12.02.1925
Efri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í C-deild Alþingistíðinda. (2733)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Jónas Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer nú þegar við 1. umr. að benda hæstv. mentamálaráðherra (JM) á smáagnúa, sem eru á þessu frv. hans.

Það er þá fyrst, að strax í athugasemdunum er ranglega skýrt frá kenslustundafjölda við kennaraskólann, og skakkar þar þremur stundum á viku. Við kennaraskólann hefir stundafjöldi kennaranna verið 27, en ekki 24, á viku. Þetta er að vísu ekki stór villa, en bendir þó til þess, að þeir, sem frv. hafa samið, hafi ekki verið nægilega kunnugir, og svo gæti verið um fleiri atriði, þegar farið verður að athuga málið betur.

Þá vil jeg einnig benda á, að þrátt fyrir það, þó að ýmislegt í frv. þessu geti talist til bóta, þá er það þó verulegur agnúi á framkvæmdum þess, hvað flestir kennarar ríkisskólanna eru illa launaðir. T. d. er það kunnugt um flesta kennarana, sem í kaupstöðum búa, að þeir lifa ekki af þeim föstu launum, sem ríkið skamtar þeim. Mjer er m. a. kunnugt, að einn mentaskólakennarinn hefir orðið að kenna 10 stundir á dag til þess að sjá sjer og sínum farborða. Það er eins og hæstv. forsrh. (JM) viti ekki þetta, sem allir aðrir vita, að kennarar mentaskólans og fleiri skóla verða að lifa á snöpum, til þess að fara ekki á vonarvöl.

Jeg gæti fallist á sumt í frv. þessu, en eins og það er nú, álít jeg, að það geti ekki komið til framkvæmda. Það verður fyrst að bæta launakjör kennaranna, áður en starf þeirra er aukið. Með sömu launakjörum verða þeir að lifa á snöpum eftir sem áður, og afleiðingin verður sú, að kensla þeirra hlýtur að lenda meira og minna í handaskolum.