02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2387)

51. mál, lokunartími sölubúða

Jakob Möller:

Jeg geri ráð fyrir því, að ekki verði langar umr. um þetta mál. Það var afgreitt frá þessari hv. deild í fyrra, alveg eins og það er nú, og þótti þá ekki gefa ástæðu til þess, að lengi væri um það rætt, og vænti jeg, að svo verði enn, þrátt fyrir skjal það, sem hingað hefir borist til mótmæla frv. Þetta skjal er í rauninni ekki nema endurtekning á þeim ástæðum, sem færðar voru í fyrra á móti þessu máli. Jeg játa, að jeg hefi fulla samúð með þeim mönnum, sem hlut eiga að máli, og skil vel aðstöðu þeirra; en jeg skal nú fyrst og fremst vekja athygli á því, að hjer er ekki um ákveðin lagafyrirmæli að ræða, heldur aðeins heimild handa bæjarstjórn til þess að setja reglur um lokun þessara búða, sem um er að ræða. Áður en því verður endanlega til lykta ráðið, hafa því hlutaðeigendur tækifæri til að tala sínu máli á vettvangi, þar sem líklegt er, að tekið verði fult tillit til allra sanngjarnra mótmæla. Hinsvegar vil jeg minna hv. þdm. á það, að þetta mál var í fyrra borið undir borgarstjóra hjer, af nefnd þeirri, sem þá hafði það til meðferðar hjer í deildinni, og mælti hann með því.

Í skjali því, sem jeg nefndi áðan, er lögð áhersla á það, að nokkrir rakarar sjeu beittir ofbeldi, ef styttur verði vinnutími þeirra á móti vilja þeirra. En þetta er ekkert einsdæmi. Hið sama var gert með heimild um lokunartíma sölubúða. par með var heimilað að banna þeim, sem eiga sölubúðir, að vinna lengur en til væri tekið. Þeir urðu að lúta því, sem talið var að horfa til almenningsheilla í þeim starfsgreinum, sem lögin um lokun sölubúða ná til. Þó að rakarabúðirnar væru ekki settar undir þau lög þegar í upphafi, þá sannar það ekki annað en það, að þá var ekki talin nauðsyn á því. En síðan hafa orðið breytingar á þessum iðnrekstri, sem gera það nauðsynlegt, sem sje, að fjölgað hefir starfsfólki á vinnustofunum og víða teknir unglingar í þessa vinnu.

Þá skal jeg benda á, að töluverðar öfgar eru í mótmælum þeim, sem komið hafa fram gegn frv., t. d. er staðhæft er, að með þessu yrði sjómönnum alveg meinað að njóta þeirra þæginda, að komast inn í rakarabúðir að kvöldi dags. Jeg ímynda mjer, að þótt rakarar fengju leyfi til að halda opnum búðum sínum allan sólarhringinn, mundu þeir varla geta annað slíkri aðsókn. Þá byggja þeir mótmæli sín á því, að þetta mundi verða illa þokkað af almenningi. Þetta er ekkert sjerkennilegt fyrir rakarabúðirnar; alveg því sama var haldið fram gegn lögunum um lokun sölubúða. Að vísu fjell ýmsum mönnum illa að geta ekki komist í búð á hvaða tíma sólarhringsins sem var, fyrst í stað. En menn hafa vanist því svo afbragðs vel, og nú er öll sú óánægja algerlega hjöðnuð niður. Í mótmælaskjalinu er því haldið fram, að öðru máli sje að gegna um þetta en raksturinn, af því að menn geti símað eftir vörum, þegar búðum er lokað, en rakarar geti ekki sint rakstrarbeiðni í síma. En vitanlega eru það aðeins tiltölulega fáir, sem hafa aðgang að síma, svo að sú björg er algerlega bönnuð öllum almenningi, einnig um viðskifti við sölubúðir. Að minsta kosti eru sjómennirnir líkt settir í báðum tilfellum. (MT: En þeir, sem loftskeyti hafa?).