13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (2321)

48. mál, friðun rjúpna

Frsm. minnihl. (Árni Jónsson):

Jeg bjóst alls ekki við, að hv. þm. Borgf. (PO) færi að breyta um niðurstöðu í þessu efni. Hann hefir ekki verið þektur að slíku, og því síður bjóst jeg við, að hann myndi sækja þetta hjegómamál með svo miklum krafti sem hann gerir; það þykir mjer næsta einkennilegt. Hv. þm. gekk meira að segja svo langt í þessari sókn sinni, að hann gerði mjer upp orð, sem jeg hefi aldrei sagt, og sneri alveg við meiningu í sumu hjá mjer, t. d. ljet hann mig hafa sagt, að rjúpnaveiðar væru meira stundaðar af drápgirni en hagnaðarvon, sem er þveröfugt. Jeg sagði einmitt, að jeg þekti menn ekki að svo mikilli drápgirni, að þeir færi að fara frá haustönnum, nema því aðeins, að það væri fjárvon fyrir þá. En að fara að tala um dýraverndun í þessu sambandi, það datt mjer ekki í hug, að honum mundi koma til hugar. Þá væri nær fyrir hv. þm. (PO) að flytja till. til breytinga á dýraverndunarlögunum. Hv. þm. sagði ennfremur, að það væri viðurkent, að fuglinn væri verri vara fyr á haustin. Jeg er ekki sjerfræðingur í þessu efni, en jeg hlustaði á það, sem þeir sögðu báðir um þetta mál, hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Verð jeg að hallast að því, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, því að hann hefir lengri reynslu í þessu máli og sjálfsagt eins ábyggilega.

Hvað snertir verðlækkunina síðastliðið haust, þá er það ekki rjett, að hún væri af þeirri ástæðu, sem hann (PO) færði til, heldur af því, að tíðarfarið var svo einkennilega milt í haust er leið, að ókleift var að koma rjúpunni óskemdri á markað úr aðalrjúpnahjeruðunum fyrir norðan og austan, vegna þess, hve samgöngurnar eru þar strjálar og ógreiðar. Ef skip hefði altaf verið til taks, um leið og rjúpan kom á útflutningshafnirnar, hafði verið alt öðru máli að gegna. En að tala um að nota strandferðaskipin, eins og hv. þm. (PO) stakk upp á, það er að bæta gráu ofan á svart. Eina ráðið er að koma rjúpunni með sem bestum ferðum, og það er einmitt með kjötferðunum að haustinu. Hv. þm. (PO) misskildi það, að kjötskipin væru á ferð á sama tíma og friðunin er úti. Þau eru á ferðinni síðari hluta otkóbermánaðar, og venjulega ekki fyr en síðast í mánuðinum, en síðastliðið haust var drepið mest af rjúpunni síðari hluta mánaðarins.

Jeg hygg svo, að það sje ekki meira í bráðina, sem jeg þarf að svara hv. þm. (PO).