01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2554)

96. mál, hvalveiðar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki fara út í það, hvort rjett sje að leyfa þennan atvinnurekstur. En jeg vildi aðeins vekja athygli á því, að 2. brtt. hv. nefndar fer í bág við sambandslögin. Skilst mjer eftir brtt, að þetta leyfi til hvalveiða geti aðeins fengið þeir íslenskir ríkisborgarar, sem eru búsettir hjer á landi. Hinsvegar býst jeg við, að hv. nefnd hafi ekki viljað útiloka þá, sem eiga jafnan rjett, t. d. danskir ríkisborgarar búsettir hjer. Jeg vona, að hv. nefnd taki þetta til athugunar og taki málið af dagskrá eða fresti þessari brtt. til 3. umr.