21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í D-deild Alþingistíðinda. (3339)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jóhann Jósefsson:

Af svari hæstv. atvrh. virtist mega ráða, að þó að stjórnin hefði málið til meðferðar, mundi nást sami árangur og hjá nefnd, en kostnaðurinn yrði miklu minni. Jeg býst líka við, að allir geti tekið undir það, að þetta sje ekki meira en hægt er að ætlast til. að hvaða stjórn sem er geti int af hendi. Það verður varla dregið í efa, að stjórninni sje innan handar að afla sjer eins góðra upplýsinga um þetta efni og milliþinganefnd gæti gert. Það er sjálfsagt rjett, sem hv. 5. landsk. (JJ) drap á, að ætíð verður ágreiningur og hagsmunastreita um þetta mál milli kaupstaða og sveita. Jeg neita því ekki, að þörf muni á ýmsum breytingum að því er snertir þessa löggjöf. Breyttir tímar krefjast þeirra. Löggjöfin verður altaf að breytast, eftir því sem tímamir sjálfir breytast. Að þessu leyti er jeg alveg samdóma hv. 5. landsk. (JJ). En það verður varla búist við, að þetta gerist alt í einu. Ef breytingamar koma smátt og smátt, má fremur búast við, að þær verði rjettlátar og haldgóðar. Hv. 5. landsk. tjáði sig þeirrar skoðunar, að bar sem skoðanir manna væru svo ólíkar í þessu máli, mundu frekar fást heppileg úrslit, ef nefnd væri skipuð úr ýmsum stjettum til þess að fjalla um þessa löggjöf. Hann hjelt því líka fram, að þess væri varla að vænta, að þessar ólíku kröfur gætu mæst hjá einum ráðherra. Óttaðist hann því, að meðferð málsins yrði ekki eins rækileg hjá stjórninni eins og ef farin væri sú leið, sem þáltill. fer fram á. Á það hefir verið bent, að stjórnin mundi leita sjerfróðrar aðstoðar, og jeg tel sjálfsagt, að hún geri það. Og jeg held, að ekki sje ástæða til að ætla, að stjórninni, með aðstoð hæfra manna, tækist ver að útbúa sanngjörn lög en þessari marglitu hagsmunatogstreitunefnd, sem hv. 5. landsk. álítur svo heppilega. Hv. þm. (JJ) mintist á, að málið gæti hæglega strandað á því, að stjórnin kæmi með frv., sem ekki næði samþykki. En það er heldur engin sönnun fengin fyrir því, að nefndin yrði sammála. Það gæti líka vel farið svo, að þessi allsherjarbræðingur fyndi ekki náð hjá þinginu. Það er vitanlegt, að starf nefndar yrði ekki aðeins dýrara, heldur margfalt dýrara. Hv. 5. landsk. er, eins og fleiri þingmönnum, illa við alla óþarfa eyðslu á landsfje, sjerstaklega stofnun embætta, sem hann álítur óþörf. En að stofna til nefndar, sem ef til vill starfar árum saman með ærnum kostnaði, fer í svipaða átt.

Jeg legg til, að máli þessu sje vísað til stjórnarinnar. Byggi jeg þá tillögu á ummælum ráðherra, að hann treysti stjórninni, með aðstoð sjerfróðra manna, til þess að hafa undirbúið þetta fyrir næsta þing. Jeg varð þess var við 2. umr. þessa máls í hv. Nd., að einn af öruggustu flokksmönnum hv. 5. landsk. (JJ) vildi einnig, að svo yrði gert. Hann efaðist um, að betra væri að vísa málinu til milliþinganefndar. Sami þm. virtist líka líta svo á, að hætta gæti stafað af flokksstreitunni, ef nefnd væri skipuð eftir þáltill. Þetta er þm., sem hv. 5. landsk. metur mikils, og jeg get alveg fallist á þessa skoðun hans. Það er vitanlegt, að milliþinganefndir, sem starfað hafa með ærnum kostnaði, hafa stundum klofnað, svo að við getum ekki verið þess öruggir, að við fáum hjá slíkri nefnd það goðasvar við öllum ágreiningsatriðum í þessum málum, sem Alþingi lætur sjer nægja.