26.03.1925
Neðri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Hv. frsm. meiri hl. (ÞórJ) setti það fram svo sem fjvn. hefði öll fallist á þá till. hæstv. fjrh. (JÞ), að greiða á næstu 3 árum allar svokallaðar lausaskuldir ríkissjóðs af árlegum tekjum hans.

Öll nefndin hefir ekki fallist á þessa skoðun, en hv. frsm. (ÞórJ) var óhætt að skýra svo frá, því að hann vissi, að jeg mundi koma á eftir og segja mína skoðun alla aðra.

Stefnan er m. ö. o. sú, að láta allar framkvæmdir standa í stað, allar framkvæmdir í heilbrigðismálum, vega- og símamálum o. s. frv., sem allar eru bráðnauðsynlegar og landslýðnum kærkomnar, til þess að geta greitt lausaskuldirnar af árstekjum ríkissjóðs.

Þetta þykir mjer óviturlega ráðið og ranglátt gagnvart öllum landslýð, því að muna mega menn það, að skuldir ríkissjóðs eru að mestu leyti Alþingi sjálfu að kenna.

Það hefir árum saman látið ríkissjóð bíða stórtjón við gengisfall ísl. krónunnar. Alþingi hefir ekki viljað fallast á þá till. mína og annara, sem stöðugt hefir verið hamrað á síðan 1914, að reikna tekjur ríkissjóðs ekki í fallvöltum krónum, heldur miða þær við stöðugra verðmæti, samkvæmt föstum verðlagsskrám.

Það var ekki fyr en á síðasta þingi, að farið var að leggja 25 af hundraði við ýmsa tolla og gjöld, til þess að vega upp á móti gengishallanum. Þetta var auðvitað gott og blessað, en hefði átt að vera gert löngu áður.

Þegar fjárhagsvandræði ríkissjóðs eru að miklu leyti þinginu sjálfu að kenna, þá er því ekki rjett að bæta úr þeim á þann hátt, að landsmenn fari á mis við allar framfarir, sem miða til almenningsheilla. Og til þess að vinna upp þann halla, þarf hvergi nærri að taka á hverju ári svo mikið af árstekjunum, að af því leiði verulega stöðvun á starfsemi í landinu. En hitt er auðvitað, að ef verja á svo miklu af árstekjunum til skuldagreiðslu allan tímann, eða 3–4 ár, þá hlýtur margt það að verða útundan, sem lífsnauðsyn er, að gangi fram. Mikið hefir verið talað um góðæri það, er verið hafi síðastliðið ár, og mjög brýnt fyrir mönnum að treysta því ekki, að slíkt haldist áfram, því að brátt geti um skift. Það er alveg rjett. En ef menn vilja með þessu segja, að aðeins hafi góðæri verið hjer á landi hið síðasta ár, þá er það alveg rangt. Hitt er víst, að nú um tíma hefir góðæri ríkt, en að landsmenn hafa ekki til þess fundið, er einvörðungu skökkum ráðstöfunum þingsins að kenna. En hversu færi nú með framkvæmdirnar, ef, þegar búið væri að taka þetta af árstekjunum til þess að greiða skuldirnar, kæmi magurt ár, er greiðslunni væri lokið? Skyldu menn þá bráðfúsir á að leggja mikið fje til framkvæmda? Hitt ætla jeg sönnu nær, að þá myndi hið sama orðtak hljóma hjer sem nú, að slíkt væri ófært, því að ekki mætti skila fjárlögunum með tekjuhalla. Má því vel fara svo, að frestað verði nauðsynlegum framkvæmdum um 6–9 eða 12 ár, ef till. hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. nefndar verða samþyktar í þessu efni.

Háttv. frsm. sagði, að skuldagreiðslan myndi auka peningagildið í landinu, en hæstv. fjrh. (JÞ) komst að þeirri niðurstöðu, að það væri verðlagið innanlands, sem ákvæði það, og virðast því skuldagreiðslurnar skifta þar litlu máli. Mega þeir eigast við um þetta, og skal jeg ekki kappræða um það við þá.

