26.02.1925
Neðri deild: 17. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (2659)

32. mál, varalögregla

Bernharð Stefánsson:

Jeg vildi aðeins leyfa mjer að gera örlitla fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JM). Eins og eðlilegt var, stakk hann upp á því, að frv. þessu yrði vísað til nefndar, og það er einmitt nefnd, sem jeg á sæti í.

Nú hefir mjer skilist, eftir því sem jeg hefi getað kynt mjer mál þetta, að kaupstöðum landsins sje með lögum heimilað að setja sjer lögreglusamþyktir, og ennfremur, að lögreglunni sje lögheimilt að kveðja borgarana sjer til aðstoðar, til þess að halda uppi lögum og rjetti. Nú vil jeg spyrja, hvort hæstv. forsrh. (JM) álítur ekki, að kaupstöðum landsins sje fullheimilt að taka upp í lögreglusamþyktir sínar ákvæði um stofnun varalögreglu, ef þeir telja þess þörf. Mjer skildist á hæstv. forsrh. (JM), að meiningin með frv. þessu væri ekki sú, að koma upp almennri ríkislögreglu um land alt, heldur miklu fremur, að stofnuð verði varalögregla í einstöku bæjum, er skuli, þegar þörf krefur, hjálpa hinni reglulegu lögreglu til þess að halda uppi lögum og velsæmi. Verkefni þessarar varalögreglu verður því ekki það, að vera almenna ríkisvaldinu til styrktar, að því er mjer skilst. Mjer hefir því fundist, að það lægi óneitanlega næst bæjunum að sjá sjer fyrir varalögreglu, hver fyrir sig, ef þeir þykjast þurfa hennar við, eða þá að auka lögregluna á annan hátt. Það, sem einkum mætti ef til vill hafa á móti þessu, er, að þeim væri það ekki kleift, kostnaðarins vegna. En mjer virtist kostnaðaráætlun hæstv. forsrh. (JM) vera svo lág, að jeg gat ekki sjeð, að bæ eins og t. d. Reykjavík væri ókleift að standa straum af þeirri varalögreglu, sem hann kynni að óska að fá, ef treysta má áætlun hæstv. forsrh. En þó að svo væri nú, að Reykjavík og aðrir bæir landsins gætu ekki kostað nægilegt lögreglueftirlit, þá er til annar vegur en sá, að ríkið stofni og kosti að öllu leyti fasta varalögreglu, en sá vegur er, að bæirnir fái einhvern styrk úr ríkissjóði til þessara hluta, ef þeir þurfa og kæra sig um. Það er töluverður munur á því, að bæirnir auki lögreglustyrk sinn, eða að ríkið geri það á þann hátt, sem í frv. segir. Bæði er það, að síður er ástæða til að láta sjer detta í hug, að lögreglusveitir bæjanna verði pólitískar, og í öðru lagi má gera ráð fyrir, að gætilegar verði farið í sakirnar, að leggja út í þann kostnað, sem af aukinni lögreglu leiðir, ef bæja- og sveitafjelögin eiga sjálf að taka ákvarðanir um þessi mál og bera kostnaðinn að miklu eða öllu leyti. Það hefir verið svo, síðan lögregla var fyrst stofnuð hjer á landi og síðan bæir urðu fyrst til, að þeir hafa sjálfir borið allan kostnað við lögreglueftirlit sitt, að því undanskildu, að ríkið hefir lagt til valdsmanninn, lögreglustjórann, sem hefir þá jafnframt haft önnur og margskonar störf með höndum. Finst mjer því, að töluvert ríkar ástæður verði að vera fyrir höndum, ef breyta á þessu gamla skipulagi, sem hefir óneitanlega gefist vel, yfirleitt. Þær ástæður verða að vera veigameiri en sú ein, þó viðurkent væri, að lögreglan væri of fámenn í einstaka kaupstað og að þar þyrfti að auka hana.

Það var svo að skilja á hæstv. forsrh. (JM), að tæplega væri þörf aukinnar lögreglu annarsstaðar en í Reykjavík, og svo í kaupstað, sem er innan kjördæmis míns, Siglufirði, um síldveiðatímann. Jeg tel líklegt, að þar sje þörf aukinnar lögreglu þennan tíma ársins, en jeg býst við, að komast mætti af með örfáa menn í viðbót við þá, sem nú eru. En það þyrftu sennilega að vera fastir starfsmenn. Fæ jeg ekki betur sjeð en að ríkinu væri miklu nær að veita Siglufirði einhvern styrk til aukinna lögregluvarna en að verja ærnu fje til þess að koma upp slíkri varalögreglu sem í frv. felst. Ef uppþot verða, eða ef útlendingar vaða uppi með einhvern ósóma, t. d. fullir, tekur það tíma að smala saman þessum varalögreglumönnum út um allan bæ. Það er sennilegt, að á þeim stað muni ekki veita af sterkari fastri lögreglu en þar er nú, yfir allan síldveiðatímann að minsta kosti. En ólaunuð varalögregla býst jeg ekki við að komi þar að notum.

Þetta var nú ekki nema fyrirspurn til hæstv. stjórnar, og ætla jeg ekki að fara frekar inn á þetta mál. En þó verð jeg að segja það, að yfirleitt líst mjer illa á þetta fyrirkomulag, sem stungið er upp á í frv., og get alls ekki fallist á það, þó að jeg á hinn bóginn viðurkenni fúslega, að það gæti átt sjer stað, að lögreglulið bæjanna þurfi að auka.