08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. frsm. síðari kafla fjárlagafrv. (TrÞ) beindi því til mín, að hann vænti þess, að jeg ljeti uppi álit stjórnarinnar um, að sjeð myndi fyrir nægum skipakosti til að flytja fryst kjöt til útlanda, ef menn kæmu sjer upp íshúsum til að geyma kjötið í. Um þetta vil jeg það segja, að jeg lít svo á, að því opinbera sje skylt að sjá um þennan skipakost, svo framarlega sem það hefir haft hönd í bagga með undirbúningi málsins, eins og nú er ætlast til, og stjórnin samþykki teikningar og útbúnað á íshúsunum, og þessi tilraun, sem nú á að gera, heppnast þannig, að rjett þyki að ráðast í þetta fyrirtæki.

Um bygging íshúss, á þessu ári með láni úr viðlagasjóði get jeg ekkert sagt nú. Jeg veit ekki, hve miklu af útlánsfje sjóðsins er þegar ráðstafað í ár. En af því fje, sem enn er óráðstafað, býst jeg við, að stjórnin muni lofa lánum til þessarar byggingar að sitja fyrir, eins og ætlast er til að gert sje á næstu árum. Því jeg skil heimildina svo, að lán til íshúsa eigi að ganga fyrir öllum öðrum lánum úr viðlagasjóði.

Út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. (BSt) sagði viðvíkjandi till. um biðlaun handa Eggert Stefánssyni, vil jeg benda á, að það er mjög leiðinlegt að þurfa að ræða slíkt mál í opinni deild, því að ekki er hægt að komast hjá að minnast á ýms atriði í því sambandi, sem óviðkunnanlegt er að ræða opinberlega. Jeg mun því ekki fara mikið út í þetta mál. Jeg skal taka fram, að jeg hefi lesið erindi Eggerts rækilega, og jeg finn ekki, að jeg hafi eiginlega neinu að svara. Hann ber mig þar ekki neinum sökum. Um veitingu Borðeyrarstöðunnar get jeg ekkert sagt því að mjer er það mál ekki kunnugt. Ef til vill getur hv. 2. þm. Rang. (KIJ) gefið einhverjar upplýsingar í því efni. En jeg skal geta þess, að Eggert Stefánssyni hefir tvisvar áður verið vikið frá stöðu sinni. Mál eins og þetta væri nauðsynlegt að rannsaka í nefnd. Í opinni deild er ekki hægt að ræða það til hlítar. Hygg jeg, að hv. 2. þm. Eyf. (BSt) muni vera mjer sammála um það.

Hæstv. forsrh. (JM) getur ekki verið hjer viðstaddur í kvöld, og hefir því beðið mig að minnast á eina brtt., sem hann flytur við 14. gr., um 200 kr. hækkun til kennarans í efnafræði við háskólann. Borgun sú, er hann nú hefir, er alt of lítil, enda sett með tilliti til þess, að hann hafi annað starf. Stundafjöldi hans er jafn og kennarans í lyfjafræði, en sá kennari hefir 1500 kr. fyrir sitt starf, og er þó í öðru embætti líka. Jeg vona, að hv. deild hafi ekkert að athuga við þessa hækkun. Hún er áreiðanlega á góðuni rökum bygð. Kennarinn, sem hlut á að máli, innir verk sitt af hendi mjög samviskusamlega.

Þá er 4. brtt. fjvn., við 13. gr., um að breyta orðalagi á aths. viðvíkjandi samningum um skeytasamband við umheiminn. Eins og kunnugt er, þá eru samningarnir við Mikla norræna ritsímafjelagið úti á næsta ári, og þarf að gera nýja samninga við það fjelag eða annað. Nú vill nefndin, að ekki sjeu fullgerðir samningar nema samþykki Alþingis komi til. En landssímastjóri hefir bent á, að þetta geti orðið mjög óþægilegt, þar sem tíminn er svo stuttur frá næstu þinglokum til þess, er endurnýja þarf samningana. Vera má, að semja þurfi um byggingu móttökustöðvar í öðru landi, og verður því að hafa nokkurn tíma fyrir sjer. Jeg geng þess ekki dulinn, að hvernig sem samið verður, muni einhverjir verða óánægðir. Engin stjórn getur gert öllum til hæfis. Jeg kýs heldur, að aths. standi eins og hv. Ed. gekk frá henni. Jeg tel að ýmsu leyti betri aðstöðu um samningagerðina á þann hátt. Verði brtt. samþykt, skal jeg taka fram, að jeg sje ekki ástæðu til þess að hafa um þetta mál einkafund með þingmönnum, eins og jeg hafði ætlað mjer. Þá er ekki til neins að fara út í málið fyr en samningar geta legið fyrir.