21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (3246)

98. mál, Krossanesmálið

Jakob Möller:

Eftir að jeg hafði talað eins oft og jeg hafði leyfi til í þessu máli, kom fram tillagan frá hv. þm. Dala. (BJ). Mjer er ekki ljóst, hvað eiginlega er meint með þessari dagskrá, og þætti mjer vænt um að fá skýringu á því. Þar er þannig tekið til orða, að vænst sje af hæstv. stjórn, að hún „láti rannsaka ítarlega síldarkaup í þeim verksmiðjum, sem reyndust hafa röng mælitæki, svo fremi einn eða fleiri viðskiftamenn þeirra æskja þess“. Hvaða skilning leggur nú hv. flm. í þetta, og hvernig skilur hæstv. stjórn það? Er meiningin að „kæra“ eigi að koma frá viðskiftamönnum, eða að þeir aðeins „æski“ rannsóknar? Og hvernig ætlast hv. þm. Dala. til að rannsókn fari fram? Er það sakamálsrannsókn, sem hann vill hafa? Ef sú er meiningin hjá hv. flm. að skora á stjórnina að taka til greina kærur frá einstökum mönnum, fæ jeg ekki betur sjeð en að þetta sje enn hatramlegri vantraustsyfirlýsing á hæstv. stjórn en nokkum tíma kom fram í hinni tillögunni. En jeg geri ekki ráð fyrir, að hæstv. stjórn hafi skilið það þannig, því hafi hún gert það, hefði ekki verið tekið á móti þessu. Sje hitt meiningin, að það eigi að nægja, að einhver og einhver „æski“ sakamálsrannsóknar, þá verð jeg að segja, að það er þó öllu óálitlegra fordæmi en að þingið taki sjer það frumkvæði í hendur.

Sem sagt þætti mjer vænt um að fá skýringu á þessu, en enn sem komið er fæ jeg ekki betur sjeð en að tillaga þessi eigi hingað furðulítið erindi.