðeins sagt, að til eru og önnur nauðsynjamál, sem biða framkvæmda, og um það má deila ávalt, hver þau eru, sem minsta biðina þola.

Háttv. þm. talaði um hrúgur af frv. frá sparnaðarnefnd, sem eigi væri komin fram. Jeg veit ekkert um slíka hrúgu; það gæti verið, að hv. þm. vissi um það fyrir því. Það gæti þó hugsast, að eitthvað væri enn ókomið frá nefndinni, en jeg hefi ekki sjeð þau eða fengið neina vitneskju um, að þau væri til. Jeg veit að vísu um tvö smávægileg frv., frv. sem jeg varla vænti, að háttv. 5. landsk. muni telja sparnaðarfrv. þessi tvö frv. eru enn eigi komin fram fyrir þingið, og þau frv. eru heldur eigi meint sem sparnaðarfrv. Hvað viðvíkur frv. stjórnarinnar um dósentsembættið, þarf eigi að draga það inn í umr. nú; tækifæri munu nóg gefast til þess að rökræða það mál síðar.

Háttv. 5. landsk. segir, að jeg geri ráð fyrir, að frv. þetta verði ekki samþ. Það er rjett, að jeg sagði, að jeg gerði mjer eigi of miklar vonir um það. En jeg læt þar nótt, sem nemur, að því er það snertir. Jeg hefi aldrei álitið viðeigandi, að krefjast atfylgis flokksmanna minna í hverju smáatriði, sem þessu, enda þótt háttv. 5. landsk. þyki sjálfsagt, að flokksmenn hans allir fylgi honum ávalt að málum, hversu ómerkileg atriði, sem um er að ræða. Hvað snertir árás þessa hv. þm. á Íhaldsflokkinn, fyrir að hann sje að skerða tekjur ríkissjóðs, er ekki ástæða til að svara því með öðru en útkomunni á landsbúskapnum síðastl. ár. Jeg hygg, að það muni nægilegt svar af stjórnarinnar hálfu, og jeg held, að Íhaldsflokkurinn mundi engan hag hafa af því, þó að hann hlyti samúð hv.5. landsk. í þeim málum eða öðrum.

Þá skil jeg heldur eigi hugsanagang háttv. 5. landsk., er hann telur það eiga að vera aðalatriði fyrir stjórnina, og hún megi alls ekki bera fram frv. um eitthvert málefni, ef t. d. ritstjóri flokksblaðs Íhaldsflokksins væri á annari skoðun í því máli. Væri svo, að þessi ritstjóri íhaldsflokksblaðsins ætti að leggja samþykki sitt á hvert frv. stjórnarinnar, væri engu minni ástæða til að ætla, að allir flokksmenn stjórnarinnar í Íhaldsflokknum yrðu að fallast á þau líka. En þetta hvorki er, nje hefir nokkru sinni átt sjer stað, og hefir heldur aldrei komið fyrir í allri okkar þingsögu. Jafnvel á þeim árum, þegar „sterk“ stjórn sat að völdum, og hafði stóran meirihluta við að styðjast, kom það oft fyrir, að stjórnin fjekk jafnvel skráveifur af sínum eigin flokksmönnum. Jeg hefi aldrei krafist þess af flokksmönnum mínum, að þeir væru allir jábræður stjórnarinnar í hverju atriði.