19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (2514)

33. mál, lærði skólinn

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg get þakkað hv. þm. Dala. (BJ) fyrir glögg og greið svör, því að hann er ekki myrkur í máli. Jeg fann, að það var full ástæða til að spyrja, og það var nauðsynlegt að fá þennan lið inn í umræðurnar.

það, sem á að gerast með frv., er að vísu á yfirborðinu það, að breyta kenslu í lærða skólanum, og jeg veit, að það er aðalatriðið frá sjónarmiði hv. flm. (BJ). En það er miklu meira, sem liggur hjer á bak við, því að afleiðingin af þessu verður stórkostleg breyting á fyrirkomulagi bæði þessa skóla og annara, og það er ekki eingöngu það, sem þarf að vega, hvað þetta kosti ríkissjóð. Það er líka um það að ræða, að flytja mjög mikið af þeim kostnaði, sem ríkissjóður ber nú, yfir á aðra, yfir á Akureyri, Hafnarfjörð og Reykjavík. Þessvegna segi jeg það, að mjer þykir mjög gott, að þetta hefir komið svo skýrt fram hjá hv. flm. (BJ). En jeg verð þó að gera kröfur til þess, að fá þetta nánar sundurliðað og athugað, hvernig þetta muni verka, því ef við samþykkjum frv. um lærða skólann, þá dregur það á eftir sjer alt þetta nýja skipulag. Jeg sje það t. d. í hendi mjer, að það verður að reisa gagnfræðaskólahús hjer í Reykjavík, því að jeg býst við, að hús lærða skólans verði notað fyrir hann sjálfan.

Hv. þm. Dala. (BJ) sagði, að í þann skóla, gagnfræðaskólann, mundu Reykvíkingar þurfa að senda 150–200 manns árlega. Að undanförnu hefir ríkið lagt til 75 parta af því, sem þarf til að reisa nýja hjeraðaskóla, og ætti þá Reykjavík að leggja til 2/5. Jeg vil, áður en jeg stíg það spor, að greiða atkv. um þetta, fá hugmynd um, hvað þetta kostar ríkið, og mjer þykir ekki órjettlátt, að Reykjavík væri látin vita, hvað stendur til, að hún fái að vita af því, að hún eigi að leggja fram 3/5 af því, sem þarf til að reisa skóla yfir 5–600 manns. Svo kemur rekstrarkostnaðurinn. Árið 1923 voru það 5/8 hlutar af kostnaði hjeraðaskóla, sem ríkið borgaði. Í fjvn. höfum við talað um 3/4. Það eru þá 5/8–3/4, sem ríkið ætti að taka að sjer, en bærinn hitt. Það er langt frá því, að jeg sje að leggjast á móti þessu fyrirkomulagi nú þegar, en jeg vil fá það á pappírinn, hvað þetta er. Og hvernig fellur svo kvennaskólinn í Rvík við þetta? Á hann að hverfa inn í þennan skóla? Jeg vil benda á, að í hv. Ed. er nú frv. á ferðinni, þar sem á að gera hann að sjerstökum ríkisskóla. Svo eru aðrir skólar. Á að setja gagnfræðaskólann á Akureyri yfir á Akureyrarbæ og skólann í Hafnarfirði yfir á Gullbringu- og Kjósarsýslu? Loks á að svifta Norðlendinga þeirri sjálfstæðu mentastofnun fyrir lærða menn, sem þeir hafa og hafa haldið fast um hingað til, að vonum. — Þurfa öll þessi atriði gaumgæfilegrar athugunar.

Nú er málinu svo komið, að hjer á að greiða atkv. um hinar einstöku greinar þessa frv., og svo eru margir aðiljar þessa máls út um land alt, sem þetta kemur mjög við; vildi jeg því með allri vinsemd skjóta því til hv. flm. (BJ), hvort ekki væri hægt að fresta atkvgr., til þess að nefndin og hann gæti lagt til gleggri upplýsingar í málinu, enda legg jeg sjerstaka áherslu á það, að áður en endanlega er greitt atkv. um þetta frv., þá liggi það Ijóst fyrir, hvaða afleiðingar það hafi.