26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2273)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minnihl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að jeg hefði þakkað stjórninni fyrir fjárframlög til kvennaskólans, sem hann gaf í skyn, að hefðu verið óleyfileg. Jeg gaf reyndar alls eigi tilefni til þessara ummæla hans. Jeg þakkaði aðeins hæstv. forsrh. (JM) fyrir stuðning við skólann undanfarið og einkum fyrir að hafa komið fram með þetta frv.

Jeg skal eigi fara að deila hjer um samskóla og sjerskóla frekar. En hitt veit jeg, að þegar konur fara að nota íhlutunarrjett sinn í landsmálum almennar en nú gerist, þá þýðir eigi lengur að berja höfðinu við steininn, eins og andstæðingar þessa máls hafa gert.

Út af ummælum hæstv. forsrh. og mínum um nauðsyn þess, að hafa sjerskóla fyrir konur, dró hv. 5. landsk. (JJ) þá ályktun, að þá yrði að skifta kynjunum þegar í barnaskólum, og að kennarar væru einnig valdir þar eftir kynferði. Auðvitað er þetta sagt á móti betri vitund, því að tæplega er hægt að ætla, að hv. þm. (JJ) meini slíka fásinnu. Auk þess ætti hann að vita það, að í öllum öðrum löndum eru sjerskólar fyrir konur, og jeg er þess fullvís, að þótt hv. 5. landsk. (JJ) vilji nú má kvennaskólann í Reykjavík út, eftir að hann hefir starfað í 50 ár, þá á kvennaskólinn samt eftir að lifa og starfa hálfa öld enn, og væntanlega miklu lengur.