13.02.1925
Neðri deild: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Jeg held jeg hafi ekki sagt, að það væru aðeins 18 menn, er nám stunda erlendis, heldur að þeir væru 18, er jeg vissi um, hvaða nám þeir stundi. Hitt mun rjett, að þeir sjeu 22, er lesa við erlenda háskóla, en einn þeirra stundar dýralækningar, og má því draga hann frá, því að honum er veittur styrkur sjerstaklega.

Það er ekki rjétt, sem háttv. þm. Dala. (BJ) sagði, að Alþingi hefði lofað að styrkja ótakmarkað þá stúdenta, er úr landi vilja leita til frekara náms. En hinsvegar lítur svo út, sem fjárveitinganefnd hafi stundum bygt á þessari skoðun og talið Alþingi skylt að styrkja þessa menn. Jeg fyrir mitt leyti hefi aldrei skilið lögin svo, að Alþingi bæri skylda til ótakmarkaðra styrkveitinga, og mun þess vegna ekki telja það nein svik við stúdenta, þó að skipað verði með lögum, hvað marga stúdenta skuli styrkja árlega. Enda virðist það lítill hagnaður Háskóla Íslands að styrkja ótakmarkað stúdenta til náms erlendis, en takmarka tölu þeirra, sem styrks njóti innanlands.

En það var eitt atriði, sem hv. þm. Dala. mintist á og mjer finst, að sjálfsagt væri að taka til greina, t. d. ef eitt ár sæktu ekki nema tveir stúdentar um utanfararstyrk, þá mætti t. d. næsta ár styrkja 6 nýja stúdenta til utanfarar, svo að talan fyltist aftur, m. ö. o. að þeir, sem styrktir eru árlega, verði 16.