16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2379)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Bjarni Jónsson:

Jeg vissi, að það yrði lag á því, þegar hv. 2. þm. Reykv. (JBald) færi að flytja ástæður fyrir frv. Það er eftirtektarvert fyrir okkur verkamenn Reykjavíkur, að hann var ekki að hugsa um okkar hag. Nei, hann var að hugsa um verkalýð í hinum og þessum veiðistöðvum, sem myndi verða fyrir skemdum á veiðarfærum. Stærri útgerðarmenn á þessum stöðum kallar hann líka verkamenn. En það vill hann álíta það sama, að vernda útgerðarmenn í veiðistöðvum landsins, eins og að sjá hag verkamanna sinna í Reykjavík. Þeir eiga að hlýða, eins og hann segir — „autos efa“.

Við erum nú sammála um, að það eigi að vernda veiðistöðvar landsins fyrir ágangi botnvörpunga og auka strandvarnirnar sem mest. En jeg er ekki sammála honum um, að þetta sje aðferðin, að gera refsinguna tvöfalda, bæði á skipstjóra og skipseiganda, og framkvæma þyngstu refsingu á hvorumtveggja. Það stríðir á móti þeim grundvallaratriðum, sem öll löggjöf landsins stendur á. Og það stríðir á móti rjettlætistilfinningu hvers manns, jafnvel hv. 2. þm. Reykv. sjálfs, ef hann vildi hlýða á sinn betra mann.

Til dæmis um það, hvað þessi hv. þm. fer rjett með annara manna orð, skal jeg geta þess, að jeg tók sem dæmi, að 2–3 skip yrðu ef til vill að liggja uppi hálfa eða heila vertíð. Svo hefir hv. þm. það eftir mjer, að allir togararnir myndu leggjast í köku uppi hjer í Reykjavík. Það er alveg eins og maður sje að lesa Alþýðublaðið. Efast jeg ekki um, að hv. þm. setji í Alþýðublaðið á morgun, að Bjarni Jónsson hafi sagt, að það væri ekki nema sjálfsagt, að allir togarar mættu veiða í landhelgi eins og þeim þóknaðist.

Jeg veit satt að segja ekki, hvernig hv. þm. (JBald) ætlar að telja sæmilega skynsömum mönnum trú um það, að slíkt komi ekki niður á skipshöfninni, ef skipið getur ekki gengið til veiða, þegar þingið hefir samið þau lög, að reka megi skipstjóra burt og setja þá í fangelsi í tilbót. Nei; jeg held hv. þm. hefði ekki átt að fylgja frv. Því áreiðanlega fær hann ekki meira en 5% af mönnum hjer í Reykavík á sína skoðun. Jeg þekki það fólk svo að greind, að það mun sjá, að hjer er stefnt beint til atvinnutjóns fyrir það, en engra landhelgisvarna.