06.03.1925
Efri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson); Jeg gæti greitt fyrri hluta brtt. atkv. En jeg tók svo eftir við 2. umr., að hæstv. atvrh. lýsti því skýlaust yfir, að ef til þess kæmi, að spanski konsúllinn yrði skipaður fiskifulltrúi á Spáni, þá yrði hann að leggja niður konsúlsembætti sitt. Það er auðvitað algerður óþarfi að taka þetta fram með lögum, því að það er sjálfgefinn hlutur, að spanskur konsúll á Íslandi getur ekki verið fiskifulltrúi okkar búsettur á Spáni. En það er nú víst ekki þetta, sem hv. þm. liggur mest á hjarta, heldur hitt, að einum ákveðnum manni verði bægt frá þessu starfi, af því hann skuldi landsverslun. (JJ:

Hann skuldar landinu. — Atvrh. MG: Landsverslun á skuldina). Jeg játa, að jeg er nú ekki eins kunnugur landsverslun og háttv. 5. landsk. Hann hefir gefið í skyn, að þessi skuld sje til orðin á óeðlilegan hátt. (JJ: Jeg hefi sagt, hvernig hún myndaðist). Jeg hefi engar sannanir fengið fyrir því, að maðurinn geti ekki verið hæfur í þjónustu landsins sem fiskifulltrúi, þó hann skuldi landsverslun samningsbundna upphæð. Jeg sje enga ástæðu fyrir hv. deild að bægja honum frá starfinu þess vegna. Jeg tók svo eftir við 2. umr., að hæstv. atvrh. lýsti því yfir, að mönnum yrði gefinn kostur á að sœkja um starfið, og svo yrði valið úr. Mjer þykir það nokkuð nýstárlegt, að koma skuli tillaga um að útiloka einn ákveðinn mann frá að gegna þessu starfi. Eftir brtt. mætti fulltrúinn ekki skulda Landsbankanum. Í brtt. stendur: „Hann skal og vera fullkomlega óháður fjárhagslega ríkinu og ríkisstofnunum“.

Jeg er hræddur um, að þetta gæti náð til nokkuð margra. Hv. þm. sagði, að hjer væri verið að tryggja, að maður með þeirri fortíð að hafa komist í skuld við landið, kæmist að. Jeg get ekki sjeð af frv. eins og það liggur fyrir, að verið sje að tryggja neinum einstökum manni stöðuna. Það má vel vera, að þessi maður sæki og fái starfið. Að minsta kosti ættu þessar dylgjur ekki að valda útilokun hans. Þessi maður, sem brtt. stefnir að, hefir verið fulltrúi landsins á Spáni, og Alþingi hefir ekki sjeð sjer fært að setja lög um það, að hann mætti ekki vera þar áfram. Mjer sýnist, að eftir orðalagi þessarar brtt. mundi verða nokkuð erfitt að finna mann, sem hefði skilyrði til að sækja. Það stendur fullum stöfum, að maðurinn eigi að vera „fullkomlega óháður fjárhagslega ríkinu og ríkisstofnunum“. En það þýðir meðal annars, að hann má ekki skulda Landsbankanum svo mikið sem smávíxil.

Hæstv. atvrh. hefir annars lýst yfir því, að um þessa umræddu skuld væri þegar samið og því máli ráðið til lykta. Og jeg skildi hv. 2. landsk. (SJ) svo, að honum væri kunnugt um, að það mál væri klárað. (JJ: Skuldin er óborguð). Það kemur ekki þessu máli við, hvort hún er borguð eða ekki. (JJ: Þarf þá ekki að borga hana?). Hjer er ekki verið að ræða um greiðslu á skuldum manna við landsverslunina. Brtt. fer fram á, eftir forsendum hv. flm., að útiloka einn mann frá þessu starfi. Það er ekki deildarinnar að gera ráðstafanir um það. Stjórnin mun sjálf geta dæmt um, hver hæfastur þykir til þessa starfs.