08.04.1925
Efri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Jeg ætla ekki að láta hv. frsm. minni hl. mentmn.(JJ)fá mig til að halda langa ræðu um þetta mál. Jeg get ekki sjeð, að það sje neitt þokukent hjá mjer, þótt jeg segi, að það sje fásinna að bera svona brtt. fram við þetta frv. En hitt sagði jeg ekkert um, hvort það gæti ekki verið rjettmætt í sjálfu sjer að veita öðrum en stúdentum styrk til að nema utanlands. Ef jeg greiði atkv. á móti því að veita eitthvað í fjárlögum til þess, þá getum við talað um það. Það er þessi tilhneiging hv. þm. (JJ) til að blanda algerlega óskyldum efnum saman; ef hv. þm. (JJ) kallar það þoku, má hann það fyrir mjer, en sú þoka er þá eingöngu í höfði hv. þm. (JJ) sjálfs.

Þá talaði hv. þm. (JJ) um óreglu stúdenta. Jeg hefi spurst fyrir um það í Kaupmannahöfn og víðar, en jeg hefi altaf fengið sama svarið, að stúdentar erlendis stundi nám sitt mjög vel nú á síðari árum og sjeu reglusamir. Hvort þetta er undantekningarlaust, skal jeg ekki um segja, því að eftirlitið er dálítið óhægt, þegar þeir eru dreifðir út um allan heim, sumir í Þýskalandi, sumir í Austurríki, og jeg held í Ameríku. En um stúdenta, sem eru í Danmörku, hefi jeg sannspurt, að þeir eru bæði mjög reglusamir og ástundunarsamir, og jeg held líka, að þeirra sæmilegu próf bendi á þetta, svo að hv. þm. (JJ) talar hjer um hluti, sem hann veit ekkert um. (JJ: Til dæmis?). T. d. um það, að jeg hafi verið bruðlunarsamur á þennan styrk til stúdenta, því að jeg hefi fengið harðar átölur í annari deildinni fyrir ,það, að jeg hafi ekki látið nóg. Það voru veittar 8 þús. kr. til stúdenta erlendis í fyrstu, og jeg ljet ekki skifta nema þessu, en svo kemur fjvn. Nd. og segir, að því hafi verið lofað á þinginu 1918, að stúdentar skyldu hafa sama rjett og áður, þegar þeir höfðu Garðstyrk. (JJ: Fjvn. er annað en þingið). Já, en það veitti fjeð eftir till. fjvn. Auk þess get jeg sagt hv. þm. (JJ) það, að jeg hefi einmitt stöðugt haldið því fram, að í sambandi við sambandslögin 1918 eða annars hafi ekki verið gefið neitt loforð stúdentum alment, að íslenska ríkið skyldi bæta þeim upp burtfelling Garðstyrks, en þingið virtist annarar skoðunar í því efni, svo að það er fásinna af hv. þm. að vera að deila á mig, sem einmitt stóð einn uppi með svipaða skoðun og háttv. þm. (JJ) talar um. Á hinn bóginn verð jeg að játa, að það var að sumu leyti gert ráð fyrir því við samningana 1918, en jeg skoðaði það aldrei sem loforð. Jeg væri hv. þm. (JJ) þakklátur, ef hann vildi segja mjer, hvort einhverjir stúdentar væru óreglumenn; þeir yrðu þá sviftir styrknum þegar í stað. (JJ: Jeg er enginn eftirlitsmaður fyrir stjórnina). Já, en jeg skora á hv. þm. (JJ) að sanna orð sín, því að það er rangt að svívirða námsmenn okkar á þennan hátt. (JJ: Hæstv. ráðherra (JM) veit ekkert um það). Jeg hefi það fyrir satt, að það sje yfirleitt gott eitt að segja um reglusemi og ástundun stúdenta nú, og það er ekki til neins fyrir hv. þm. (JJ) að fara að tala um óreglu stúdenta upp í opið geðið á okkur. Jeg er auk þess alveg hissa á því, að hv. þm. (JJ) skuli vilja blanda till. eins og þessari inn í frv. eins og það nú er. Að það þurfi að veita öðrum líkan styrk, má vel vera, en það verður að gera á annan hátt.