Háttv. frsm. (ÞórJ) talaði um, hvílík vandræði væru að ákveða, hvaða framkvæmdir ætti helst að taka, þar sem svo lítið fje væri fyrir hendi, en svo mikið ógert, og fylgdi síðan, svo sem bar, fram till. nefndarinnar. Skal jeg ekkert að þeim víkja, þar sem jeg var sammála nefndinni um alla þá liði, sem hún hefir lagt til, þótt jeg hinsvegar sjái, að brýn nauðsyn ber til, að fleira sje gert en nefndin leggur með.

Hæstv. fjrh. þakkaði nefndinni fyrir, að hún hefði fallist á skoðanir hans um borgun lausaskuldanna, en jeg þykist nú hafa látið allgreinilega í ljós, að jeg er ekki alveg jafnþakklátur honum fyrir skoðanir hans, því að jeg hygg, að stefnan sje röng. Hann kvað sjálfsagt, að stjórn og þing gerðu ekki atvinnuvegunum þann vanda að halda föstu því fje, er til rekstrar þeirra þyrfti. Mjer hefir aldrei dottið í hug, að stjórnin hjeldi því fje, heldur hefði jeg ætlað, að hún tæki samningsbundið 30 ára lán erlendis til að greiða með lausu skuldirnar. Biðu þá atvinnuvegirnir engan hnekki nje heldur yrði fjeð sett fast í bönkunum, það er til endurborgunar þyrfti.

Þá talaði hæstv. fjrh. (JÞ) á þá leið, að eftir till. nefndarinnar væru atvinnuvegirnir ekki í neyð staddir, því að hún legði til að skila 600000 kr. í landhelgissjóðinn. En jeg veit ekki til, að það fje heyri atvinnurekstrinum til nje hafi nokkru sinni verið starfsfje atvinnuveganna.

Þá sagði hæstv. fjrh. (JÞ), að ilt væri að stofna nú til mikilla framkvæmda, því að úr því yrði kapphlaup við atvinnuvegina, og vildi hann því geyma framkvæmdirnar til mögru áranna. En jeg ætla nú, að þótt till. fjvn., og minni hlutans líka, nái fram að ganga, þá sje ekki hætt við, að með því sje stofnað til neins kapphlaups við atvinnuvegina, nje heldur að neitt verði frá þeim tekið. Því að það vita menn, að síma- og vegalagningar eru ákaflega hentugar framkvæmdir fyrir íbúa sveitanna; geta þeir lagt fólk til þeirra og fengið fje fyrir, sem þeim er hentugt og kærkomið, og er síður en svo, að þessar framkvæmdir komi á nokkru kapphlaupi við búskapinn. Hitt mun og heldur ekki vanalegt, að þeir menn stundi þessa vinnu, sem sjó sækja, svo að ekki er heldur um kapphlaup að ræða við sjávarútveginn. Það þarf líka svo lítinn vinnukraft til þeirra framkvæmda, sem báðir hlutar nefndarinnar og eins einstakir hv. þm. hafa lagt til, að gerðar verði, að ekki er nein hætta á, að hörgull verði á fólki til annara verka fyrir þær sakir.

En þegar hæstv. fjrh. (JÞ) er að ræða um að geyma framkvæmdir þessar til mögru áranna, þá væri það vitanlega einkar viturlega ráðið, ef vitanlegt væri, að þær yrðu gerðar þá. Það er alveg auðvitað, að gott væri að geta aukið framkvæmdir landsins, þegar illa árar, en jeg fellst bara ekki á þetta viturlega ráð fyrir þær sakir, að mjer dettur ekki í hug, að þingið fari að veita mikið fje til framkvæmda hin mögru ár, jafnvel þó að landsstjórnin verði öll af vilja gerð í því efni. Nei, hitt veit jeg fyrir víst, að þegar hin mögru ár koma, þá mun hin afskaplega skepna, sem barlómur heitir, kveina hjer svo hátt í salnum, að öllum framkvæmdum verður niður drepið.

