13.03.1925
Efri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2228)

22. mál, sóknargjöld

Frsm. minnihl. (Björn Kristjánsson):

Þetta er svo mikið smámál, að jeg hefði helst óskað að þurfa ekki að taka til máls aftur. Hv. frsm. meirihl. (SE) sagði, að ekki væri hægt að bera þetta gjald saman við sama gjald hjá fríkirkjumönnum hjer í Rvík, af því að þar væri gjaldið samningsbundið. Jeg benti honum á, að þetta gjald þætti ekki svo mjög tilfinnanlegt í fríkirkjusöfnuðinum, er bláfátækir menn undirgangast fúslega að greiða 5 kr. Hitt er satt, að í sjálfu sjer er skatturinn ranglátur, en það er nú svo margt í heimi þessum, sem svo er farið og verður að þolast vegna þess, að ekki er hægt að komast hjá því. Það er satt, að nefskattur gerir ekki mun á efnamanninum og þeim fátæka, en þannig er varið með svo margt annað, sem ekki er kvartað undan. Þannig er t. d. sami læknataxti um alt land, og gildir jafnt fyrir ríka og fátæka, þar verða allir að greiða sama gjald fyrir sama verk. Þörfin á læknishjálp er engu síður hjá fátæka manninum en þeim ríka, og mætti jafnvel segja, að efnalausa manninum riði meir á læknishjálpinni, og greiða þó allir jafnt fyrir. Þannig mætti fjölmargt telja. En jeg verð að segja, að þó að alt þetta yrði lagað og öllum gert rjett til og greiddu allir hlutfallslega eftir efnahag, yrðu fátæklingarnir sennilega jafnmargir fyrir því. Það er því sama og að vera að rífast um keisarans skegg, að vera að deila um, hvað rjettlátast sje í öðru eins smámáli og þessu.

Háttv. frsm. meirihl. (SE) sagði, að við hefðum ekki viljað svæfa frv. alveg til þess að þóknast stjórninni. Jeg held, að jeg hafi talað svo ljóst áðan, að allir meðalsanngjarnir menn hefðu getað skilið, og þurfti því ekki þessarar tilgátu með. Og að skattur þessi er ekki sjerlega þungbær, sjest ljósast á því, að menn taka hann á sig af frjálsum vilja, þó hærri sje. Hv. 5. landsk. (JJ) á þar mikið verkefni fyrir höndum, ef hann ætlar að taka að sjer að laga alla skattalöggjöf okkar, svo að hvergi komi einnar eða tveggja krónu gjald ranglega niður. Það mun ærið verkefni hverjum meðalmanni, og þó hann starfaði ekki að öðru, vænti jeg vart, að þetta mundi takast fyrir hv. 5. landsk. Hitt er satt, að það væri sanngjarnara að jafna þessu gjaldi niður; en hvað mundi það kosta? Það mundi kosta afarmikla vinnu, það mundi kosta, að skipa þyrfti nefnd til þess starfs, og nefndin mundi kosta peninga; skatturinn mundi því hækka sem svaraði vinnukostnaði nefndarinnar, og það held jeg mundi vart verða talið að borgaði sig. Þá held jeg heldur ekki gerlegt að ákveða hreppa- og sveitastjórnum nýtt og nýtt starf, ef störfin skulu unnin kauplaust. En ef það ætti að jafna þessu niður, yrðu menn að launa nefndina fyrir starfið. Auk þess er engin trygging fyrir, að niðurjöfnun þessi yrði fullkomlega rjettlát; hún yrði eins og öll niðurjöfnun að byggjast meira og minna á ágiskun, og gæti svo farið, að stundum yrði ranglátlega á lagt. Það þarf ekki annað en benda á útsvarsálagningu; þar er jafnað niður, og þykir ekki ætíð sem rjettlátlegast, og því oftlega áfrýjað. Að menn kæra yfir útsvörum, kemur af því, að menn álíta, að þeim hafi verið ranglátlega jafnað niður.

Þetta, um óvinsældir prestanna út af þessu, því þarf jeg ekki að svara sjerstaklega, er hæstv. forsrh. (JM) hefir tekið það ómak af mjer, og læt jeg svo útrætt um þetta mál.