25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

13. mál, smjörlíki

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil taka það fram aftur, að það var ekki eitt orð af andmælum í minni ræðu, og ef hv. 2. þm. Árn. (JörB) hefir skilið það svo, þá er það af því, að honum hefir misheyrst. En jeg játa það, að jeg hefi vanrækt skyldu mína um að fylgjast vel með málinu, þegar það var hjer fyr, og vildi því athuga það nú. Jeg get sagt það til hæstv. atvrh. (MG), að jeg kannast við tilgang hans, og er honum þakklátur fyrir. En jeg get bætt því við, að einn starfsmaður Búnaðarfjelags Íslands hefir snúið sjer til mín og æskt þess, að fjelagið fengi að láta álit sitt í ljós um þetta mál, og þess vegna ber jeg fram þá ósk, að þetta fáist, og jeg skal bæta því við sem einn úr stjórn Búnaðarfjelags Íslands, að það skal ekki verða nema örlítil töf, því að á morgun er fundur í stjórn fjelagsins, svo að hæstv. ráðherra þarf ekki að óttast, að þetta tefji fyrir málinu. Jeg ber fram þessa ósk vegna þess, að það á svo að vera, að stjórn fjelagsins fái að leggja álit sitt um þetta mál fyrir þingið.