Mun jeg nú ekki deila frekar um þessa hluti, og gæti í rauninni vel sest niður, úr því enginn hlustar eftir, því að mjer finst harla leitt að tala fyrir berum salnum. Þó get jeg ekki gengið með öllu frá því, sem jeg ætlaði að segja um till. mínar, til þess að þær skuli ekki fara óumtalaðar til atkvgr.

Fyrst vil jeg minna á þá till. mína að lækka 600000 kr. gjaldið til borgunar lausu skuldanna niður í 300000 kr. Er það í fullu samræmi við skoðun mína á því, hvernig borgun lausu skuldanna skyldi varið. Aðeins hefi jeg ekki fært þetta nóg niður, því að jeg ætla ekki, að hæstv. stjóra muni hika við að hverfa að því ráði að taka samningsbundið 30 ára lán til þessarar greiðslu, og væri þá óþarft, að þessi liður væri svo hár sem enn er eftir till. mínum.

Jeg vil og geta þess, að í þessum kafla, sem hjer um ræðir, hefi jeg í nefndinni áskilið mjer óbundið atkvæði um 12. liðinn, þ. e. ríkisráðskostnaðinn, og 14. liðinn, ritfje landlæknis, í till. nefndarinnar. Mjer finst ekki minsta ástæða til að ætla ríkissjóði að græða 500 kr. á þessum manni, og mun því greiða atkvæði þar á móti till. hv. meiri hl. nefndarinnar.

Um mínar eigin till. skal jeg vera mjög fáorður. Jeg vil þakka hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir það, hversu vel hann mælti með 2. lið á þskj. 204. Gerði hann það betur en jeg hefði getað sjálfur gert, og get jeg því látið þar við sitja. Annars get jeg getið þess, að jeg væri fús á að ætla þessum lækni bæði dýrtíðar- og aldursuppbót, eins og um var samið, og finst mjer hastarlegt, hversu menn að undanförnu hafa lagt hann í einelti, en jeg býst nú við, að eftir ræðu hæstv. fjrh. muni menn ekki hika við að greiða till. minni atkvæði sitt.

Um 3. lið vil jeg segja það, að jeg teldi það farsællega ráðið að knýta Jón Kristjánsson lækni við háskólann á sama hátt og háls-, nef- og eyrnalækninn, og að borga honum þessa litlu upphæð, 1000 kr. á ári, fyrir það, að hann ljeti nemendur í læknadeild njóta tilsagnar í sjerfrœðigrein sinni og kendi þeim að fara með þau hin dýru verkfæri, er hann hefir fengið handa lækningastofu sinni. Er læknum nauðsyn á að kunna með þessi verkfæri að fara, þótt gera megi ráð fyrir, að þeir geti ekki aflað sjer þeirra allra dýrustu. En sum þeirra geta þeir sjálfsagt fengið. Eru sum þessara áhalda einkar gagnleg við ýmsa sjúkdóma, einkum diatermi — jeg þekki ekkert íslenskt orð yfir það — og læknanemum væri mikill hagur af að kynnast þeim. Býst jeg því við, að menn fallist á þessa brtt. og greiði henni atkvæði.

Þá hefi jeg komið fram með brtt. við 12. gr., sem hv. meiri hl. nefndarinnar vildi ekki taka upp, en mjer þótti rjett, að þær kæmu til umr. og atkv. í þessari háttv. deild. Jeg lít svo á, að öll þau mál, sem varða heilbrigði eða sjúkdóma landsmanna, sjeu svo mikilsverð, að ekki megi minna vera en að almenningur geti sjeð í þingtíðindunum, hvaða skoðun háttv. þm. hafi á þeim.

