03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

13. mál, smjörlíki

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Það er út af orðaskiftum okkar hv. þm. Barð. (HK), sessunautar míns, að jeg vil gera grein fyrir því, sem jeg tók fram í ræðu hans. Jeg sagði það ekki um hv. þm. (HK), að hann væri sannfæringarliðugur, en jeg hafði þetta orð í öðru sambandi. Hv. þm. hafði einhvern veginn fengið þá hugmynd, að jeg hefði sagt þetta um hann, og kom til mín og spurði, hvað orðið þýddi, og við það, sem hv. þm. sagði út af því, hefi jeg ekkert að leiðrjetta.

Hv. þm. Str. (TrÞ) þarf jeg litlu að svara. Hv. þm. sagði, að þetta frv. væri komið frá bændunum sjálfum; það er að vísu rjett að forminu til, því að landbúnaðarnefnd bar málið fram í upphafi. (TrÞ: Búnaðarþingið samdi frv.). Það er jeg ekki viss um; hjer segir í greinargerðinni fyrir upphaflega frv., að það sje samið af Trausta Ólafssyni og Önnu Friðriksdóttur, eftir þýðingu Gísla Guðmundssonar gerlafræðings úr þýsku. Viðvíkjandi því, að breytingar hv. Ed. beri það með sjer, að það hafi ekki þótt óþarft að setja strangari takmörk, já, það má kannske segja svo. En við hefðum eins getað gengið að frv. eins og það var borið fram af stjórninni, en gengum að þessum meiri takmörkunum í því skyni, að það yrði meira til að friða þá menn, sem í ímyndun sinni hafa gert svo mikið úr þeirri hættu, sem af samþykt frv. gæti stafað.