23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Bjarni Jónsson:

Það er undarlegt, að eftir því sem jeg heyri fleiri tala um þetta, þess ljósara verður mjer, hvað lítilmótlegt og nauða ómerkilegt það er í alla staði. Og það er næsta hart, að heil mentmn. og gáfaður mentamálaráðherra skuli ekki geta flutt neinar sjerstakar ástæður fyrir því, hvers vegna þetta frv. er fram borið. Ætla mætti nú, að þær væru einkum tvær. Annaðhvort að vernda ætti stúdenta fyrir þinginu með lögunum, en það næst trauðla, því þingið getur eins afnumið lögin næsta ár eins og sett þau nú. Í öðru lagi kynnu sparnaðarástæður að ráða, en svo er í rauninni ekki, því að stundi nú aðeins 18–20 menn nám erlendis, þá er harla lítið unnið við að takmarka styrkinn við 16 menn. Og úr því játað er, að áraskifti megi verða á tölunum og mennirnir geti orðið 16–20 einhver árin, þá ætti það að standa í lögunum, en ekki aðeins í þingræðunum, því vel mætti svo fara, að þau ummæli gleymdust, þegar þessi stórmerkilegu lög eru gömul orðin.

Hv. frsm. (BL) talaði auðsjáanlega fyrir hönd nefndarinnar, en ekki sína. Hann ætlaði að sannfæra mig um, að ástæða væri til að hjálpa stjórninni með nefndarskipun til þess að velja úr mönnunum, er um styrkinn sæktu, því ekkert væri í lögunum ákveðið, hvaða stúdentar ættu að fá styrkinn. Þetta er rjett, að engir eru nafngreindir, enda ilt að telja nöfn þeirra manna, sem enginn veit hvað heita. En jeg vil minna hv. þm. (BL) á gamla tímann. Hversu færir heldur hann, að skólastjórinn í hans eigin skóla og aðrir þeir, sem tilnefndir eru til þessarar nefndar, hefðu í þann tíð verið til þess að gera mun á honum og öðrum, sem tóku próf með honum? Því þeir menn, er hjer um ræðir, koma beint frá prófborðinu, og veit þá ekki einu sinni skrattinn sjálfur, hver þeirra muni efnilegastur. Heldur segir skólastjóri og hinir aðrir nákvæmlega það eitt um þá, er í prófvottorðinu stendur. En svo heimska ætla jeg enga stjórn, að hún þurfi hjálp heillar nefndar til að geta lesið það. Og hitt hygg jeg líka, að til þess sjeu dæmi í veraldarsögunni, og jafnvel í Íslandssögu, að betur hafi ræst úr þeim, er stóðu sig illa, en hinum, sem altaf „brillieruðu“. Auðvitað rýri jeg mína eigin hátign með þessu, því að jeg var altaf dux, en jeg þekki til þess, að margir af mínum skólabræðrum, sem stóðu sig mun lakar, hafa reynst ennþá miklu duglegri í lífinu en jeg. Ætla jeg því, að prófin úrskurði ekki neitt um framtíð manna, enda þess að gæta, að menn eru mjög misgamlir í skóla og sinn á hverju þroskastigi. Því er það helber heimska að binda sig við þessar próftölur, og þessi nefndartill. aðeins aukaskraut við frv., sem var ekki of fagurt fyrir. Og lítill sparnaður mun að henni. Hvaða kaup eiga nú þessir menn að fá, því enginn þeirra er skyldugur að vinna að þessu kauplaust? (MG: Dagsbrúnartaxta). Það má vera, en þá fer það allmikið eftir hverjir ráða í landinu, bolsevikarnir eða íhaldið. Því ef bolsevikarnir taka völdin, mun taxtinn að sjálfsögðu hækka, og getur þá nefndin orðið fulldýr, að sumra dómi. Yfir höfuð að tala, jeg sje enga ástæðu til, að þessi lög sjeu sett, nje heldur að þau geti orðið nema til ills eins.

Hv. frsm. (BL) sagði, að þessi nefndarskipun væri ekki til þess að ljetta störfum af stjórninni, heldur til hins, að firra hana ámæli og tortryggni. Það er þá orðsýki f. h. stjórnarinnar, sem veldur þessari till. En konung skal hafa til frægðar og ekki til langlífis. Jeg skil ekki í, að neinn sje svo vesæll, að hann bjóði sig fram til þess að stjórna heilu landi og vilji síðan losa sig við ábyrgðina og skella á aðra. Og því síður ætla jeg, að neinn ráðherra gerist svo lítilmótlegur, að hann af flokksástæðum eða pólitík láti efnilegan og góðan stúdent missa styrksins, en veiti hann öðrum, er hann veit að er ljelegri. Og, ef hann gerir það, þá á hann líka að bera fulla stjórnmálaábyrgð á því og verða krafinn og krufinn fyrir það frammi fyrir dómstóli almennings. Hitt má honum ekki líðast, að skjóta sjer þá að baki einnar eða neinnar nefndar. Nei, hann á sjálfur að bera ábyrgðina og ekki að fá að kasta henni á aðra. Nema til þess sje ætlast, að þetta smámál, sem svo er nauðaómerkilegt, verði til þess að sanna, að „af mjóum þvengjum læra hundarnir að stela“. Sá ráðherra, sem ekki þyrði að taka á sig þá ábyrgð, er hjer um ræðir, myndi sjálfsagt reyna engu síður að skjóta henni af sjer í stórmálunum.