Hv. frsm. (ÞórJ) sagði, að þetta væru að vísu merkileg mál, en hitt væri fyrst og fremst um að gera, að líta á fjárhagslegu hliðina og gæta fjárhagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar. Jeg býst nú ekki við, að þær fjárveitingar, sem hjer er farið fram á, myndu, þótt samþyktar væru, gera þjóðina fjárhagslega ósjálfstæða, en jeg verð jafnvel að segja, að þótt það stappaði nærri því, þá bæri hv. þm. á það að líta, hvort þjóðin væri betur fær sjúk eða heilbrigð, ef hún væri fjárhagslega ósjálfstæð. Fleira er gott en beinharðir peningar, og hitt er líka víst, að heilbrigðir eiga meiri kost á að vinna sjer inn fje en sjúkir, sem verða að liggja uppi á skyldfólki sínu og kosta það ærna peninga. Er það því ætíð beinn gróði fyrir ríkissjóð, að lagt sje út fje til varnar sjúkdómum, því að það stuðlar að því að koma upp heilbrigðum mönnum, sem láta fje í hann renna.

Einn liðurinn, sem jeg ber fram, er um að styrkja stúlku til hjúkrunarnáms. Vita allir menn, að það nám verður ekki numið til fullnustu hjer á landi meðan landssjúkrahúsið er ekki komið upp, sem jeg geri ráð fyrir að farið verði að veita fje til á þessu ári. En meðan það er ekki fullreist, verður að senda hjúkrunarnema utan. Jeg hefi sjálfur talsverð kynni af sjúkdómum og veit, hve mikils virði það er, að þeir, sem sjúklinga stunda, kunni með þá að fara. Því finst mjer því fje ekki illa varið, sem gengur til þess að styrkja þær stúlkur, er þetta nám stunda erlendis, og hitt er víst, að fæstir foreldrar hafa efni á að sjá dætrum sínum farborða í stórbæjum, meðan þær stunda þetta nám. Sú stúlka, sem hjer um ræðir, er dóttir Guðjóns Bachmanns, sem unnið hefir að vegagerð í Borgarfirði, og mun hann ekki svo efnaður, að hann geti haldið dóttur sína við þetta nám án þess að hún fái einhvern styrk. En að sjálfsögðu skal gert það, sem unt er, til þess að láta þær stúlkur, er taka sjálfviljugar að sjer þetta líknarstarf, fá kost á því að njóta byrjunarnáms hjer heima, þar sem kostnaðurinn er minni, og tel jeg því rjett að veita fjelagi íslenskra hjúkrunarkvenna þessa litlu upphæð, sem hjer er nefnd, til að halda uppi kenslu í þessum fræðum.

Það er gott að ýta undir hollar hreyfingar, og þegar einstaklingamir eru fúsir til að gera meira en skyldu sína og vinna þau verk, sem með rjettu eiga að hvíla á ríkinu, þá má ekki minna vera en það sje viðurkent og þeir hvattir með lítilfjörlegum styrk.

