15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (2526)

33. mál, lærði skólinn

Björn Líndal:

Jeg þykist ekki geta komið mjer hjá því, að taka til máls, þar eð jeg á sæti í þeirri nefnd, er hafði mál þetta til meðferðar, og auk þess hefi jeg borið fram nokkrar brtt. við þetta frv.

Það skal hreinskilnislega játað, að jeg hefi oft fundið til þess, síðan jeg fjekk sæti hjer á hv. Alþingi, hversu mikill vandi fylgir vegsemd þeirri að vera þingmaður. Fyrir þingið koma oft mál, sem mjög miklu skifta framtíð þessarar þjóðar og ekki aðrir en sjerfræðingar í þeim greinum geta haft fulla þekkingu á, og þess er krafist af okkur þingmönnunum, að við greiðum um þau atkvæði, með eða móti, þótt við finnum sárt til þess, að okkur brestur mjög þekkingu til þess að dæma um, hvað hjer sje þjóðinni fyrir bestu. — Jeg játa það fúslega, að jeg hefi litla þekkingu á skólamálum, þótt jeg hafi sjálfur alllengi í skólum verið, og því er þetta mál eitt þeirra mála, er mjer er erfitt að greiða atkv. um. — Með þessum formála ætla jeg að gera grein fyrir mínu atkv. um þetta mál.

Mjer var frá upphafi illa við þá breytingu, sem gerð var á skólanum fyrir 20 árum síðan, og álít jeg, að skólinn hafi síst orðið betri síðan, og tel jeg, að þetta hafi verið spor í ranga átt. En jeg skal og fúslega játa, að mjer stendur einnig stuggur af öllum snöggum og gagngerðum breytingum, jafnt í fræðslumálum og öðrum málum, er miklu skiftir hag þjóðarinnar, hvernig skipað er. Þó að jeg sje ekki sjerfræðingur, þykist jeg þó bera nokkurt skyn á það, hver munur er á gagnfræðamentun og undirbúningsmentun undir vísindaiðkanir. En þetta atriði hefir þegar verið nægilega útskýrt af öðrum, og læt jeg mjer nægja að vitna til þess. Mín skoðun er sú, að á þessu tvennu sje mikill munur, og að það sje alt annað, sem verður að leggja aðaláherslu á við gagnfræðanám en við undirbúning undir vísindamensku. Jeg tel hyggilegast, hjer sem annarsstaðar, að kenna þeim unga þann veg, sem hann á að ganga, og unglingunum sjálfum best að velja sjer framtíðarveginn sem allra fyrst. Þangað til er ráð unglinganna mjög á reiki, og sá á kvölina, sem á völina. Og það verður áreiðanlega til þess, að fleiri ganga hinn svokallaða mentaveg en ella mundu, að þeir þurfa ekki að taka þá ákvörðun fyr en þeir eru komnir upp úr 3. bekk.

