24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, fjárlög 1926

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. Dala. (BJ) miklu, því að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir gert það svo ítarlega.

Hv. þm. Dala. (BJ) er mjer reiður. Honum hefir þótt að því óvirðing, að jeg taldi dagskrá hans fávíslega. En hv. 3. þm. Reykv. (JakM) og jeg höfum nú sýnt fram á, hve fávísleg hún er, og þarf jeg því ekki að fara fleiri orðum um það. Það er ekki að undra, þótt hæstv. forsrh. (JM) þætti jeg brjóta allar velsæmisreglur með því að koma nálægt hv. þm. Dala. (BJ), þegar hæstv. stjórn ber hans tillögur eins og skjöld fyrir sig. Hv. þm. Dala. var allrogginn af þessari tillögu, og er þó í henni fólgið hið argasta vantraust á þeirri stjórn, sem hann vill styðja, því að ekki er það vandi stjórnarandstæðinga að mælast til, að landsstjórn sinni þeim kærum, sem lögreglunni berast, og hefir hv. þm. Dala. (BJ) þó fundið ástæðu til þess í dagskrá sinni.

Hv. þm. Dala. (BJ) gerðist mjög vitur um hríð og vildi bera mjer á brýn, að jeg hefði ruglað saman löggjafarvaldi og dómsvaldi, en raunar stafaði vandlæting hans af því, að sjálfur blandaði hann þessu tvennu saman. Jeg veit ekki til þess, að hjer hafi verið að ræða um tillögu um að þingið tæki dómsvald í sínar hendur heldur var eftir því einu óskað, að málið væri rannsakað. Þetta hlýtur háttv. þm. Dala. að sjá, þegar dagskrármóðurinn er af honum. Sömuleiðis sagði hann, að nokkrir menn úr okkar flokki hefðu eytt 4 dögum til þess að halda því fram, að engin lögregla ætti að vera til. Þetta er ekki sagt af fávisku, heldur er það ranghermi, sem honum er sjálfrátt. Hv. þm. Dala. virðist ekki bera mikið traust til þingsins. Hví tók hann þá ekki undir ósk mína um þingrof? Stjórnarflokkurinn er ekki eins sterkur og vera þarf til að fara með völdin í landinu. En fyrst hv. þm. Dala. (BJ) kveður upp dóm um hæfileika þingsins, ætti hann að vera góður stuðningsmaður slíkrar tillögu.

Hæstv. forsrh. (JM) get jeg svarað því, að jeg hefi aldrei litið svo á, að vanræksla stjórnarinnar á því að gefa út reglugerð um bann gegn innflutningi útlendinga sje nein höfuðsök. Það mun ein hin smæsta sök stjórnarinnar, sem þó ber ekki að sleppa. Jeg var aðalflutningsmaður þáltill. á síðasta þingi, og var mjer þá skyldara en öðrum að vitja rjettlætis á stjórninni um það mál. Um hitt var að vísu ástæða til að kvarta, að nokkuð hefir verið rætt um Krossanesmálið nú, því að þar er viðkvæmur blettur á stjórninni, en ekki þurfti hæstv. ráðherra að verða hissa á því. Það var ekki vegna þess, að jeg hafði ekki talað við umr. þess máls, að jeg vjek að því, heldur horfir það mál töluvert öðruvísi við síðan Daladagskráin kom fram, og á þeim hinum nýja grundvelli hefi jeg rætt það mál. Því það, að neita um rannsókn, er nýtt hneyksli í því máli, í viðbót við sjálft Krossaneshneykslið. Jeg geri ekki ráð fyrir, að dómsmálaráðherra fari um land alt og líti eftir löghlýðni landsmanna. Það veit hann vel, að mjer kemur ekki í hug. En jeg gerði þá kröfu til hans, að þegar hans undirmenn ljetu það undir höfuð leggjast að hefja rannsókn þar, sem ástæða er til, og hæstv. dómsmálaráðherra finst málið svo miklu varða, að hann getur ekki smeygt því fram af sjer, þá gerði jeg þá kröfu, að hann tæki sína ákvörðun einbeittlega og ljeti í ljós, að málið hefði komið til sinna kasta til úrskurðar, jafnvel þó að aldrei kæmu neinar kærur. Þegar engin sakamálsrannsókn hefir verið hafin, ber honum að geta sagt, að það sje hans eigin úrskurður, að svo skuli vera.

