02.03.1925
Efri deild: 20. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2208)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jónas Jónsson:

Hæstv. forsrh. vítti mig fyrir, að jeg hafi talað um efni alllangt utan þess máls, sem hjer er á dagskrá, en síðan vitnaði hann í sína eigin ræðu um utanferð ráðherra (1923). Jeg segi þetta ekki honum til lasts, þvert á móti, því þetta, að einskorða sig eigi við þröngt umtalsefni, ber vott um víðsýni, mentun og meðfædda skynsemi, að taka dæmin sem víðast, sínu máli til skýringar. Hitt er flónanna, sem ekkert skilja, að bregða eigi hársbreidd frá því, sem við horfir.

Hæstv. forsrh. kvað sig engu skifta, þótt blað flokks hans legðist á móti þessu frv. Jeg nefndi þetta aðeins sem dæmi þess, hversu þetta mál væri vonlaust fyrir stjórnina, um leið og jeg sýndi fram á þýðingu þess fyrir önnur áhugamál þjóðarinnar. Hæstv. forsrh. fór ekkert út í það, hversvegna stjórnin vildi kasta frá sjer stórum tekjustofni af tóbakseinkasölunni eða hversvegna hafnað hefði verið vínfangatollinum o. fl., og var þetta ofur eðlilegt; því öll þessi mál eru algerlega óverjandi. En hann ætlaði að bjarga sjer frá þessu með hinu góða árferði, sem verið hefir þetta síðasta ár. En það þýðir lítið fyrir hæstv. forsrh. að ætla að gera sig góðan af því, meðan hann eigi getur sannað, að stjórnin ráði fyrir fiskigöngunum upp að ströndum landsins. Hafi hann í krafti síns dugnaðar sent þorskinn inn á fiskimiðin, má hann vel hælast um. Komi aftur á móti það upp úr dúrnum, að þorskurinn fari sinna eigin ferða, komi og fari, án tillits til boðs eða banns hæstv. forsrh. (JM), á hann engar þakkir skilið fyrir góðærið.