27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í C-deild Alþingistíðinda. (2750)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) spurði um það, hvort gert væri ráð fyrir að láta þessi lög ná til núverandi kennara, eða hvort svo skyldi álitið sem ríkið væri bundið samningum við þá um 24 st. kenslu. Jeg skal lýsa yfir því, að ekki hefir verið neitt um það rætt, hvort frv. þetta, ef það verður að lögum, eigi að ganga í gildi þegar í stað eða smámsaman, enda má setja ákvæði um þetta inn í frv. við 3. umr. Hinni spurningunni, hvort ekki væri brotinn rjettur á kennurum með þessu, svara jeg hiklaust neitandi. Launalögin segja beinlínis, að bæta megi störfum við embættismenn ríkisins. Stjórnin hefði sjálf eins vel getað sett ákvæði um þetta, en henni þótti þó rjettara að heyra álit þingsins. Jeg hefði í haust getað skipað svo fyrir, er ný reglugerð var sett, að tímafjöldi kennaranna við kennarskólann yrði 30 st. Ráðfærði jeg mig um þetta við forstöðumann skólans, og kvaðst hann ekki vera á móti því fyrir sitt leyti, ef sama yrði látið ganga yfir aðra samskonar skóla.

Annars er mjer ekki, eins og jeg hefi áður tekið fram, eins mikið áhugamál að þetta frv. nái fram að ganga, eftir að hitt frv. er felt, því jeg bjóst við, að þau yrðu samferða, og hefðu átt að vera það. Og ef hv. þm. vilja heimta minni vinnu af kennurunum en annarsstaðar gerist, þá ráða þeir því. Að hinu leytinu er jeg glaður yfir því, að kennarar eiga nú væntanlega von á bættum launakjörum, sem aðrir embættismenn ríkisins veiða þá væntanlega líka látnir verða aðnjótandi.