08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í D-deild Alþingistíðinda. (3362)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki verða langorður. En jeg vil aðeins segja hv. flm. (PÞ) það, að ef hann hefði viljað ómaka sig til þess að tala við mig eða hv. þm. Borgf. (PO) áður en hann flutti þessa till., þá hefði hann getað sparað sjer þá fyrirhöfn. Þetta mál hefir verið allmikið rætt af stjórninni undanfarna mánuði, að tilhlutun hv. þm. Borgf. (PO), og þó að það sje enn ekki komið svo langt á veg, að jeg geti sagt um það með ákveðinni vissu, hvenær brúin muni geta komist á, þá er málið þó á þeirri leið, sem hv. flm. óskar. En það getur hann sagt sjer sjálfur, að það er ekki hægt að verja stórfje til þessarar brúargerðar á árinu 1926, og jeg geri mjer ekki vonir um, að það geti orðið af nema litlum undirbúningi undir verkið á því ári, vegna þess, að í fjárlögum þeim, sem nú liggja fyrir, er ekki veitt til brúagerða nema 90 þús. kr. 1926, og af því fje gengur nokkuð til ýmsra smærri brúa og eins til aðgerðar og endurbyggingar á gömlum trjebrúm, sem ekki þykir hæfa annað en að byggja upp. Enda er það svo um þessa brú, sem er einhver sú stærsta, sem enn er ógerð, að hún þarf mikinn undirbúning, sem tekur talsverðan tíma. Jeg hefi átt tal um þetta við vegamálastjóra, og telur hann vafasamt, hvort hægt muni vera að ljúka brúargerðinni á einu ári. Einnig er enn óráðið, hvernig brúin verður gerð, og getur jafnvel verið, að vegamálastjóri þurfi að fara utan til þess að kynna sjer það atriði nánar.

Út af því, sem till. segir um framlag hjeraðsbúa, skal jeg geta þess, að það er undir yfirvegun hjá stjórninni, hvort sú leið skuli yfirleitt farin. Og sökum þess, að það er enn ekki afráðið, þá get jeg ekki sagt neitt endanlegt um það. En það get jeg sagt, að verði að því ráði horfið, þá verður það náttúrlega skoðað sem nokkur mælikvarði fyrir nauðsyn slíkra framkvæmda, hversu mikið hlutaðeigandi hjeruð vilja leggja af mörkum, þó að auðvitað verði að taka líka ýms önnur atriði til greina, svo sem efnahag hjeraðsins og umferð á staðnum og þœr ráðstafanir, sem áður kunna að hafa verið gerðar. Það getur vel komið til mála að taka innlend lán til þess að koma upp á skömmum tíma þeim brúm, sem enn eru ógerðar. En þótt að því verði horfið, sem ekki er enn ákveðið, þá hlýtur það að taka fáein ár, því að verkið er svo mikið, að ekki er hægt að leysa það af hendi á skömmum tíma.

Að þessu athuguðu sje jeg ekki ástæðu til þess að leggjast á móti till. hv. þm. Mýra (PÞ). Og jeg get endað mál mitt með því að endurtaka það, sem jeg byrjaði mitt mál á, að hv. flm. (PÞ) hefði getað fengið þessar upplýsingar, ef hann hefði viljað spyrja mig fyr um málið, engu síður en nú. En till. hans hefir í engu breytt þeim ákvörðunum, sem þegar hafa verið teknar, nje þeim ráðagerðum, sem um hefir verið rætt. En hinar almennu bollaleggingar hv. þm. (PÞ) um fjármál og skattamál yfirleitt skal jeg leiða hjá mjer. Þær koma ekki málinu við, og það yrði aðeins til þess að lengja umræðumar að fara að tala hjer um þær.