Hæstv. dómsmálaráðherra eignar mjer þann misskilning, að jeg hafi haldið, að þegar maður er myrtur, þá sje það dómsmálaráðherrann, sem eigi að rjúka upp. Þetta hefi jeg vitanlega aldrei sagt; auðvitað lætur hlutaðeigandi rannsóknardómari ekki undir höfuð leggjast að gera skyldu sína, þegar slíkur glæpur er framinn, en vanræki hann skyldu sína, kemur auðvitað til kasta dómsmálaráðherrans, og ef hann reynist ekki árvakur í sínu embætti, kemur til þingsins kasta. Hæstv. dómsmálaráðherra þarf ekki að nota sína miklu þekkingu á öllum þessum málum til þess að eigna okkur hinum, sem fáfróðari erum í lögvísindum, skoðanir, sem við aldrei höfum látið í ljós.

Hœstv. ráðherra taldi það fjarstæðu, að fara í málum eins og þessu að nokkru eftir því, sem blöðin segja. En jeg vildi benda honum á það, að sakamálsrannsókn hefir verið fyrirskipuð hjer fyrir ekki alllöngu út af blaðaárás, sem prestur varð fyrir. Man jeg ekki, hvort núverandi hæstv. dómsmálaráðherra gegndi þá því starfi, en mig minnir, að svo hafi verið. Getur hæstv. ráðh. leiðrjett nú þegar, ef þetta er ekki rjett. Hafi svo verið, þá er þetta honum bara til sóma. Og hafi í eitt skifti verið farið eftir blaðagreinum, þá getur hæstv. ráðherra ekki neitað, að í fleiri tilfellum þurfi að taka svo mikið tillit til þess, sem blöðin segja, að þeim og einnig almenningi sje fullnœgjandi svarað með rannsókn á máli.

Hœstv. ráðh. tók þannig undir þá málaleitun mína, að Krossanestill. yrði borin fram aftur í öðru formi, að jeg skildi ofurvel, að hann er því algerlega mótfallinn að fá öll málskjöl í hendur þingnefnd til rannsóknar. Það var ekki mín ætlun að bera fram nýja till. til þess að tefja tíma þingsins. En ef hæstv. stjórn hefði viljað taka tilboði mínu, mundi hafa verið hægt að koma slíkri till. fram án þess það kostaði nokkra töf, með því að afgreiða hana til nefndar umræðulaust.

Hinni fyrirspurninni, sem jeg beindi til hæstv. forsrh. (JM), um það, hvaða frumvörp stjórnin ætlaði að gera að fráfararatriði, var ekki svarað. Þvert á móti virtist mjer hæstv. ráðh. taka það óstint upp, að spurt skyldi að slíkum hlutum. Honum fanst það líkast skrípaleik. Jeg spurði vegna þess, að ósk mín er, að hver stjórn geri það að sinni meginreglu að sitja ekki að völdum, ef hún megnar ekki að koma fram sínum stœrstu málum. Jeg hygg, að stjórnin hefði hlotið virðingu af að taka upp þessa reglu. Og eigi hún það eftir, býst jeg við, að það verði henni til sóma og ekki annars. Þetta er langt frá að vera ofsókn gegn hæstv. stjórn, eins og hæstv. forsrh. virtist halda. Því að mitt ráð var í því fólgið, að stjórnin ryfi þingið, en færi ekki sjálf frá. Aðeins sendi okkur heim. Svo gæti stjórnin og þingið leitað svars hjá þjóðinni. Þetta er ekki ofsókn við stjórnina, og ekki ráð til að koma henni frá, nema hún hafi ekki með sjer meiri hluta þjóðarinnar. Því aðeins hefir hæstv. ráðh. rjett til að nefna þetta ofsókn gegn stjórninni, að hann sje hræddur um, að stjórnin hafi þjóðina ekki að baki sjer. Þessi mál og þvílík hygg jeg ekki illa til fallin að ræða á eldhúsdegi. Hefi jeg farið eftir kokkabók hæstv. fjrh. (JÞ), sem komst svo að orði, að hjer ætti að rœða alt, sem ekki er hægt að koma við að ræða í umr. um önnur mál þingsins. Jeg get fallist á, að svo sje. Og þegar er að ræða um þessar venjur, sem ekki eru bókfestar eða lögfestar, þá eru fáir dagar betur fallnir en eldhúsdagar þar til. En hæstv. forsrh. hefir kannske þótt þessi mæliker, sem jeg notaði, heldur stór fyrir stjórnina, því að hvorugri spurningu minni svaraði hann með einurð. Það er þá ekki af honum að vænta þeirrar manndáðar, sem þjóðin þráir hjá stjórnmálamönnum sínum.