14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Jónas Jónsson:

Jeg skil vel, að hv. atvrh. (MG) óskar ekki eftir að haldið sje áfram vitnaleiðslunni út af frammistöðu hans, þeirri, sem svo tíðrætt hefir orðið um. Hún kom honum að sjálfsögðu mjög óþægilega við 2. umr., og hefir lítið breyst til batnaðar fyrir honum síðan.

Aðalatriði þess, sem upplýst hefir orðið í málinu, er það, að frv. frá hv. þm. Vestm. (JJós), sem fer fram á, að ríkið selji Vestmannaeyjar fyrir 200 þús. kr., það er nú orðið stefnumál hæstv. stjórnar. Hinsvegar segir hæstv. ráðh. (MG), að ef meginpartur Eyjanna verði seldur, þá sjái hann ekki neina ástæðu til að halda útskæklunum eftir, og bætir, með tilliti til þessa, 50 þús. kr. við söluverðið. Eftir að það er þannig komið í ljós, að hæstv. atvrh. (MG) vill láta selja Eyjarnar fyrir 250 þús. kr., þá upplýsist það, að þær eru rúmlega 600 þús. kr. virði að fasteignamati, sem flestum ber saman um, að sje 1/3 – 1/2 of lágt metið.

Mjer finst mjög eðlilegt, að hæstv. ráðh. (MG) vilji nú sem fæst um þetta tala, því að sjálfsagt er svona frammistaða eitthvert mesta axarskaftið, sem gert hefir verið í opinberum fjármálum. En jeg er hæstv. ráðh. (MG) að vissu leyti þakklátur, hve hann hefir fært orð sín í skemtilegan búning. Hann játar nefnilega, að runnið hafi á sig „tvær grímur“, þegar um það var að ræða, að kasta burt eign landsins fyrir minna en helming verðs. Það eru þessar tvær grímur, sem mönnum virðist hæstv. ráðh. (MG) bera svo oft. Snýr önnur að kaupmönnum, en hin að bændum. Hvað bak við þennan búning liggur, geri jeg ráð fyrir, að hæstv. ráðh. (MG) segi, að sje einkamál eigandans.

Þá hefir hæstv. atvrh. (MG) misskilið frásögn um þetta í blaði einu hjer í Reykjavík, þar sem talað er um 200 þús. kr. sem söluverð á Vestmannaeyjum. Var þar vitanlega talað um tilboð hv. þm. Vestm. (JJós), eins og skýrt er tekið fram í greininni. Vill hæstv. ráðh. (MG) sjálfsagt gera ennþá mun á því, hvort Eyjarnar eru seldar allar eða aðeins hluti af þeim.

Að lokum skal jeg taka það fram, að jeg er hæstv. ráðh. (MG) alveg samdóma, þegar hann mótmælir því, að mál þetta sje sjerstaklega „móralskt“. Frv. sjálft er ekki „móralskt“ og þá ekki fremur sá þátturinn, sem hæstv. atvrh. (MG) hefir spunnið. Ber þetta vott um vaxandi skilning á málinu hjá hæstv. atvrh. (MG)