04.03.1925
Efri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get verið þakklátur hv. meiri hl. fyrir afskifti hans af málinu og hefi ekkert við hans niðurstöðu að athuga. En jeg vildi taka fram til skýringar, að hjer er alls ekki um „diplomatiskt“ embætti að ræða. Það sjest líka þegar á því, af hverjum fulltrúinn er launaður. Auðvitað verður alt gert, sem hægt er, til að veita honum sem besta aðstöðu til að koma fram sem sendimaður Íslands.

Út af ummælum hv. frsm. meiri hl. (JJós) um birtingu skýrslna skal jeg geta þess, að auðvitað er sjálfsagt, að þeir, sem hlut eiga að máli, hafi jafnan aðgang að skýrslunum, enda mun svo hafa verið hingað til. Hinsvegar getur oft staðið svo á, að ekki sje heppilegt, að allur almenningur fái að vita alt, sem í skýrslum sendimannsins stendur.

Jeg var dálítið hissa á ræðu hv. frsm. minni hl. (IP), einkum er jeg ber hana saman við nál. minni hl. Hann viðurkendi, að Gunnar Egilson hefði gert gagn með erindrekstri sínum þar syðra, en vill þó leggja embættið niður. (IP: Jú, jeg vil hafa hann áfram). Já, á hlaupum, 2–3 mánuði á ári. Sje litið á fjárhagshlið þessa máls, kemur það á daginn, að þessar stuttu ferðir hleypa kostnaði ríkissjóðs mikið fram, svo að munurinn á kostnaði við þær og föstum árslaunum mun ekki vera mjög mikill. Fargjöld eru há og dvöl á gistihúsum dýr. Auk þess munu það vera fáir, sem gefa kost á sjer til slíkra hlaupastarfa. Jeg tel mjög ómaklegt í garð hv. meiri hl. að segja, að hann leggi mesta áherslu á stöðuna, en minni áherslu á starfið. Mjer finst hann líta engu síður á það en hv. minni hl.

Hv. minni hl. blandar inn í þetta mál Spánarsamningunum, sem er alveg ástæðulaust. Það er ekki með þessu frv. verið að taka neina afstöðu til þeirra. En oss er skylt að halda við markaði vorum á Spáni eins lengi og unt er, því þrátt fyrir þó markaður aukist annarsstaðar fyrir fiskinn, þá mun langur tími líða þangað til við getum verið án markaðsins á Spáni. Þannig opnaðist á síðastliðnu ári góður markaður á Ítalíu, en fiskiframleiðslan vex líka hröðum skrefum, og því þarf markaðurinn ekki aðeins að haldast við, heldur einnig að aukast, og af sömu ástæðu getum vjer ekki hætt að flytja fisk til Spánar, þó vjer höfum líka einhvern markað annarsstaðar.

Nú er það líka svo, að hv. 2. þm. S.-M. (IP) telur þess þörf að hafa mann á Spáni til að gæta þar hagsmuna Íslands. Það, sem þá ber á milli, er það, að hann vill ekki hafa hann fastan og álítur, að styttri ferðir geti komið að fullu gagni. En hann tekur ekki tillit til þess, að sje þessi sendimaður vor búsettur á Spáni, þá er honum innan handar að hafa eftirlit með Ítalíumarkaðinum. Gæti þá vel farið svo, að markaðurinn þar ykist svo, að heppilegra væri, að sendimaðurinn flyttist þangað. Það sjest auðvitað alt á sínum tíma.

Að aðalstarf sendimannsins á Spáni eigi að vera það að draga úr fiskmarkaðinum þar, eins og er álit hv. 2. þm. S.-M. (IP), það get jeg ekki fallist á, og vona, að hann sje einn um þá skoðun.

Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta að svo búnu. Vona, að hv. deild samþykki frv. óbreytt eins og hv. meiri hl. nefndarinnar hefir lagt til.