Þá hefi jeg lagt til, að Heilsuhælisfjelag Norðurlands fái einn þriðja af þeim styrk, sem það hefir beðið um til heilsuhælis norðanlands. Síðan heilsuhælið á Vífilsstöðum var reist, er þetta að mínu viti það nauðsynlegasta fyrirtæki, sem ráðist hefir verið í hjer á landi. Það er vitanlegt, að ekki er hægt að koma fyrir á Vífilsstöðum öllum þeim sjúklingum, sem í hæli þurfa að fara, bæði til þess að þeir verði læknaðir, ef unt er, og eins til hins, að þeir breiði ekki út sjúkdóminn sí og æ með því að liggja heima í slæmum húsakynnum, þar sem ómögulegt er að koma við sóttvörnum. En svo hagar víðast til í bæjarhúsum, hvar sem leitað er á landinu. Og þar sem nú þessir menn fyrir norðan hafa sýnt slíkan áhuga, að þeir þegar hafa skotið saman 120 þús. kr., — í fyrrakvöld gaf einn heila jörð, — þá skil jeg ekki í því, að hv. þdm. sýni þeim minni viðurkenningu en þá, að fallast á þessa till mína, ekki síst fyrir þá sök, að öllum hlýtur að vera ljóst, að þessir menn eru hjer í rauninni að inna af hendi beina skyldu ríkissjóðs. Jeg hefi reynt að reisa skorður við því, að þetta fje fari til annars en til er ætlast, með því að setja þá aths. við fjárveitinguna, að landlæknir skuli hafa eftirlit með stofnuninni, og eins skuli hún verða eign ríkissjóðs, ef fjelagið legst niður, hættir að starfrækja hana eða gerir það ófullnægjandi. Fari svo, að þessir menn, sem lagt hafa fje að hálfu eða meira til stofnunarinnar, afræki hana, þá verður ríkið samt aðnjótandi þess áhuga, sem þeir þegar hafa sýnt, en ef alt gengur vel og fjelagið heldur áfram og rekur stofnunina eins of ber, þá græðir ríkið samt stofnun, sem komið er á fót fyrir áhuga einstaklinganna og rekin er með sama áhuganum og miðar að því að gera hina sjúku þjóð að heilbrigðri þjóð. Er hvorttveggja vel.

Á sömu skoðun og jeg nú hefi lýst er bygð hin litla fjárveiting, sem jeg fer fram á til Rauða kross Íslands. Þar er um hjúkrunarstarfsemi að ræða, og vildi jeg gjarnan láta sjást, að háttv. þdm. hefðu komið auga á, hvað fólkið er að gera, þegar það með fyrirhöfn og kostnaði vinnur að líknarstarfsemi, sem einstaklingunum ber ekki skylda til, en gerir samt af einskærum áhuga á sannri velferð þjóðarinnar. Er þetta ekki mikil viðurkenning fyrir slíkt.

Sama máli gegnir um fjárhæðina til Berklavarnafjelags Íslands, sem raunar er alt of lítil og ófullkomin. Þetta fjelag vinnur að því sama og Heilsuhælisfjelag Norðurlands. Með áhuga og fórnfýsi starfar það að því að ala upp heilbrigða þjóð, og ætti slíkt ekki að fara viðurkenningarlaust framhjá þinginu. Eins ætti ekki í það að horfa að styrkja það lítið eitt í þakklætisskyni, þar sem það má það vel vita, að slíkt starf ljettir ekki lítið af kostnaði ríkissjóðs, því að fjelagið vinnur mikið af því, sem annars yrði að vinna á alþjóðarkostnað, eða, ef það væri ekki gert, myndi leiða til ennþá meiri alþjóðarkostnaðar og skaða.

Þá er nýr liður um vegarlagning, eða hinn svonefnda Vesturlandsveg frá Fellsenda á leið suður yfir Bröttubrekku. Eins og menn vita, er Dalasýsla mjög afskekt og svo ilt þar um allar samgöngur, að til beinna vandræða horfir. En ef kominn væri vagnfær vegur suður yfir heiðina og niður í Borgarnes, þá væri sú bót í máli, að ef allar skipaferðir brygðust, t. d. sakir ísagöngu í firðinum, þá gætu sýslubúar sótt þangað suður það, sem þeir nauðsynlegast þyrftu á að halda.

Ætla jeg nú, þá er hjer er komið sögunni, að lofa einhverjum öðrum hv. þm. að komast að, þótt jeg hafi ekki talað um allar brtt. mínar. Því sagt get jeg kjósendum mínum, að jeg hafi komið fram með þessar fjárbeiðnir, en að litlu gagni tel jeg að rökræða um þær yfir tómum stólum. Mun jeg því hvíla mig að sinni, uns jeg hitti svo á, að hv. þdm. verða nauðbeygðir til að hlýða á mál mitt.