11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

89. mál, dýraverndun

Klemens Jónsson:

Það eru tvö atriði í frv. þessu, sem fara í bág við gildandi lög.

Hið fyrra er, að lögreglustjórar geti án dóms hindrað illa meðferð á skepnum, aðeins ef þeir telja, að misþyrming hafi átt sjer stað. Þetta þykir mjer of víðtækt, enda ástæðulaust að gefa lögreglustjórum slíkt vald. Þessi mál eru venjulega ofboð einföld, almenn lögreglumál, og getur því lögreglustjóri kveðið upp dóm svo að segja samstundis. Hitt tel jeg of viðurhlutamikið, að gefa lögreglustjóra það vald, að hann geti án undangengins dóms tekið skepnuna og svift eigandann umráðarjetti hennar. Þessvegna hefði frv. átt að byrja á orðunum „sje maður dæmdur“ o. s. frv., en sleppa orðunum þar á undan.

Þá kem jeg að hinu atriðinu.

Það gildir alment um alla dóma, sem áfrýjað er, að á meðan frestast öll framkvæmd dómsins, þangað til æðri dómur er fallinn, með öðrum orðum, fyrri dómurinn og kraftur hans fellur alveg niður, meðan áfrýjun stendur. Þessvegna hefir dómarinn ekki, samkvæmt þessum almennu og gildandi reglum, vald til þess að svifta eigandann umráðarjetti yfir skepnunni á meðan æðri dómur er ekki fallinn. En hinsvegar virðist mjer þó óeðlilegt, að maður, sem dæmdur hefir verið fyrir illa meðferð á skepnu, geti haldið áfram að hafa hana undir höndum og ef til vill haldið áfram að misbjóða henni svívirðilega, á meðan endanlegur dómur fellur ekki.

Jeg verð þessvegna, þrátt fyrir þessa almennu og eðlilegu lagareglu, að hverfa frá henni í þessu máli, sem hjer er um að ræða, og get því verið sammála hv. flm. (MJ) um það, að ástæða sje til að lagfæra þetta, og beini jeg þessum athugasemdum til hv. nefndar, að hún reyni að breyta frv. í það horf, er jeg hefi bent á.