08.04.1925
Efri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Mjer þykir leitt, að hæstv. forsrh. skyldi ekki taka betur í þessa brtt. en raun varð á. Mjer komu þessar undirtektir á óvart frá mentamálaráðherra.

Landið kostar dýran háskóla, og hefir gert í nokkur ár. Kostnaður við hann fer vaxandi, eftir því sem starfsmönnum er fjölgað, en það er reynt óspart í þessari hv. deild. En samhliða því, sem kostnaður við háskólann vex, hefir þingið mjög dregið saman styrkveitingar til annara námsmanna en stúdenta. Það hefir ausið út styrk til stúdenta, þó þeir væru óreglumenn og þó engar sannanir væru fyrir því, að þeir væru að læra að gagni. Hinsvegar hefir það felt niður styrk til iðnnema og til hjúkrunarkvenna, og síðast í gær var feldur lítill styrkur til manns, sem er að ljúka vegfræðiprófi í Noregi. Hvort skyldi nú vera betra að styrkja svona fólk eða 16–20 verkfræðinga, sem búið er að kosta mikið og landið hefir enga þörf fyrir?

Hæstv. forsrh. (JM) og hv. 1. landsk. (SE) sýnast ekki hafa neinn skilning á því, að okkur vantar fólk með margskonar sjerþekkingu aðra en þá, sem háskólanám veitir. Hæstv. forsrh. (JM) var við völd, þegar mest var sukkað með fje til stúdenta. Hví kom hann þá ekki með ráð til að „kontrolera“ þessar fjárveitingar ? Ætli þessi styrkur hafi ekki verið feldur alveg niður til þess að reyna að koma vitinu fyrir stjórnina? Það er engin ástæða fyrir hæstv. forsrh. (JM) að vera glaður yfir því, að hafa staðið á bak við þetta gamla sukk. Þar hafa sumir verið fyr og síðar, sem duglegri hafa verið að drekka en nema. Þessir 20 verkfræðingar koma nú bráðum heim til þess að koma á stað fyrirtækjum eins og gasstöðinni til dæmis. Þá verður kannske hæstv. forsrh. þökkuð forsjónin í mentamálunum. En þegar hjer vantar menn til þess að leggja vegi, þegar ráða verður hingað danskar hjúkrunarkonur, þá fær hæstv. forsrh. líka eitthvað af þakklæti fyrir þann skilning, sem hann hefir sýnt í þessum málum.

Jeg gerði það af ásettu ráði að geyma það, þar til jeg hefði heyrt, hvernig hæstv. stjórn tók í þetta mál, að minnast á það, sem einn helsti skólamaður þessa lands hefir lagt til þessara mála, kennari við mentaskólann. Hann hefir sýnt fram á, að það væri miklu eðlilegra, að utanfararstyrknum væri breytt í lán, og jafnframt haft aðhald um það, að þetta fólk, sem lærir ítarlega, komi heim og starfi fyrir landið. Það er alveg eins og stjórnin hafi verið að leika sjer að því að kasta peningum í fólk, sem við höfum ekkert með að gera, eða sama sem ekkert, og sem svo kannske sest að í öðrum löndum. Það er t. d. um einn mann, sem jeg ekki vil nefna, sem þingið hefir styrkt með fje. Ef hann fær ekki meira, þá sest hann að erlendis og notar þetta sjernám, sem þingið hefir styrkt hann til, utanlands. En það er ekkert við þessu að segja, því að það hefir ekkert skipulag verið á þessu hingað til, og það er ekki lán, sem talað er um að veita. (Forsrh. JM: Það kemur fyrir, að þeir vilja fara hjeðan). Já, það kemur fyrir, en þá er jafngott, að þessir námsmenn borgi sinn styrk til landsins aftur. Jeg sje að vísu, að það væri rjettara að breyta öllum þessum styrk í lán, vaxtalaust og endurgreitt á löngum tíma, en að ríkið hefði einhverja tryggingu fyrir því, að þeir, sem að þessum mönnum standa, borguðu lánið, ef þeir kæmu ekki heim aftur. Jeg get því ekki sjeð annað en að þetta frv. sje borið fram með algerðu skilningsleysi á þörfum þjóðarinnar, því að það veit hæstv. ráðherra (JM) vel, að ekki taka allar hjúkrunarkonur próf við mentaskólann hjer, áður en þær fara. En jeg tek það sem fylstu ástæðu fyrir því, að hæstv. ráðherra (JM) gat ekki sagt neitt um till. mína nema loðin óvildarorð, að þarna var stungið á kýli, sem viðkvæmt er. Jeg býst ekki við, að hæstv. forsrh. (JM) haldi, að iðnaðurinn standi svo hátt hjer á landi, að hann geti varið það með nokkru viti, að við þurfum ekkert að læra í þeim efnum; en jeg hefi ekkert á móti því, að það komi dálítið fram af þessari þoku, sem bólaði á hjá hæstv. forsrh. (JM), því að þegar þjóðin sjer, að það hafa verið útilokaðir allir nema stúdentar, og þegar verið er að reyna að útbúa aðganginn að mentaskólanum svo, að ekki nema Reykvíkingar geti komist þar að, þá getum við síðar talast við um það, hvernig þessi mentamálaráðherra (JM) býr að fólki úti um landið, þegar búið verður með frv. því, sem nú er á ferðinni í hv. Nd., að loka mentaskólanum fyrir aðkomumönnum, sem jeg býst við, að hæstv. forsrh. (JM) og flokkur hans hafi mikla samúð með, og þegar enginn námsstyrkur á að fást nema handa þessum útvöldu börnum Reykjavíkur.