05.03.1925
Efri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 5. landsk. þm. kvartar undan því, að það vanti öll rök fyrir því, að gjaldinu verði haldið áfram. Svo var á honum að skilja, sem lággengi mundi ljetta af fyrir árslok 1926, þar sem hann talar fyrir því, að viðaukinn falli þá úr gildi. Þessi lagasetning var af hálfu fyrverandi stjórnar borin fram í þessu formi, sem gengisviðauki vegna lággengis á ísl. krónu. En það er margsagt í hv. Nd. og viðurkent af öllum, að raunverulega ástæðan til þess, að lögin voru fram borin, var sú, að ríkissjóður hafði ekki nœgar tekjur til þess að standast útgjöldin. Tekjuhallinn var hátt á 3. milj. kr. Óþarfi þykir mjer það vera hjá hv. 5. landsk. þm. að láta eins og hann viti ekki um þessar raunverulegu ástæður. Það bar nauðsyn til að víkja út af þeirri tekjuhallabraut, sem ríkissjóður var kominn inn á.

Hv. Nd. fjelist á uppástungu stjórnarinnar um að binda heimildina ekki við tiltekið gengi sterlingspundsins. Jeg gæti skilið mótstöðuna gegn því að láta gjaldið halda áfram, ef álitið væri, að ríkissjóður mætti missa þetta fje. En hann má ekki missa það, og þykir mjer í því sambandi rjett að taka fram, sem jeg hefi áður sagt í hv. Nd., að þótt tekjuafgangur yrði 1924, er mjög hæpið að treysta á það, að tekjuafgangur haldi áfram. Tekjuafgangurinn 1924 byggist á tvennu, sem hvorttveggja var fyrir hendi þá, en hreint ekki er víst, að verði fyrir hendi í framtíðinni. Annað er það, að allar verklegar framkvæmdir af hálfu þess opinbera voru skornar niður. Ef nú á að fara að sinna þeim, má búast við skarði í þennan 11/2 milj. kr. tekjuafgang, sem varð í fyrra. Einnig byggist allur tekjuafgangurinn á því, að árferði var svo gott, að sömu tekjustofnar gáfu 11/2 milj. meira 1924 en 1923. Ef árferði hefði ekki verið betra en 1923, mundi ríkissjóður ekki hafa gert meira en rjett slampast tekjuhallalaust yfir árið. Þetta vil jeg biðja hv. 5. landsk. þm. vel að athuga.

Hv. 5. landsk. bauð upp á hrossakaup. Það er ofureðlilegt, að jafnverslunarfróður maður og hann er noti tækifœrið til þess, þegar það gefst. Hann sagði sem sje, að ef við vildum sjá um, að frv. um afnám tóbakseinkasölunnar yrði felt, skyldi hann vera góður við stjórnina og samþykkja framlengingu gengisviðaukans. En jeg vil leyfa mjer að segja honum, að jeg er enginn verslunarmaður hjer á Alþingi og vil engin kaup við hann eiga hjer.

Háttv. 5. landsk. fór með ósannandi, er hann sagði, að farið vœri fram á að svifta ríkissjóð 1/2 milj. króna tekjum. Eftir því sem frv. um afnám tóbakseinkasölu er borið fram í Nd., er ekki rjett, að það fari fram á að svifta ríkissjóð 1/2 milj. króna tekjum. Því í 1. gr. þess er farið fram á að hækka toll á tóbaki og í síðustu grein er farið fram á að afnema einkasöluna. Nú virðist hv. 5. landsk. gera ráð fyrir því, að 1. gr., tollhækkunin, verði feld, en sú síðasta látin standa. Þetta sverðshögg á hv. 5. landsk. eftir að fremja áður en ummæli hans geta komist í nánd við sannleikann, og býst jeg ekki við, að hann sje maður til þess.

Að öðru leyti en því, sem jeg hefi nú sagt, ætla jeg ekki að rœða frumvörp, sem ekki liggja fyrir þessari hv. deild nú, og læt því nægja að svara háttv. 5. landsk. þessu, og vona ennfremur, að hann gefi ekki frekara tilefni til þess, að ræða þurfi önnur mál nú en þau, sem á dagskrá eru.