Jeg er fyllilega samþykkur þeim mönnum, sem telja of mikinn stúdentafjölda þjóðinni síður en svo til góðs. Þeir hafa dvalið of lengi við bókleg störf og eru því flestir orðnir lítt eða ekki færir til líkamlegrar vinnu, ef ekki fæst annað. Enda óska menn oftast að halda áfram, er þeir eru orðnir stúdentar, háskólinn stendur fyrir augum þeirra í einskonar töfraljóma og dregur þá til sín. Þó eru sumir, sem vilja aðeins fara þangað til að dvelja þar um stundar sakir, og væri þeim stundum betra að hafa hvergi farið; aðrir fara á háskóla af löngun til að stunda ákveðnar fræðigreinir. En verði þeir of margir, sem þá leið ganga, er hreinn voði fyrir dyrum, hvort heldur er um embættismannaefni eða vísindamenn að ræða, því það leiðir til þess eins, að þá verður til flokkur lærðra öreiga, sem eru aðeins til ógagns hverju þjóðfjelagi. Þessum mönnum hættir við að fara inn á skaðlegar brautir, til þess að geta haft ofan af fyrir sjer, lenda oft í ýmsu stjórnmálabraski o. fl., sem betur væri ógert. Það er vitanlega engu betra, að of mikið sje af lærðum mönnum en t. d. of margir skósmiðir o. s. frv. Jeg játa einnig, að jeg aðhyllist þetta frv. vegna þess, að það yrði sennilega til þess, að fækka þeim mönnum, sem færu þessa braut, er fram liða stundir; stúdentatalan mundi lækka. En jeg vil ekki flaustra þessu af. Jeg vil ekki gera neinar stórfeldar breytingar, nema sterkar líkur sjeu fyrir því, að ekki verði þessu öllu snúið öfugt við aftur, eftir örfá ár. Þetta mál þarf að undirbúa þannig, að þjóðin sjálf skilji nauðsyn þessarar breytingar. En ef það á að koma svo að segja aftan að þjóðinni með þessar stórbreytingar á skólanum, er hættara við, að hægt verði að æsa menn upp móti breytingunni og til þess að kippa öllu í sama farið aftur. Jeg vil því láta þetta mál fá annan og betri undirbúning, þannig, að þjóðin eigi kost á að ræða þetta mál á stjórnmálafundum og láta uppi álit sitt um það o. s. frv. Ennfremur þarf fjárhagshlið þessa máls meiri athugunar við. Mjer skilst, að ekki verði hjá því komist að styrkja Reykjavík til gagnfræðaskólahalds, eins og gert er um aðra skóla, t. d. á Akureyri, en hve mikill þessi kostnaður yrði, er alt órannsakað mál. Þá er enn, að jeg get ekki fylgt þessu frv., ef ekki fæst samþ. brtt. mín um heimavistirnar. Því miður get jeg ekki frætt háttv. 2. þm. Rang. (KJJ) um, hve mikinn kostnað þær mundu hafa í för með sjer, en hann verður allmikill, og nú vinst ekki tími til að gera áætlun um þetta. Að miða þetta við kostnað heimavistanna á Akureyri, er ekki hægt. Sá skóli var bygður á þeim tímum, er húsabyggingar voru miklu ódýrari en nú, og er því ekki hægt að miða við það, auk þess hagar í ýmsu öðruvísi til á Akureyri en hjer, er gerir það að verkum, að heimavistímar verða þar ódýrari en þær munu verða hjer í Reykjavík. Það er rjett, sem hv. 2. þm. Rang. (KIJ) sagði, að heimavistirnar voru lagðar niður við lærða skólann hjer vegna berklaveikishættu. Jeg var þá í skóla, og hefi jeg þann heiður, að hafa verið síðastur umsjónarmaður á Langaloftinu. Okkur fjell þá öllum illa að missa af heimavistunum, en þá var talin vera talsverð hætta af berklasmitun í skólanum, og því voru þær lagðar niður. Jeg er þess fullviss, að það er mikil nauðsyn á að taka aftur upp heimavistir við skólann. Fátækum piltum ofan úr sveitum yrði miklu hægara fyrir að stunda nám við skólann, ef heimavistir yrðu aftur upp teknar. Og það gagn, sem ungir námsmenn hafa af því að vera stöðugt samvistum hverir við aðra, undir handleiðslu og umsjón góðra kennara, er sjaldan metið eins mikils og vert er.

