02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Jón Baldvinsson:

Þegar jeg flutti brtt. mínar hjer um daginn, þá var orsökin til þess sú, að jeg þóttist sjá, að ekki ætti neinu að þoka frá hinu upphaflega frv. stjórnarinnar. En mjer þótti óeðlilegt að taka að kalla öll takmörkunarákvæði burtu úr lögunum og gera þau alt í einu að föstum tolllögum. Því kom jeg með brtt. mínar, að jeg vildi, að málið yrði tekið enn upp á næsta þingi og athugað, hvort tollurinn skyldi gilda áfram. Hitt atriðið, að tollurinn skuli lækka á næsta nýári, miðar til þess að gera ríkissjóði ekki eins tilfinnanlegt, ef tollurinn yrði látinn falla niður á þingi 1926. Nú hefir þessum. till. verið tekið heldur illa, einkum a.-liðnum. Á hann vill hv. fjhn. ekki fallast, en í reyndinni fellst hún á b.-liðinn, þó að hún vilji hafa aðra dagsetningu en þá, sem jeg legg þar til. Get jeg þess vegna vel fallist á till. fjhn. í því atriði, þó till. mín sje raunar betri. Það er ekki meiri munur á þeim en svo.

Hæstv. fjrh. (JÞ) taldi það mikla skerðingu á tekjum ríkissjóðs, ef till. mín yrði samþykt. Það er rjett, að verði tollinum lett af, missir ríkissjóður tekjur. En þess ber að gæta, að gjaldþol landsmanna eykst að sama skapi og vörur lækka og dýrtíðinni ljettir. Og lækki dýrtíðin, þá er það beinn hagur fyrir ríkissjóð. Það má því ekki einblína of mikið á það, að ríkissjóður missi 300–700 þús. kr. tekjur, eða heila miljón auk heldur. Það verður að athuga, hvaða fyrirkomulag í þessu efni verði happadrýgst fyrir landslýðinn.

Jeg býst við því, að till. mínar verði feldar, eftir undirtektum hv. fjhn. að dæma. En við þær hefir þó unnist það, að menn hafa athugað, að hjer átti að koma á algerlega nýjum föstum tolli, með því að eftir frv. stjórnarinnar urðu lögin bundin alt öðrum ástæðum en þau voru í fyrstu við miðuð. Hæstv. fjrh. vildi ekki hafa nein föst takmörk fyrir gildi þessara laga, með því að engar líkur væru til þess, að tekjuþörf ríkissjóðs minkaði um ófyrirsjáanlegan tíma, nema ef ske kynni, að dýrtíðaruppbótin ein lækkaði. Mjer ber nú ekki að svara fyrir hv. fjhn., en mjer virðist, að fleiri gjöld ættu að geta lækkað heldur en dýrtíðaruppbótin. Hæstv. fjrh. ætti þó ætíð að muna eftir einu atriði, sem þessi lög voru einmitt tengd við í upphafi. Hjer á jeg við lággengið. Á því hefir ríkið tapað miklu, en hækki gengið, þá getur það munað ríkið afarmiklu fje.

Jeg get svo látið útrætt um till. mínar, og þó þær nái ekki samþykki, þá lít jeg svo á, að þær hafi borið nokkurn árangur. En að lokum vil jeg taka það fram, að þó jeg kæmi með till. um það að lækka tollinn, þá hefi jeg samt ekki að neinu leyti gengið inn á rjettmæti hans. Enda hafði jeg sýnt það með því að greiða atkvæði móti frv. við 2. umr.