28.02.1925
Efri deild: 19. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Jeg býst við, að hv. þdm. hafi kynt sjer frv. og ástæður stjórnarinnar fyrir því, og jeg vona, að málið sæti sömu góðu meðferð hjer og það fjekk í hv. Nd. Þar hefir sú eina smábreyting verið gerð á því, að þar sem ekki var gert ráð fyrir neinni nefnd, sem kenslumálaráðherrann gæti leitað ráða hjá viðvíkjandi styrkveitingunni, þá hafa ákvæði þar að lútandi verið sett í hv. Nd. Jeg taldi þessa breytingu óþarfa, en mælti ekki móti henni.

Aðalatriði frv. eru þessi: Í fyrsta lagi er stúdentunum með því trygður hinn veitti styrkur um hinn ákveðna tíma, og á hinn bóginn er beinlínis ákveðið, hvað marga skamta skuli veita til styrktar íslenskum stúdentum við erlenda háskóla. Ætla jeg, að stjórninni hafi heppnast að gæta hófs í máli þessu og una megi við að hafa skamtana ekki fleiri, eða í mesta lagi 16 árlega. Stúdentarnir vita og, að hverju þeir mega ganga. Hitt er og ekki lítils vert, að með þessum hætti má velja úr, þannig, að þeim má veita styrkinn, sem á þeim tíma, er um ræðir, virðast hans best maklegir og hafa mesta þörf fyrir hann.

Jeg skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vænti þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. mentmn.