27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hefi ekki getað verið við umr. hjer í þessari hv. deild, hefi verið bundinn annarsstaðar, enda er það ekki mikið, sem jeg ætla að segja að þessu sinni.

Það er aðeins ein brtt. af þeim, sem hv. minni hl. fjvn. (BJ) flytur á þskj. 204, er jeg vildi gera að umtalsefni, og sú fyrsta í röðinni, um að taka aftur upp í fjárlög fjárveitingu til sendiherrahalds í Kaupmannahöfn. Og get jeg þá byrjað á að lýsa því yfir, að það gladdi mig mikið, er jeg sá, að brtt. þessi var komin fram.

Jeg hefi frá öndverðu verið þeirrar skoðunar, að rjett væri að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn, og það ekki einungis þjóðarmetnaðar vegna, heldur einnig af fjárhagsástæðum. Að vísu var fjárveitingin feld niður í fyrra, en jeg leit svo á, að það væri gert aðeins til bráðabirgða og einungis vegna þeirra bráðabirgðavandræða, er þá voru talin fyrir ríkissjóð að greiða af hendi jafnvel nauðsynleg gjöld.

Það hefir verið að því fundið, að Jón Krabbe, sem er danskur þegn, skuli koma fram fyrir okkar hönd og fara með umboð okkar gagnvart Dönum. Jeg get nú ekki tekið undir þessar aðfinslur eða viðurkent þær á rökum bygðar. Jóni Krabbe getum vjer altaf rólegir trúað fyrir málum vorum. Um þetta ætla jeg ekki að tala frekar að þessu sinni, það verður tækifæri til þess að fara ítarlegar út í það í öðru sambandi.

Þetta millibilsástand, sem verið hefir nú um stund, er að vísu óaðfinnanlegt að minni skoðun, en það er langt frá því, að það megi vera annað en bráðabirgðatilhögun. Það væri best að geta breytt þessu sem fyrst, og enda hægur vandi, því að ekki þarf annað en að samþykkja að veita fjeð. Lögin um sendiherrann standa óbreytt.

Jeg heyrði ekki ræðu hv. þm. Dala. (BJ) um þetta efni til enda, en um það, sem jeg heyrði, þá er jeg honum yfirleitt samdóma og tek í sama strenginn og hann, að það sje bæði metnaðar- og fjárhagsmál að hafa sendiherra búsettan í Kaupmannahöfn, enda get jeg fullyrt það, að sá hagnaður, sem við höfðum af því að hafa Svein Björnsson sendiherra okkar þar, var ómetanlegur og verður ekki tölum talinn.

Jeg verð líka að leggja áherslu á það, að það er ekki einungis Dana vegna eða sakir erinda þeirra og mála, sem við höfum að reka í Danmörku, að okkur er nauðsynlegt að hafa sendiherra þar, heldur er svo hægt um vik að grípa til hans og láta hann fara sendiferðir til annara ríkja, þar sem við eigum hagsmuna að gæta. Þetta höfum við líka gert. Sveinn Björnsson fór fyrir okkur ferðir bæði til Englands (London) og til Noregs.

Það má ekki dragast lengur en til ársins 1926, að þetta millibilsástand hverfi og að landið fái sinn sendiherra búsettan í Kaupmannahöfn. Jeg lít á málið með sömu augum og hv. þm. Dala. (BJ), og jeg get bætt við, vegna minnar eigin reynslu, að það sje landinu ómetanlegur hagur að hafa sendiherra í Höfn, frá hvaða sjónarmiði sem það er skoðað.

Jeg vil ekki vanþakka Jóni Krabbe hans starf, en það er þó annað, að hafa sendiherra, sendan hjeðan, en að setja chargé d’affaires um stund.

Jeg tel það mjög þarft, ef Alþingi vildi nú samþykkja umgetna brtt.

Jeg hefi heyrt, að hv. 2. þm. Rang. (KIJ) hafi spurt um, hvort fjárhæð sú, sem ætluð er til skrifstofukostnaðar handa lögreglustjórum og sýslumönnum, væri áætlunarupphæð eða ekki.

Það er áætlunarupphæð, sem jeg býst ekki við að þurfi að fara fram yfir.

Samkvæmt lögum hefir dómsmálaráðuneytið rjett til að ákveða fje þetta, en það á að gerast fyrir 5 ár í senn. Væri þá upphæðin ákveðin fyrirfram og tekin eftir því upp í fjárlögin.

En nú hefir ekki þótt fært að ákveða upphæðina fyrir 5 ár í einu, vegna þess hvað gengi krónunnar er lágt og óstöðugt, heldur aðeins áætlað frá ári til árs.

Þegar sýslumennirnir komu hjer saman í haust er leið, bentu þeir á þetta og töldu jafnvel, að sjer væri órjettur ger með því að ákveða ekki skrifstofukostnaðinn fyrir 5 ár í senn. En þegar þeim var sýnt fram á, hve óvíst væri verðlag krónunnar, þá fjellust þeir á rök þau, er færð voru fyrir því, að fjárhæð þessi væri ákveðin frá ári til árs. En af því að þessi leið er farin, að upphæðin er ákveðin frá ári til árs, þá er óhjákvæmilegt, að fjárveiting þessi verður að skoðast sem áætlunarupphæð.