09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

51. mál, lokunartími sölubúða

Jakob Möller:

Jeg þarf ekki miklu við það að bæta, sem hv. frsm. (JBald) tók fram, en jeg vil vekja athygli á því, að um það leyti, sem lokunartími sölubúða var ákveðinn, var talsverður andróður af einstakra manna hálfu, sem hjeldu því fram, að þetta væri eyðilegging á atvinnu þeirra. Í sambandi við brtt. hv. þm. Dala. (BJ) vil jeg geta þess, að sjerstaklega þeir menn, sem seldu sælgæti, það er að segja, aðkeypt, lögðu mikla áherslu á þetta atriði, og hjeldu því fram, að sælgætisverslun væri engin nema á kvöldin. En reynslan hefir sýnt annað. Ýmsir smákaupmenn voru hræddir og sögðu, að þeir hefðu svo mikil viðskifti eftir lokunartíma, að atvinna þeirra mundi bíða við þetta óbætanlegt tjón. En reynslan hefir nú sýnt, að þetta var einungis ástæðulaus hræðsla, því að með engum ákveðnum lokunartíma draga margir viðskifti sín svo og svo langt fram eftir kvöldinu, og koma þá í þær búðir, sem opnar eru, en þegar lokunartími er ákveðinn, verða menn að koma fyrir þann tíma. Alveg sama máli er að gegna um konfektbúðirnar. Hjer er að vísu tekið fram fyrir hendurnar á einstökum mönnum, en það er bæði þeim sjálfum og öðrum fyrir bestu. Með öllu stjórnleysinu leggja þeir á sig bæði meiri vinnu og meiri kostnað:

Nú get jeg ekki stilt mig um að benda hv. þm. Dala. (BJ) á það, að hann er ekki sá þingmaðurinn hjer í deild, sem ætti að brigsla mönnum um ófrjálsræði og þrælslund, því að öllu nær get jeg ekki hugsað mjer gengið persónufrelsi manna en það, að fara að skifta sjer af, hvað hann heitir eða kallar sig.