21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í D-deild Alþingistíðinda. (3239)

98. mál, Krossanesmálið

Bjarni Jónsson:

Það fer fyrir mjer um þetta mál eins og svo mörg önnur, að jeg get ekki farið að hleypa mjer í ljósan loga, þótt það hinsvegar sje merkilegt og skifti harla miklu, hvort hafa skal rjetta vog og mæli í landi eða eigi. Og þegar það óheillaspor var stigið að leggja niður löggildingarstofuna, þá barðist jeg af alefli á móti því, eins og hv. Þingmenn mun reka minni til. Fyrir því er það og, að jeg kem með frv. nú þess efnis, að reisa skuli hana við á ný, og vona jeg, að mönnum skiljist að nokkru nauðsyn þess máls af rekistefnu þeirri, sem orðin er út úr þessu Krossanesmáli.

Það er deginum ljósara, að það er skaði fyrir landsmenn, ef ekki er rjett vog og mælir í landi. Hugsum oss mann, er selur fisk og ekki hefir rjetta vog. Hann vegur þá ef til vill útlendingnum meira en rjett er, og skaðast þannig. Og svo mætti lengi dæmum áfram halda. En það er sýnt, að þótt skaðinn sje lítill í hvert sinn, þá dregur hann sig saman, ef árum saman eru notuð röng mælitæki, og verður til almenns tjóns.

Það er því nauðsynlegt og algerlega óhjákvæmilegt að ákveða það með lögum, hversu stór skuli vera síldarmæliker á þessu landi, og gæta þess síðan stranglega, að þeim lögum sje fylgt.

Að því er þetta sjerstaka mál snertir, þá lít jeg þar dálítið öðrum augum á en margir aðrir. Vjer erum auðvitað allir sammála um það, að sjálfsagt sje og rjettmætt að líta eftir þessari verslun sem öðrum og gæta þess, að landslögum sje hlýtt, að ekki verði fjebrask úr. En mjer finst ekki rjett að tala um þessa einu verksmiðju eins og engir aðrir eigi þar hlut að máli. Eftir skýrslu hæstv. atvrh. kom það í ljós, að röng mál hefðu verið notuð á fleiri stöðum. Og mjer er einnig kunnugt um það af viðtali við mann, sem mjög vel þekkir til, að slíkt hefir átt sjer stað t. d. á Siglufirði hjá Goos og ef til vill víðar. Og það er ómannúðlegt og rangt að gera þar mun á, hvort sem rannsókn fer fram eða ekki.

Þá kann jeg ekki allskostar við þá aðferð, sem sumir vilja hafa í þessu máli. Það er vitanlegt, að þessi nefnd getur ekkert gert annað en rannsaka gerðir stjórnarinnar og skjöl þau og skilríki, er að þessu lúta. En þar sem stjórnin hefir nú lagt fram öll skjöl og skýrsla er fram komin frá þeim ráðherrum, sem um málið hafa fjallað, þá hlýtur nefndin að komast að sömu niðurstöðu sem nú er fengin.

Það hefði farið betur á því, úr því Framsóknarflokkurinn ætlaðist ekki til, að þetta væri sem vantraust á stjórnina, að í fyrirspurnarformi hefði komið fram. Jeg hefði sennilega gert það sjálfur annars, til þess að fram kæmi gögn stjórnarinnar og almenningur fengi að vita, hvern veg málinu er háttað.

En hvers vegna hv. þm. vilja sakamálsrannsókn í þessu máli, skil jeg ekki. Það hafa engin þau gögn komið fram, er slíks krefjast.

Það hefir verið sagt, að verið hafi til samningur við einn mann, og hafi sá verið rofinn. Það má vel vera. En slíkt plagg liggur ekki fyrir þinginu; enginn þm. hefir sjeð þennan samning, og þm. geta alls ekki hagað atkvæði sínu eftir flugufrjettum.

Það hefir og komið fram, að enginn einasti af viðskiftamönnum verksmiðjunnar hefir kært, hvorki höfðað skaðabótamál nje krafist sakamálsrannsóknar. Það er þó vanalegi gangurinn. Og ærin tímatöf myndi það verða Alþingi, ef ótilkvatt ætti það að sinna hverju smáatriði, sem á milli kann að bera í viðskiftum. En hins er sjálfsagt að krefjast, að engin rjettaróvissa sje til í landinu, og það sýnist vera trygt, ef sett eru um þetta lög, og hæstv. stjórn tjáir sig fúsa til þess að hafa eftirlit með þeim.

Jeg vil því leyfa mjer að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá, ef hæstv. stjórn tjáir sig fúsa til þess að láta rannsókn fara fram, ef einhver kynni að kæra um þessi mál:

„Í því trausti, að stjórnin láti fram fara ítarlega rannsókn á síldarkaupum í þeim verksmiðjum, sem reyndust hafa röng mælitæki, svo fremi einn eða fleiri viðskiftamenn þeirra æskja þess, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Jeg afhendi forseta þessa dagskrá, en tek hana aftur, ef hæstv. stjórn vill ekki lýsa því yfir í heyranda hljóði, að rannsókn skuli fram fara, ef þess er beiðst af viðskiftamönnum.