28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í C-deild Alþingistíðinda. (2821)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Ágúst Flygenring:

Hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að jeg kysi fremur vináttu við Reykvíkinga en kjósendur mína. Hann hefir líklega meint Hafnfirðinga fremur öðrum kjósendum. En hv. þm. veit sjálfur, að þetta eru í alla staði ómakleg og ósanngjörn ummæli. Það, sem mínir kjósendur hafa beðið ásjár gegn, í allsherjarnefndinni, sem hann vitnaði til, er ekki þetta frv., heldur gegn ósamræminu í skattalöggjöfinni, að því er snertir þetta sjerstaka atriði og yfirleitt þau margvíslegu önnur ákvæði um sveitar- og bæjargjöld, sem nú eru í ósamræmi og valda miklum deilum og örðugleikum, en til að bæta nokkuð úr þessu miðar einmitt þetta frv. mitt.