27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í C-deild Alþingistíðinda. (2748)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Guðmundur Ólafsson:

Hv. 1. landsk. (SE) byrjaði ræðu sína fremur óviðkunnanlega. Kvað hann það gleðja sig, að hæstv. stjórn legði ekki mikla áherslu á þetta frv. Það gleður mig aldrei að heyra, að flutningsmenn láti sjér á sama standa um mál sín, eða beri þau fram, án þess að þeir hafi áhuga fyrir þeim. Hv. 1. landsk. (SE) gerði mikið úr því, hve stórkostlega hættulegt það væri, að auka stundafjölda kennaranna og lýsti átakanlega, hve þeir væru oft þreyttir á kvöldin. En jeg fæ ekki sjeð, að þessi viðbót við starfstíma þeirra, hálf stund á dag, sje svo stórvægileg, að þeim sje þar með meinað að taka að sjer aukakenslu. Þá sagði hv. þm. (SE) ennfremur, að hætt yrði við, að ekki fengjust lengur afburðamenn að skólunum, ef frv. væri samþ. Raunar gat hann þess ekki, að alt væru tómir afburðamenn, sem nú væru í kennarastöðum, og jeg mun ekki heldur verða til þess að deila um þá hluti. Annars verð jeg að segja, að hv. þm. (SE) var ekki svona brjóstgóður við sýslumennina, þegar hann var að bera fram frv. um fækkun þeirra. Jeg er viss um, að hefði það náð að ganga fram, þá hefðu sumir sýslumennirnir okkar orðið voðalega þreyttir á starfi sínu.

Annars kem jeg ekki auga á, hvað hættulegt sje við það, að auka stundafjöldann eins og frv. fer fram á. Hæstv. forsrh. mintist í þessu sambandi á lengingu starfstímans í stjórnarráðinu; kvað þar nú vera byrjað að vinna kl. 9 árdegis. En hræddur er jeg um, að annaðhvort hafi starfsmennirnir á þeim skrifstofum verið harla seinir að átta sig á breytingunni, eða hafi vitlausa klukku, því að stundum kvað vera brestur á því, að þeir sjeu komnir til vinnu sinnar fyrir kl. 10.