14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

Mjer virtist hv. þdm. taka nokkuð hart á þeim brtt., sem komu hjer til atkv. áður, þeim, er feldar voru hjer við 2. umr. þessa máls. Jeg hefði vænst þess, að hv. þd. myndi samþykkja, að orðin „hjer á landi“ í 1. gr. frv. fjellu burt, og þá ekki síður að veita sjerstaklega styrkinn þeim mönnum, sem þjóðin þarfnaðist mest. Nefndin bar þessar till. fram samkvæmt óskum háskólaráðsins, og þótti mjer furðu sæta, hve ónáðugar viðtökur þær fengu. Mun jeg ekki um þetta deila, en nefni það aðeins af því, að jeg býst við, að þriðja till., um að fjölga tölu stúdenta þeirra, er árlega megi fá styrk, upp í 6 úr 4, muni ekki mæta neinni hlýju, úr því að hinar tvær sjálfsögðu till. voru feldar. En jeg mun nú láta atkvgr. samt sem áður skera úr um þessa till. sem hinar. Jeg kannast fyllilega við það, sem hæstv. forsrh. (JM) sagði um það, að þó aðeins stæðu 8 þús. kr. í fjárlögum, þá var ætlast til þess, að hver stúdent fengi 1200 kr. Í minni ráðherratíð var þessi fjárlagaupphæð ætíð skoðuð sem áætlunarupphæð, og fastlega minnir mig, að fyrir þeirri skoðun væru ummæli fjvn. eða frsm. hennar. Eins er jeg fús til að játa, að jeg ljet borga styrkinn til stúdentanna í Kaupmannahöfn í dönskum krónum. Stafaði það af því, að samkv. þeim upplýsingum, sem jeg fjekk frá sendiherranum og öðrum, sem kunnugir voru málum stúdenta, þá áttu þeir við mjög erfið kjör að búa og dýrtíð mikla. Því gat jeg ekki annað en orðið við þeim sanngirniskröfum að greiða þeim styrkinn í dönskum krónum. Jeg vil og í þessu sambandi geta þess, og leggja áherslu á það, að jeg hefi sömu söguna að segja og hæstv. forsrh., að fullyrt var, að stúdentar ræktu nám sitt af mikilli ástundun. Jeg kyntist og sjálfur nokkrum stúdentum og komst að raun um, að þeir vörðu styrk sínum vel og lögðu kapp á nám sitt.

Hv. 5. landsk. (JJ) talaði mikið um óreglu stúdenta fyr á tímum. Það má vitaskuld gera slíkt, en þess verður að gæta, að víðar mun þá hafa verið pottur brotinn í því efni. Það má segja, að hver maður er meira og minna ávöxtur síns tíma, og ef bera á stúdentum fyrri tíma það á brýn, að þeir hafi verið óreglumenn, þá verður að hafa í huga, að svo mun hafa verið um marga í öðrum stjettum þjóðfjelagsins.

En hvort sem litið er til síðustu eða eldri tíma, þá er það augljóst og öllum kunnugt, að við höfum átt ótal stúdenta erlendis, sem gert hafa landi sínu sóma, bæði meðan þeir voru utan og eins eftir að þeir komu heim, og það einmitt af því, að þeir færðu sjer tímann og námið vel í nyt. Hitt er auðvitað, að þegar Garðstyrksins naut við og allir áttu kost á að fara utan, þá var engin furða, þótt í þeim stóra hópi fyndust stöku óreglumenn. En ekki munu íslenskir stúdentar hafa skorið sig neitt út úr í þeim efnum, heldur mun líkt hafa verið bæði um norska og danska stúdenta.

Nú er kunnugt, að íslenskir stúdentar rækja vel nám sitt ytra. Og það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er það, að á öllum tímum hafa utanfarir stúdenta orðið til blessunar og heilla fyrir þjóðina. Því enginn neitar því, að þeir, sem utan fóru, Öfluðu sjer meiri menningar og stærra víðsýnis, og mótuðu því oft þjóðina manna mest, þegar þeir komu heim. Sakir þessa get jeg fyrir mitt leyti með góðri samvisku orðið við tilmælum háskólaráðsins um að flytja þessa brtt., um að í staðinn fyrir 4 fái 6 stúdentar styrk til utanfarar á ári hverju. Undanfarið hafa allir stúdentar átt rjett á utanfararstyrk, og er því sá rjettur harla mikið takmarkaður, þó að þessi brtt verði samþykt. En sjerstaklega mæli jeg með till. af því, að þeir, sem utan fara og stunda nám sitt vel, margborga landinu styrkinn aftur með því, er þeir koma heim, að leggja drjúgan skerf til þekkingar á ýmsum mestu nauðsynjamálum þjóðarinnar.

Jeg skal ekki tala um brtt. hv. 5. landsk. (JJ). Jeg tók fram við 2. umr. málsins, að gott væri, að þessir menn, sem hann talar um, hefðu styrk og gætu aflað sjer þekkingar erlendis, en hinsvegar má ekki bera þetta fram í sambandi við þetta frv., því að það getur orðið því að falli. Þessi brtt. getur komið fram í öðru sambandi, t. d. í fjárlögunum. En það má ekki með nokkru móti fara svo, að umheiminum sje lokað fyrir stúdentum okkar, þannig að þeir fái engan styrk úr ríkissjóði. Slíkt ástand er óhafandi, sökum þess að mörg og mikil störf eru hjer óunnin, sem menn geta ekki aflað sjer nægilegrar þekkingar á hjer, en hinsvegar eru fæstir svo efnum búnir, að þeir geti kostað sig sjálfir til náms. Þó að jeg sje þannig að nokkru leyti samþykkur brtt. hv. 5. landsk. (JJ), mun jeg greiða atkvæði á móti henni í sambandi við þetta frv.

Jeg vil að lokum biðja hv. þdm. að taka til athugunar, hvort ekki mundi hægt að auka tölu stúdentanna úr 4 upp í 6, með tilliti til þess, að hvert sem maður lítur, í fortíð og nútíð, sjer maður það, að þeir menn, sem utan hafa farið til að stunda þar háskólanám, hafa yfirleitt unnið þjóð sinni ómetanlegt gagn og orðið henni til sóma í hvívetna. Og þar sem framfarirnar eru nú á öllum sviðum svo hraðfara, er ekki síður ástæða til þess nú en áður að halda þeim dyrum opnum, sem svo margir hafa farið í gegnum og orðið íslensku þjóðinni til sóma.