03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

13. mál, smjörlíki

Jörundur Brynjólfsson:

Það er vegna þess, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði, að engin sönnun væri fyrir því, að Áslækjarrjómabúið hefði ekki misnotað smjörlíkistækin við smjörframleiðsluna, þá vil jeg benda honum á, að við höfum einmitt fullkomna og ábyggilega reynslu fyrir því, að svo hefir ekki verið. Sumarið 1923 var framleitt jöfnum höndum hvorttveggja, smjör og smjörlíki, og búið hefir selt smjör og flutt út og ekki komið að neinni sök.

Hv. þm. Str. (TrÞ) vil jeg segja það, að það sje mikið mein, hvað hann hefir athugað þetta mál seint, ekki aðeins á þessu þingi, heldur í fyrra, þegar um uppgjöf á láninu var að ræða. Jeg flutti í fyrra brtt. um, að Áslækjarrjómabúinu yrðu gefnar eftir 5 þús. kr., og það var felt. Þá flutti jeg aðra brtt. um, að 3000 kr. yrðu eftir gefnar, og sú till. var feld. Og loks flutti jeg till. um 2500 kr. eftirgjöf, eða helming lánsins, og það var líka felt.

Þegar svo málið kom hjer fyrir í vetur, lagðist hv. fjvn. á móti því, að rjómabúinu yrði nokkuð gefið eftir af láninu, og þess vegna fór frv. þetta til hv. Ed. og án þess, að nokkur ágreiningur yrði um það.

Jeg verð nú að segja það, að þó að hv. þm. Str. vilji hverfa svo af hólmi, að greiða atkv. móti frv. og snúast þannig, þá trúi jeg vart, að hv. deild fylgi dæmi hans.

Að lokum skal jeg geta þess, að allur kostnaður, sem Áslækjarrjómabúið hafði af að koma á þessari smjörlíkisgerð sinni, mun hafa numið um 7000 kr., svo að þegar strokkverðið, 1500 kr., er dregið frá, verður hann þó altaf hátt á 6. þús. króna.

Frekar ætla jeg ekki að orðlengja um þetta, en læt skeika að sköpuðu um atkvœðagreiðsluna.