25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Magnús Torfason:

Eins og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefir tekið fram, er mín brtt. sama eðlis og hans, gerð til þess að fram komi það, sem hv. þm. Dala. (BJ) hjelt fram, að ekki mætti minka styrkinn, þó að fáir umsækjendur yrðu eitt ár.

Þá er breytt skilyrði fyrir styrkveitingunni svo, að hún skal bundin við I. einkunn, með tilliti til núgildandi reglugerðar skólans. Virðist sjálfsagt að styrkja ekki aðra til náms við erlenda skóla en þá, sem hafa sæmilega einkunn frá þessum skóla, enda ætti að vera vandalítið að ná I. einkunn, þar sem hv. þm. Dala. (BJ) segir, að stúdentsprófið sje ekki nema nokkurskonar barnaskólapróf.

Það er alt annað að binda styrk við skóla hjer eða erlenda skóla. Það er altaf eitthvað af þeim mönnum, sem nám sækir erlendis, sem fer út í buskann og kemur aldrei aftur. Finst mjer rjett að hlúa að skólum hjer með því að þrengja heldur aðgang að erlendu námi. Það mundi síst auka veg og aðsókn skóla hjer, ef allar dyr að erlendum skólum væru opnaðar upp á gátt.