Þá er enn eitt atriði ótalið. Með samþykt þessa frv. yrði því sambandi slitið, sem undanfarin ár hefir verið milli Akureyrarskólans og mentaskólans í Reykjavík, er nemendur, útskrifaðir þar norður, hafa gengið inn í lærdómsdeild mentaskólans. Ef þessu sambandi yrði slitið, mundi verða óþægilegri aðstaða manna á Norðurlandi til að koma börnum sínum til menta, en úr þessu mætti bæta með því að koma á fót einhverri aukakenslu við Akureyrarskólann, svo nemendur kæmust þaðan fyrirhafnarlitið inn í neðstu bekki lærða skólans hjer í Reykjavík. Til þess að þetta verði og athugað, vil jeg láta fresta þessu máli. Verði ekki hægt að koma því við, að þessi aukakensla komist á fót við Akureyrarskólann, mun þar rísa sterk alda til að krefjast þess, að þar verði einnig settur lærður skóli, og er það sanngirnismál mikið. Aftur á móti fer jeg ekki dult með þá skoðun mína, að jeg álít þess enga þörf, að tveir lærðir skólar verði í landinu fyrst um sinn. Það er augljóst, að kostnaðurinn yrði margfalt meiri við þessa grein fræðslumálanna, ef skólarnir yrðu tveir, og við mundum með þessu baka okkur mikinn og óþarfan kostnað. þá mundi naumast í bráð vera hægt að útvega nógu marga kennara til tveggja skóla, og segi jeg þetta ekki til að rýra álit þeirra kennara, sem nú eru, en þetta er mín sannfæring í þessu máli. Nú sem stendur er ilt að fá menn í kennarastöður, er hafi tekið embættispróf, og nú kenna viða við skólana ýmsir menn próflausir, þótt stundað hafi þeir þau fræði, er þeir kenna, og þó að þessir menn sumir kunni að vera fullgóðir kennarar, verður þó alment að telja meiri tryggingu fyrir góðri kenslu, er ræða er um mann með góðu prófi, heldur en þegar próflaus maður á í hlut.

Þá eru enn ótalin þau þroska og siðferðisáhrif, sem vænta má, að skólarnir hafi á nemendurna, og er eigi hlaupið að því, að finna nógu marga menn, sem hafa þegið þá guðsgjöf, að vera sjerstaklega til þess fallnir, að kenna þeim ungu þann veg, sem þeir eiga að ganga. En það þarf að velja þá menn að skólunum, sem færir eru til þess að þroska hæfileika unglinga þeirra, sem þeir hafa undir hendi, sem eru færir um að gera þá víðsýnni og kenna þeim að temja sjer sjálfstæða hugsun og rannsókn viðfangsefna. Mjer er ekki grunlaust um, að nú tíðkist það við ýmsa skóla, að innræta mönnum ákveðnar skoðanir, bæði í stjórnmálum, viðskiftamálum og á öðrum hlutum, og er það ilt, ef satt er. Á þennan hátt gætu komið upp flokkar í þjóðfjelaginu, sem því gætu orðið hættulegir, flokkar, sem kent hefir verið að misskilja hver annars skoðanir, í stað þess að kenna þeim að reyna að skilja hverjir aðra. Þessi hlið fræðslumálanna er mjög athugaverð. Þótt gott sje og nytsamlegt að vita ýmislegt í náttúrufræðum, stærðfræði, sögu, málum o. s. frv., er þó meira um vert, að unglingarnir „líði eigi tjón á sálu sinni“.

Skal jeg nú, eftir þennan inngang, sem orðinn er æðilangur, koma að aðstöðu minni til þessa máls.

Jeg vil vísa máli þessu til stjórnarinnar, með rökstuddri dagskrá eða öðru, til þess að það verði athugað, hvað kosta muni að koma upp nægilega mörgum heimavistum hjer í Reykjavík, og hvað muni kosta að koma upp aukinni kenslu við Akureyrarskólann, sem nægi til inntöku í neðstu bekki í lærða skólanum hjer; þá vil jeg heldur ekki gera of lítið úr því, hvað okkar besti skólamaður, sem nú er utanlands, leggur til þessara mála, þegar hann kemur heim aftur í sumar. Verði brtt. mínar um heimavistirnar feldar, verð jeg að vera á móti þessu frv. Um aðrar brtt. gerir minna til. En þótt þessar brtt. verði samþyktar, þá er ekki þar með sagt, að jeg greiði atkv. með frv. Jeg endurtek það, að af því, sem jeg er þegar búinn að gera grein fyrir, vil jeg fresta þessu máli að sinni.