01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (2557)

96. mál, hvalveiðar

Hákon Kristófersson:

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir tekið fram margt af því, sem jeg vildi hafa sagt. Hvalveiðalögin eru yfirleitt okkur til tjóns, en útlendingum til gagns.

Jeg vildi beina þeirri spurningu til hv. nefndar, hvernig skilja beri ákvæðið í 2. gr. frv.

„Bannað er ... að flytja hval í land til hagnýtingar, nema til þess sje fengið sjerleyfi.“

Mundi þetta ákvæði banna að flytja í land hval, sem finst dauður? Það á sjer oft stað, þegar Norðmenn stunda veiði hjer við land og „flensa“ hvalinn ýmist utan við landhelgi eða inni við land. Það munu dæmi til þess, að Íslendingar hafi notað það af hvalnum, sem þeir, er veiddu, hafa ekki kært sig um. Jeg býst við, að út um bæi og bygðir landsins sje alment litið svo á, að vel megi nota hvalinn, þó að hann sje naumast talinn mannamatur hjer á Alþingi.

Hvað sjerleyfið snertir, þá er ekki líklegt, að innlendir menn stofni til þessara veiða, nema þá að mynda til þess öflug fjelög, en ekki líklegt, ef sjerleyfið væri bundið við 10 ári að menn vildu leggja fje sitt í fyrirtækið og eiga svo á hættu, að leyfinu væri kipt burtu. Jeg veit eiginlega ekki, hvað hv. nefnd meinar með þessu. Ef sjerleyfi væri veitt, yrði að fá um það umsögn Fiskifjelagsins. Finst mjer gægjast hjer fram, eins og víðar, tilhneigingin til þessarar fáránlegu skriffinsku, sem virðist vera að taka þjóðfjelag okkar heljartökum.

Í 3. gr. frv. segir svo: „Ennfremur skal greiða árgjald af hverju hvalveiðaskipi, eigi minna en 500 krónur.“ Hjer er eitt atriði, sem jeg er ekki viss um, hvernig nefndin meinar, hvort þetta á að vera aukaskattur eða hvort líka á borga aðra gildandi skatta. (ÁF: Að sjálfsögðu aðra skatta líka.) Hvað vakir þá fyrir nefndinni með að skattleggja þessi skip? Hyggur hún þessa veiði því arðsamari en aðrar? Engum dettur í hug að leggja sjerstakan skatt á togara. Þessi ákvæði miða að því að gera torveldara fyrir einstaka ríkisborgara að slá sjer saman til þess að reka þessa atvinnu. Hvort hrefnan er friðuð eða ekki samkv. gildandi lögum, skal jeg ekkert um segja, en þau orð hafa fallið hjá skynbærum mönnum, að svo muni vera, og verði því að nema þá friðun úr gildi. Með öðrum orðum, ef einhver brýtur lög, þá verður að nema þau úr gildi, af því þau hafa verið brotin. Jeg vildi helst óska, að engin hvalfriðunarlög ættu sjer stað. Þau ná ekki tilgangi sínum, hvort sem er. Útlendingar drepa hvalinn við strendurnar, án þess Íslendingar njóti nokkurs af. Þeir bara horfa á útlendinga taka frá sjer þá björg, sem þeim mætti sjálfum sennilega að miklu gagni verða.